fbpx
Föstudagur 01.júlí 2022
Fréttir

Segir móður hafa „mistúlkað orð dóttur minnar sem voru meðal annars að hana klæjaði í píkunni því „pabbi skegg kitlar““ – Önnur af kvörtununum tíu í heild sinni

Erla Hlynsdóttir
Föstudaginn 20. maí 2022 10:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ein af tíu mæðrum sem hefur sent kvörtun til embættis Landlæknis vegna vinnubragða matsmanns í forsjármáli segir í kvörtuninni að matsmaðurinn hafi notast við þráð á samfélagsmiðlinum Reddit og orð þvagfæraskurðlæknis sem heimildir til að fá staðfest að það sé eðlilegt að faðir fái ítrekið holdris í tengslum við barn.

Þá tiltekur móðirin í kvörtuninni að matsmaður segi hana hafa „mistúlkað orð dóttur minnar sem voru meðal annars að hana klæjaði í píkunni því „pabbi skegg kitlar“ og „ekki nota marga putta“ þegar ég ætlaði að skipta á henni.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Líf án ofbeldis sem sagt var frá í gær en þar kom fram að alls tíu mæður hafa sent kvörtun til embættis Landlæknis vegna „ófaglegra vinnubragða og hlutdrægni sálfræðinga sem taka að sér hlutverk dómkvaddra matsmanna og sérfróðra meðdómsmanna í forsjármálum.“ Umræddir sálfræðingar eru þrír, þau Guðrún Oddsdóttir, Ragna Ólafsdóttir og Gunnar Hrafn Birgisson.

Sjá einnig: Tíu mæður lýsa „ófaglegum vinnubrögðum og hlutdrægni“ þessara matsmanna í forsjármálum og leita til Landlæknis

Afrit af þessum tíu kvörtunum fylgdu tilkynningunni frá Líf á ofbeldis sem eru baráttusamtöku mæðra og uppkominna barna sem krefjast þess að börn séu vernduð gegn ofbeldi í umgengnis- og forsjármálum.

Sjá einnig: „Hló að móður þegar hún lýsti frásögn sinni af mjög alvarlegu ofbeldi“ – Ein af kvörtununum tíu í heild sinni

Kvörtunin sem greint er frá hér að ofan er vegna starfa Rögnu Ólafsdóttur sem matsmanns í forsjármáli og var send til embættis landlæknis þann 31. mars 2022 og siðanefndar Sálfræðingafélags Íslands 4. júní 2020.

Í henni segir meðal annars:

„Það er ógnvekjandi í svo mikilvægu máli að óformlegur Reddit-þráður vegi meira en vitnisburður, ekki einnar, heldur tveggja systra hans af kynferðisofbeldi hans gegn þeim. Það eitt og sér ætti að gefa ástæðu til að taka málið alvarlegar en matsmaður gerir. Í staðinn fyrir að líta á það sem sterka vísbendingu sem styðji framburð minn og dóttur minnar, þá fer matsmaður alveg í hina áttina og meintur gerandi er sá eini sem fær að njóta vafans í matsgerðinni.“

Í kvörtuninni segir að í viðtölum hafi matsmaður hafnað yfirlýsingum frá báðum systrum föðursins á kynferðisbrotum hans gegn þeim. Matsmaður hafi sagt það ótrúverðugt að stjúpsystir hans hafði „ekki einu sinni sagt mömmu sinni frá“ þegar það gerðist, en hún hafi þá verið 13 ára gömul.

Þá segir sömuleiðis í kvörtuninni að matsmaður hafi spurt móður hvernig hún hafi getað eignast barn með manninum fyrst hún vissi að hann hafði gerst brotlegur gegn hálfsystur sinni. Matsmaður hafi einnig ítrekað spurt móður hvernig hún hafi getað skilið dóttur sína eftir í hans umsjón vegna vitneskju um fyrri brot, og að matsmaður hafi margoft sagst ekki geta skilið af hverju móðir „væri að segja frá þessu fyrst núna, afhverju ekki fyrr þegar við bjuggum enn saman.“

 

Hér má lesa afrit af kvörtuninni í heild sinni:

 

