fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Ófærðin og stormurinn um áramótin: Fjölskylduboð í uppnámi – Óvíst með brennur og flugelda

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 30. desember 2022 13:30

Mynd: Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég mæli með því að fólk sé ekki að fara í neinar óþarfa ferðir innan samgöngukerfisins, það verði frekar heima. Í það minnsta að meta aðstæður og fara ekki út í tvísýnu nema fólk sé á þeim mun betur búnum bíl,“ segir Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri á skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlandsins.

Snjókoma og skafrenningur eru í kortunum fyrir gamlársdag og nýársdag. Hjalti segir að sólarhringsvakt verði í snjómokstursþjónustu en taka verði mið af aðstæðum því fljótt geti fennt ofan í nýruddar götur.

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur segir að allar spá bendi til snjókomu og skafrennings. Vestlæg átt leiði síðan til þess að færðin verði ekkert endilega betri í t.d. vesturhluta borgarinnar en efri byggðum, vegna skafrennings.

„Það er alveg sama á hvaða spá maður byggir á, það er ófærðarlegt fyrir gamlársdag. Það er bæði snjókoma og skafrenningur, það er inni í myndinni að þetta verði væn gusa.“

Haraldur segir að snjókoman verði mest síðari hluta aðfaranætur gamlársdags, þá muni snjóa samfellt í þrjá til fjóra tíma. Spár erlendra veðurstofa séu ekki á einu máli um hve mikið muni snjóa en það verði í öllu falli töluvert. Þessi fylgir síðan mikill skafrenningur því það verður töluverður vindur.

„Það er svolítill vindur í þess, það verður blint og mjög fljótt að draga í skafla. Það verður nógu léttur snjór til að valda umferðartöfum.“

Snjókomunni lýkur ekki á gamlársdag því éljagangur tekur við. „Síðan eru það él sem standa frá tíu mínútum upp í klukkustund hverju sinni, alveg fram á nýársdag. Ef við erum óheppin fáum við langt él á miðnætti þegar fólk fer að skjóta upp. Þá er að bíða það af sér. Ég veit síðan ekki hvernig það verður með brennur, mér þætti ekki ólíklegt að menn heyktust á því að kveikja í einhverjum ráðgerðum brennum.“

Varðandi veðrið eftir áramótin þá sér Haraldur örstutt frostleysi og síðan áframhaldandi frost. Það rétt nær að blotna í þessu á 2. janúar, en það er á mörkunum. Þetta er engin alvöru hláka. Síðan frystir aftur 3. janúar.

Getur verið til lítils að moka húsagötur í skafrenningi

„Hver hefur ekki lent í því að moka stéttina sína og svo hálftíma síðar hefur snjóað aftur í. Við erum að glíma við sömu úrlausnarefni á götunum, við ryðjum í gegn og síðan skefur í þetta far nokkrum mínútum síðar, í svona stormi eins og spáð er,“ segir Hjalti J. Guðmundsson hjá borginni. Sólarhringsvakt verður í snjómokstrinum og full þjónusta en skafrenningur kemur væntanlega til með að hamla mjög færð þrátt fyrir að skafið sé.

„Við höldum bara okkar rútínu, við sendum okkar tæki út og erum með sólarhringsvakt. Það er slæm veðurspá næstu tvo daga,“ segir Hjalti en töluverður vindur verður á nýársnótt sem kemur væntanlega til með að valda miklum skafrenningi þó að þá verði líklega ekki lengur snjókoma.

„Við höldum úti okkar þjónustu og reynum að halda þessu kerfi opnu á meðan stormurinn gengur yfir. Síðan bætum við í þegar fer að lygna og tökum þá rútínuna okkar gagnvart forgangi.“

Hjalti minnir á að ekkert sér niðurneglt varðandi það hve slæmt veðrið verður en útlitið sé í öllu falli ekki gott hvað varðar færð á höfuðborgarsvæðinu. „Það er erfitt fyrir veðurfræðinga að spá nákvæmlega fyrir um hvernig bakkinn liggur, þetta er matsatriði. Þegar svona veðurspá er þá er allt undir en það lítur út fyrir að snjói verulega og skafi ennþá meira í borginni næstu tvo sólarhringa, með hléum.“

Hjalti sagði að það væri ekki góð nýting á vélum og búnaði að skafa jafnharðan íbúagötur þegar svo mikill skafrenningur er sem stefnir í. „Við erum undirbúin fyrir svona aðstæður, markmiðið er að þegar stormurinn gengur yfir að halda kerfinu opnu í grunninn, t.d. strætóleiðum. Síðan setjum við fullan kraft í mokstur þegar stormurinn er genginn yfir.“

Lögreglan gerir ráð fyrir að ófært verði í höfuðborginni

„Ófært gæti orðið að morgni gamlársdags á suðvesturhorni landsins, Suðurlandi og á Vestfjörðum ef veðurspá gengur eftir,“ segir í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Segir að búast með við ófærð bæði í húsagötum og stofngötum.

Hvetur lögreglan íbúa höfðuborgarsvæðisins eindregið til að ljúka af öllum nauðsynlegum erindum í dag en ekki láta þau bíða til gamlársdags.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg