Freyr Rögnvaldsson, blaðamaður á Heimildinni, áður Stundinni, hefur átt í nánu samstarfi við Eddu Falak varðandi rannsóknarvinnu og greinaskrifa upp úr viðtölum hennar í miðlinum. Freyr ofbýður framganga margra gagnvart baráttukonunni, nú síðast túlkun málsmetandi aðila á uppákomunni á þrettándagleði ÍBV, er þar dúkkaði upp tröllskessa í líki Eddu með afbökun á nafni hennar.
Heimildin birti viðtal við Eddu þar sem hún lýsir ofsóknum gegn sér. Sjá hér. Freyr bendir á í pistli á Facebook að sjálfur hafi hann, líkt og Edda, ljáð þolendum rödd, sem blaðamaður, en hafi ekki orðið fyrir ofsóknum eins og Edda fyrir það. Ástæðan sé sú að ólíkt henni er hann miðaldra hvítur karlmaðu sem ber íslenskt nafn:
„Ég hef síðustu misseri unnið með Eddu Falak að umfjöllunum um nokkurn fjölda mála í Stundinni. Það hafa verið umfjallanir um mál þar sem þolendur ofbeldis hafa stigið fram, treyst Eddu fyrir sögum sínum og upplifun, og skilað skömminni þangað sem hún á heima, til gerendanna. Edda hefur unnið þrekvirki við að veita þolendum, sem í yfirgnæfandi meirihluta eru konur, rödd. Hún á aðdáun okkar skilið fyrir vikið.
En fyrir þetta hefur Edda sætt hótunum, áreiti, verið niðurlægð á opinberum vettvangi og þurft að þola hæðni og árásir, af hálfu meðal annars forsvarsfólks íþróttafélaga, svo sturlað sem það er. Og viðkvæðið er alltaf, þegar bent er á að þetta sé galið og óþolandi, að þetta sé óþarfa viðkvæmni, þetta sé nú allt bara grín og Edda sé á einhvern hátt búin að gefa skotleyfi á sjálfa sig með því að taka sér stöðu með þolendum. Að þetta sé ekkert og það sé fjarstæðukennt að verið sé að ráðast að Eddu, hvað þá af því að hún sé kona, sem beri eftirnafn sem ekki sé hefðbundið íslenskt eða vegna þess að pabbi hennar er frá Líbanon. Nei, það skipti bara engu máli!
Ég er hvítur karlmaður á miðjum aldri og heiti eins íslensku nafni og þau gerast. Ég hef aldrei þurft að þola umsátursástand um heimili mitt, að þar sé legið á hurðinni með banki og hringingum. Ég hef aldrei þurft að þola yfirstandandi áreiti í síma eða á samfélagsmiðlum, hef ekki orðið fyrir hótunum um ofbeldi eða kynferðisbrot vegna starfa minna. Samt hef ég unnið að þessum fréttamálum, þeim sömu og Edda. Samt hef ég ítrekað fjallað um fleiri og önnur mál þar sem þolendur hafa greint frá ofbeldi, hafa sagt sína sögu, fengið pláss fyrir sína rödd. Og það mun ég áfram gera eftir því sem tilefni eru til. Og því miður vill þannig til að þau tilefni virðast endalaus.“
Freyr segir að þau sem ráðast að Eddu eða gera lítið úr árásum á hana myndu aldrei þora í hann. Það sýni að framganga þeirra sé lituð kvenhatri. Hann segir að þetta fólk eigi að skammast sín:
„Þannig að við þau sem halda því fram að Edda sé bara svona viðkvæm, að hún geti bara sjálfri sér um kennt og að þær endalausu árásir og áreiti sem hún sætir séu bara grín, bara ekki neitt sem máli skiptir, við þau vil ég segja: Þið eigið að skammast ykkar. Þið eruð að taka ykkur stað eins röngu megin í sögunni og hægt er að hugsa sér. Þið eruð að taka þátt í árásum á unga konu sem hefur hugrekki til að standa upp fyrir þau sem fæstir hafa staðið upp fyrir.
Og það er vegna þess að hún er kona, vegna þess að hún ber erlent eftirnafn, vegna þess að hún er ættuð frá Líbanon og vegna þess að hún stendur upp fyrir þolendur. Þið mynduð aldrei leyfa ykkur þetta gagnvart mér, þið mynduð aldrei þora það.
Framganga ykkar er bara kvenhatur, rasismi, gerendameðvirkni og ræfildómur. Skammist ykkar.“