Efni kvörtunar snýr að matsgerð sem unnin var af Rögnu Ólafsdóttur sálfræðingi í tengslum við forsjármál mitt við barnsföður minn. Forsaga málsins er sú að þann xx 2018 lagði ég fram kæru vegna gruns um kynferðisbrot gegn dóttur okkar, fæddri 2015, af hendi föður hennar. Lögreglan brást hratt við, en málið var fellt niður hjá ríkissaksóknara vegna skorts á sönnunargögnum. Engin skoðun í Barnahúsi fór fram, þar sem dóttir okkar var of hrædd til að láta koma við sig. Ekki heldur var tekið viðtal við hana. Í kjölfarið fór faðir í forsjármál og fór fram á fulla forsjá. Matsmaður var fenginn í málið, Ragna Ólafsdóttir, sálfræðingur. Meðfylgjandi matsgerð var unnin haustið 2019. Það sem lá fyrir í málinu var kæran frá mér og tvær yfirlýsingar frá hálfsystur hans og stjúpsystur sem lýsa mjög grófu kynferðislegu ofbeldi af hálfu hans gagnvart þeim þegar þær voru börn, ásamt skýrslu frá leikskólanum um hegðun og líðan dóttur minnar á þeim tíma.

Í viðtölum við mig, móður:

Matsmaður fer í fyrsta viðtali af stað með að yfirheyra mig um „hvað ég ætla nú að halda þessu áfram lengi“, og vísar þá í ásakanir gegn barnsfaðir og að ég var á þeim tíma að stoppa umgengni til að virða skyldur mínar sem foreldra að vernda barn mitt gegn ofbeldi.

Matsmaður kemur strax og gegnumgangandi fram við mig eins og um brot af minni hálfu sé að ræða, og sakar mig um að valda dóttur minni og barnsfaðir skaða með að leyfa ekki eftirlitslausa umgengni. Svona metur matsmaður þetta þrátt fyrir að hafa aldrei áður hitt mig né dóttur mína, og þrátt fyrir að gögn frá leikskóla og öðrum lýsa því hvernig dóttir mín gjörbreyttist til hins betra um leið og umgengnin stoppaði.

Matsmaður spurði mig hvernig ég gat nú eignast þetta barn með honum, fyrst ég vissi að hann hafði gerst brotlegur gegn öðru barni (hálfsystur sinni). Matsmaður spurði mig ítrekað hvernig ég gat nú skilið dóttur mína eftir í hans umsjón, fyrst ég vissi um fyrri brot hans. Matsmaður sagðist margoft ekki geta skilið afhverju ég væri að segja frá þessu fyrst núna, afhverju ekki fyrr þegar við bjuggum enn saman. Þegar ég sagði að ég væri sjálf að vinna úr þeirri sektarkennd sem stafaði af því, þá sagði hún að ég yrði að geta útskýrt það betur. Eins og kemur fram í matsgerðinni notar matsmaður það eitt að ég hafi ekki brugðist við rétt og strax gegn mér og telur það gera mig ótrúverðuga.

Í viðtölum hafnaði matsmaður yfirlýsingum frá báðum systrum hans á kynferðisbrotum hans gegn þeim. Matsmaður sagði það ótrúverðugt þar sem stjúpsystir hans hafði “ekki einu sinni sagt mömmu sinni frá” þegar það gerðist, en hún var 13 ára. Eins fór matsmaður að rökræða við mig vegna yfirlýsingar hálfsystur hans, vegna þess að frásögn hans og hennar voru ekki eins. Samkvæmt matsmanninum átti ég að geta svarað því hvers vegna það kemur ekki  skýrt fram í yfirlýsingu hálfsystur hans að hann hafi sett puttana upp í leggöng hennar, en það var það sem hann játaði við mig að hann gerði. Hún var þá 5 ára.

Einnig neitaði matsmaður að taka við bréfi frá stjúpsystur hans sem lýsti kynferðisofbeldi sem hann beitti henni, vegna þess að það var of illa skannað inn. Ég bauðst til þess að koma með betra eintak, en þessu hafnaði matsmaður.

Matsmaður hafnaði að taka inn í matið myndir (sjá viðhengi) sem dóttir mín teiknaði á meðan að matið stóð, sem voru mjög lýsandi og hefðu átt að gefa tilefni til frekari skoðunar á samskiptum foreldranna og barnins og mati á hugarheimi og reynsluheimi barnsins með sérstöku mati listmeðferðarfræðings og/eða leiktherapista. 

Lýsing dóttur minnar á myndunum voru: það var blár himinn, sól, mamma, stóra bleika, hún og besta vinkona hennar voru þessar grænar og svo litla rauða var litla systir hennar. Á sér svörtu blaði var pabbi hennar.

