Útvarpskonan landsfræga, Lísa Pálsdóttir, er gestur Sigmundar Ernis Rúnarssonar í þættinum Mannamál á Hringbraut í kvöld. Þar lýsir Lísa því hvernig kabarettpönksveitin Kamarorghestar, sem hún söng og lék með um árabil, ögraði forpokuðu samfélaginu á Íslandi á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, en sveitin sendi frá sér hljómplötur með textum sem þóttu svo dónalegir að Ríkisútvarpið, seinni tíma vinnustaður Lísu, bannaði þá um hæl.
Þar á meðal var lagið Bíttu í rassgatið á þér, sem samið var um ofbeldisfullan framgang lögreglunnar í garð nýtilkomins frjálsræðis unga fólksins á Íslandi, sem var að gera uppreisn gegn stakri íhaldssemi ráðandi afla, en sýnu kræfari var kannski lagið sem Lísa samdi textann við – og fjallaði um að fá sér á snípinn. Það gat ríkið ekki spilað með nokkru móti.
Sagan á bak við textann er sú að strákarnir í bandinu, sem starfaði aðallega í Köben, státuðu sig gjarnan af því að fá sér á broddinn á þessum tímum frjálsra ásta – og Lísa vildi náttúrlega ekki vera minni manneskja á nýjum tímum kvenfrelsis og rauðsokka, og skrifaði því niður þennan svakalega texta þar sem hún toppaði strákana í orðalagi. Hún gæti fengið sér á snípinn eins og þeir á broddinn!
Hér má sjá og heyra Lísu rifja upp þessa óborganlegu tíma. Mannamál er á dagskrá Hringbrautar í kvöld klukkan 19:00. Þátturinn er svo endursýndur klukkan 21:00.