Magnus Carlsen tryggði sér heimsmeistaratitilinn í hraðskák í móti sem lauk í Almaty, höfuðborg Kasakstan, nú fyrir stundu. Mótið tók tvo daga, alls 21 umferð, en eftir fyrri daginn var Carlsen vinningi á eftir Bandaríkjamanninum Hikaru Nakamura sem af mörgum er talinn einn allra besti hraðskáksmaður heims.
Carlsen mætti ákveðinn til leiks í dag og vann tvær fyrstu umferðir dagsins og náði Nakamura að vinningum. Hann tapaði svo næstu skák, gegn Rússanum Ian Nepomniachtchi en beit svo í skjaldarrendur og vann næstu þrjár skákir og virtist vera að tryggja sér öruggan sigur.
Rússinn Alexey Sarana hélt þó ekki og hann gerði sér lítið fyrir og lagði Carlsen að velli í 19.umferð mótsins en í umferðinni áður hafði hann unnið Nakamura.
Gríðarleg spenna var því fyrir lokaumferðir mótsins en Norðmaðurinn sýndi stáltaugar og vann síðustu tvær skákirnar og tryggði sér sigur í mótinu.
Carlsen er því handhafi allra heimsmeistaratitlanna í skák – hefðbundinni skák, atskák og hraðskák en það hefur hann þrisvar sinnum áður afrekað, 2014 og 2019. Eins og frægt er hefur hann þó ákveðið að stíga til hliðar sem heimsmeistari í hefðbundinni skák og verja ekki titilinn í næsta einvígi. Þetta er því í síðasta sinn í einhvern tíma sem Carlsen er handhafi þrennunnar.
Magnus endaði með 16 vinninga í fyrsta sæti en Nakamura deildi 2-3. sæti með armenska stórmeistaranum Haik Martirosyan sem var spútnik mótsins.
Heimamenn fögnuðu svo ákaft þegar Bibisara Assaubayeva gerði sér lítið fyrir og varði heimsmeistaratitilinn sinn í hraðskák í kvennaflokki.