Vegna matsgerðarinnar:

Túlkun sálfræðiprófanna – Matsmaður styðst við MMPI-2 þar sem faðir mælist klíniskt hátt á psychopathic deviate scale. Þetta túlkað matsmaður föður í hag; faðir fær samúð þar sem matsmaðurinn telur hann vera í sjálfshatri fyrir að hafa nauðgað 5 ára hálfsystur sinni og skori þess vegna hátt á þessum skala. Á blaðsíðu x í meðfylgjandi matsgerð má sjá að matsmaður telur upp það sem klínisk hækkun á þessum kvarða bendir til, meðal annars hegðunarvandi og neikvæð samskipti við fjölskyldumeðlimi, reiði og hvatvísi. Hinsvegar dregur matsmaður þá ályktun að faðir, sem hefur sjálfur viðurkennt kynferðisbrot gegn barni og er sakaður um að brjóta gegn tveimur öðrum börnum þegar hann varð eldri, á sér enga sögu um andfélagslega hegðun, og því sé einungis um sjálfshatur að ræða.

Í túlkun á niðurstöðum úr prófinu mínu dregur matsmaður ályktun um að ég sé að fegra sjálfa mig, segi ósatt, skorti innsæi, stjórni fólki á óbeinan hátt, sé dramatísk og athyglissjúk. Allt virðist það byggt á að hækkun á einum kvarða – eitthvað sem matsmaður tekur samt fram að sé eðlilegt í forsjármálum, þar sem foreldra vilja sýna sina bestu hlið. 

Einnig virðist matsmaður gefa sér það að uppeldið mitt hefði nauðsynlega átt að valda mér vanlíðan eða haft í för með sér neikvæðar afleiðingar. Það að ég sjái þetta ekki telur matsmaður benda til skorts á innsæi og dómgreind. Í þokkabót eru þetta orð sem matsmaður tekur beint frá föður og eru ekkert nema fordómar og vanvirðing gagnvart minni lífsreynslu.

Á bls x segir matsmaður að „Konur með svipaða prófmynd eru sagðar ólíklegar til að fara í sálfræðilega meðferð þar sem þær hafa lítið innsæi í sálfræðilegar orsakir vanda þeirra”. Þetta er í miklu ósamræmi við þau gögn sem matsmaður er með og það sem sagan mín sýnir, en ég var þá búin að leita mér hjálpar og var í endurhæfingu hjá Virk og var búin að vera í reglulegum viðtölum hjá sálfræðingi síðustu tvö árin sem bar mjög mikinn árangur. Eins hafði ég sjálf tekið ákvörðun um að fara í áfengismeðferð í byrjun 2018. Þessi ályktun hjá matsmanni byggist því engan veginn á þeim upplýsingum sem hann hefur um mig, og er því algjört huglægt mat hans. 

Á bls x segir matsmaður ég hafa mistúlkað orð dóttur minnar sem voru meðal annars að hana klæjaði í píkunni því „pabbi skegg kitlar“ og „ekki nota marga putta“ þegar ég ætlaði að skipta á henni. Matsmaður sýndi því aldrei skilning hversu erfitt það var fyrir mig að átta mig á þessu, og það hefur enginn túlkað þetta öðruvísi, þá sérstaklega ekki í ljósi fyrri brota hans. 

Á bls. x notast matsmaður við þráð á Reddit sem heimild og þvagfæraskurðlæknis til að fá staðfest að það sé eðlilegt að faðir fái ítrekið holdris í tengslum við barn. Það er ógnvekjandi í svo mikilvægu máli að óformlegur Reddit-þráður vegi meira en vitnisburður, ekki einnar, heldur tveggja systra hans af kynferðisofbeldi hans gegn þeim. Það eitt og sér ætti að gefa ástæðu til að taka málið alvarlegar en matsmaður gerir. Í staðinn fyrir að líta á það sem sterka vísbendingu sem styðji framburð minn og dóttur minnar, þá fer matsmaður alveg í hina áttina og meintur gerandi er sá eini sem fær að njóta vafans í matsgerðinni. 

Að beiðni minni leitar matsmaður ráða hjá Önnu Kristínu Newton sem bendir matsmanni á sálfræðipróf en matsmaður leggur ekki fyrir þessi próf.

