fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Jóhann Páll: „Sérkennileg“ viðbrögð barnamálaráðherra – Lætur eins og þetta komi honum ekki við

Erla Hlynsdóttir
Mánudaginn 12. september 2022 19:58

Lögreglubíll fyrir utan Barnaspítalann í aðgerðinni í sumar. Mynd/Anton. Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fagnar svari heilbrigðisráðherra vegna fyrirspurnar um aðfarargerðir í forsjármálum sem framkvæmdar eru gagnvart börnum á heilbrigðisstofnunum. Hann undrast svar barnamálaráðherra sem virðist telja málið sér ekki skylt. Jóhannes Páll segir pott víða brotinn í málaflokknum og vill styrkja vernd barna gegn ofbeldi.

„Ég fékk nákvæmlega það fram sem ég vildi með fyrirspurninni til Willums: afgerandi yfirlýsingu heilbrigðisráðherra um að það sé óboðlegt og stríði gegn markmiðum um góða heilbrigðisþjónustu að börn geti átt von á því að vera beitt valdi inni á heilbrigðisstofnunum vegna deilna foreldra um forsjá eða umgengni,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Sjá einnig: Heilbrigðisráðherra gagnrýnir aðför í forsjármáli á Barnaspítalanum

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. mynd/Ernir

Mikla athygli vakti í sumar þegar aðfarargerð var framkvæmd gagnvart tíu ára langveikum dreng í lyfjagjöf á Barnaspítala Hringsins, og drengurinn fjarlægður úr höndum móður með aðkomu lögfræðings föður, sýslumanns, lögreglu og barnavernd, gegn vilja drengsins.

Jóhann Páll lagði í framhaldinu fram almenna fyrirspurn um slíkar aðfarargerðir til heilbrigðisráðherra, barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra.

Fyrirspurning var svohljóðandi: „Telur ráðherra aðfarargerðir sem framkvæmdar eru til að koma á umgengni, lögheimili og/eða forsjá á heilbrigðisstofnunum forsvaranlegar? Mun ráðherra beita sér fyrir því að þær eigi sér ekki stað í framtíðinni?“

Sjá einnig: Fleiri börn fjarlægð með valdi af heilbrigðisstofnunum – „Jafnvel á börnum í innlögn, sem ekki hafa ratað í fjölmiðla“

Nú hefur Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, einnig svarað en hans svar er af allt öðrum toga en svar heilbrigðisráðherra.

Í svari Ásmundar Einars segir meðal annars:  „Mennta- og barnamálaráðuneyti mun ekki beita sér í einstaklingsmálum vegna úrskurða sem eru kveðnir upp af dómstólum og framkvæmdir af sýslumanni í samræmi við ákvæði barnalaga. Dómsmálaráðuneyti fer með mál sem varða barnalög skv. b-lið 20. tölul. 2. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, og hefur mennta- og barnamálaráðuneyti hvorki gögn né aðrar forsendur til að leggja mat á hvort meðferð einstaklingsmála á grundvelli laganna er forsvaranleg.“
Hér má lesa svarið í heild sinni. 

Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra

Sérkennileg viðbrögð barnamálaráðherra

Jóhann Páll segir það gott og traustvekjandi að Willum átti sig á stöðunni og tali hreint út. Hann bendir á að það sé undir dómsmálaráðherra komið að gera breytingar á framkvæmd þessara mála, og það verði fróðlegt að sjá svör dómsmálaráðherra við sömu fyrirspurn.

„Ásmundur Einar barnamálaráðherra bregst hins vegar við fyrirspurninni með sérkennilegum hætti, túlkar hana sem einhvers konar kröfu um inngrip ráðherra í einstök mál. Ásmundur – sem er barnamálaráðherra og barnaverndarráðherra – virðist ekki telja aðfarargerðir af þessu tagi koma ráðuneyti sínu við, og það þótt mælt sé fyrir um í lögum að fulltrúar barnaverndarþjónustu skuli vera viðstaddir aðfarargerðir og gæta að hagsmunum barna,“ segir Jóhann Páll.

Þvinguð í umgengni þrátt fyrir staðfest ofbeldi og mótmæli barns

Hann vann áður sem blaðamaður og bendir á að þegar hann starfaði sem slíkur hafi hann fjallað um það hvernig börn hafa verið þvinguð í umgengni til foreldris þrátt fyrir að hafa orðið fyrir barsmíðum eða kynferðisofbeldi af hendi þess og lýst eindregnum vilja til að umgangast foreldrið ekki.

Sjá einnig: Gabríela Bryndís: „Við erum ekki að tala um forsjármál, við erum að tala um mannréttindabrot“

„Árið 1999 úrskurðaði til að mynda sýslumaður um að tvær ungar stúlkur skyldu vera í reglulegri umgengni við föður sem þá hafði skömmu áður verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn eldri systrum þeirra. Árið 2004 var svo stúlka neydd með sýslumannsúrskurði til að umgangast föður sinn þótt hann hefði skömmu áður verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn henni. Síðan hafa verið gerðar breytingar á barnalögum til að skerpa á vernd barna gegn ofbeldi en margt bendir samt til þess að lagaframkvæmdin sé ennþá gríðarlega foreldramiðuð og að upplýsingar um heimilisofbeldi og ofbeldishættu hafi ekki nægilegt vægi þegar teknar eru ákvarðanir um gagnkvæman umgengnisrétt foreldris og barns,“ segir Jóhann Páll.

Vegna þessa lagði hann fram á síðasta þingi, og fékk samþykkta, skýrslubeiðni um að dómsmálaráðuneytið afli gagna 20 ár aftur í tímann til að bregða ljósi á lagaframkvæmdina í þessum málum, samspil þessara grundvallarréttinda sem börn njóta samkvæmt íslenskum lögum, annars vegar réttar barns til verndar gegn ofbeldi og hins vegar réttar þess til umgengni við báða foreldra sína.

Ætlar að ýta á eftir skýrslunni

„Ég held það sé löngu tímabært að greina hvernig sú aukna lagalega vernd barna gegn ofbeldi sem var lögfest árið 2012, og skylda stjórnvalda til að meta ofbeldishættu áður en teknar eru ákvarðanir um inntak umgengnisréttar, hefur birst í stjórnsýsluframkvæmd síðan lögin voru sett. Ég mun ýta á eftir þessari skýrslu frá dómsmálaráðherra núna á komandi þingi og spyrja hvernig vinnunni við hana miði og hvenær megi eiga von á henni. Þetta eru upplýsingar sem löggjafinn verður að hafa yfirsýn yfir til að geta tekið afstöðu til þess hvort breyta þurfi lögum til að styrkja vernd barna gegn ofbeldi,“ segir Jóhann Páll.

Sjá einnig: Fær ekki að hitta son sinn sem var tekinn af henni á Barnaspítalanum fyrr en í október

Hann vekur athygli á að þegar barnalögum var breytt árið 2012 hafi það verið mat dómsmálaráðuneytisins að aðfarargerðir til að tryggja umgengni barns og foreldris gætu aldrei verið barni fyrir bestu.

Í greinargerð frumvarpsins sem Ögmundur Jónasson, þáverandi dómsmálaráðherra, lagði fram segir að „áhættan af því að barn bíði skaða af framkvæmd aðfarar sé svo mikil að ekki sé á það hættandi að grípa til svo afdrifaríkra úrræða“. Meirihluti velferðarnefndar hafi síðan komist að gagnstæðri niðurstöðu, það er lagst gegn því að aðfararheimild yrði felld úr lögum en kallaði eftir verklagsreglum um framkvæmd aðfarargerða og setti inn ákvæði um að dómarar gætu hafnað beiðni um aðför væri það talið varhugavert með tilliti til hagsmuna barns að gerðin nái fram að ganga.

„Ég held það sé tímabært að skoða hvernig þetta hafi reynst og taka þessa umræðu aftur, og ég vona að barnamálaráðherra ætli ekki að skila þar auðu, láta eins og þessi mál komi sér ekki við vegna þess að framkvæmd barnalaga heyrir undir dómsmálaráðuneytið,“ segir Jóhann Páll.

Sjá einnig: Lögmaður föður drengsins sem var fjarlægður af Barnaspítalanum – „Þeir feðgar glaðir að fá að verja loks tíma saman“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“