Yfir heildina  tel ég alvarlegt að reynt sé að draga úr trúverðugleika minni með atriðum eins og að ég sé ættleidd og að ég bregðist seint við vegna fæðingarþunglyndis, kvíða og fyrri áfengisvandamáls. Hér hefði matsmaður átt að vita takmörk á skilningi sínum á ofbeldi og leita sér ráða hjá sérfræðingum. 

Matsmaður setur fram einhliða túlkun á upplýsingum og virðist á þeirri skoðun að ég sé að bera fram ásakanir vegna stjórnsemi og hefndar í garð barnsföður. Samt er engin ástæða gefin til þess, eða rök færð fyrir því afhverju ég myndi vilja halda henni frá föður sinum, annað en að tryggja öryggi hennar. 

Mér finnst það skína í gegnum alla matsgerðina að samúðin liggi hjá föður. Lítið er gert úr því hversu mikið andlegu veikindi mín eftir fæðingu dóttur minnar geti hafa spilað inn í það að ég hafi ekki getað horfst í augu við eða brugðist við grunsemdum mínum fyrr. Það er gert fremur tortryggilegt að ég hafi beðið með að bregðast við.

Matsmaður aflar sér ekki upplýsinga um viðbrögð mæðra barna sem verða fyrir kynferðisofbeldi og hvernig þær takast á við slíkar aðstæður. Ég tel að það geti verið algeng viðbrögð að bæla niður eða afneita slíku, sérstaklega ef mæður eru í veikri stöðu vegna heilsuleysis, bágrar sjálfsmyndar eða veikrar félagslegrar stöðu. Miðað við alla rannsóknarvinnuna sem matsmaður tók sér fyrir hendur til að staðfesta frásögn föður, sbr. Reddit lestur og viðtal við Önnu Kristínu Newton, stingur þetta í stúf. 

Auk þess hefur þessi greinilega afstaða hennar með föður, kynferðisbrotamanni, haft beinleinis hættulegar afleiðingar fyrir dóttur mínar. Matsgerðir hafa ótrúlega þungt vægi í forsjámálum, og í okkar tilfelli leiddi þar til þess að föður var í síðustu viku [í Landsrétti – dómi var snúið við í Hæstarétti] dæmd full forsjá yfir dóttur minni. Mér er svipt forsjá fyrir það einungis að gera allt sem er í mínu valdi til þess að tryggja það að dóttir mín þurfi ekki aftur að fara í aðstæður þar sem föður gefst tækifæri á að beita henni frekari ofbeldi.

Ragna Ólafsdóttir er reyndur matsmaður og meðdómari í forsjármálum, og veit vel hversu þungt matsgerðin vegur. Það er vald og ábyrgð sem þessi tiltekni matsmaður kann engan vegin að fara með. 

Þessi matsmaður, sálfræðingur, hefur í starfi sínu valdið mér rosalega miklum sálrænum skaða, bæði vegna framkomu sinnar við mig beint í viðtölum, og vegna ályktana og skrifa hennar í matsgerðinni.

Í ljósi ofangreindra athugasemda óska ég eftir mati ykkar á þessum vinnubrögðum matsmannsins, Rögnu Ólafsdóttur og bið ég um þetta verði tekið alvarlega. 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ekkert virðist geta bjargað hjólhýsabyggðinni við Laugarvatn – Sveitarstjórn segir nei takk

Ekkert virðist geta bjargað hjólhýsabyggðinni við Laugarvatn – Sveitarstjórn segir nei takk
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Matvælastofnun varar við hættulegu fitubrennsluefni – Hefur valdið dauðsföllum og alvarlegum eituráhrifum

Matvælastofnun varar við hættulegu fitubrennsluefni – Hefur valdið dauðsföllum og alvarlegum eituráhrifum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Aðalheiður vekur athygli á djammvanda sem blasir við Íslendingum

Aðalheiður vekur athygli á djammvanda sem blasir við Íslendingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Telur að íbúðir hljóti að lækka í raunverði á næstu árum

Telur að íbúðir hljóti að lækka í raunverði á næstu árum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tæp 11% koma til VIRK vegna kulnunar eða langvarandi streitu í starfi

Tæp 11% koma til VIRK vegna kulnunar eða langvarandi streitu í starfi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt að sex ára fangelsi liggur við meintu broti Arnars og Vítalíu

Allt að sex ára fangelsi liggur við meintu broti Arnars og Vítalíu
Fréttir
Fyrir 3 dögum
Eldur í Dalshrauni