fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Fréttir

Líf fjölskylduföður í rúst eftir meint læknamistök – Hringdi í lækni í aðdraganda heilablóðfalls og var sagt að koma eftir helgi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 9. ágúst 2022 11:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hann er fjölskyldufaðir á fimmtudagsaldri. Hann var í góðu starfi, lifði mjög virku lífi, var formaður íþróttadeildar og mikill íþróttagarpur (hljóp meðal annars heilt maraþon) þegar örlagaríkur atburður gerðist í loks mars árið 2016, er maðurinn var 41 árs. Í dag er ástand hans þannig að hann getur ekki ekið bíl, er með mikið gaumstol (algeng truflun sem hlýst af heilaskaða og veldur því að sjúklingur gefur umhverfi ekki nægilegan gaum), á erfitt með einbeitingu, glímir við flogaveiki, er með skerta hreyfingu á vinstri fæti, enga hreyfigetu í vinstri hendi – og síðast en ekki síst: Er algjörlega óvinnufær.

Þessi skelfilegu umskipti rekur maðurinn til rangra viðbragða læknis sem hann hringdi til og lýsti fyrir honum líðan sinni sem reyndust vera byrjunareinkenni heilablóðfalls. Læknirinn mat stöðuna svo að rétt væri að maðurinn kæmi í viðtal næsta mánudag en atvikið og símtalið áttu sér stað síðla fimmtudags.

Maðurinn hefur höfðað dómsmál vegna þessarra atburða og verður fyrirtaka í málinu við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 7. september næstkomandi. Atvikin áttu sér stað á Austfjörðum en DV hefur stefnuna í málinu undir höndum. Þeim er meðal annars lýst svo í stefnunni:

„Þann 31. mars 2016 var stefnandi akandi á heimleið og þegar hann var kominn að heimili sínu ætlaði hann að bakka í stæði til að leggja bifreiðinni. Er hann var að bakka og snéri sér við þá skiptist sjón hans í tvennt en þetta hafði gerst nokkrum sinnum í þeirri viku. Stefnandi hringdi í heilsugæslustöðina á XXXX og fékk símatíma samdægurs, hjá XXXX lækni vegna sjóntruflana sem hrjáðu hann (sbr. dskj. nr. 13). Stefnandi lýsti fyrir lækninum að hann hafi verið að bakka í stæði heima hjá sér og þegar hann sneri sér við þá skiptist sjón hans í tvennt og að þar sem þessar sjóntruflanir séu nú endurteknar þurfi að láta skoða þær strax. Stefnandi varð í kjölfarið dasaður og máttlítill og þurfti aðstoð konu sinnar við að komast inn en áður hafi hann verið mjög hraustur og þ.á.m. hlaupið maraþonhlaup (sbr. dskj. nr. 12). Fyrrgreindur læknir nefndi að hugsanlega gætu litlir tappar verið að skjótast upp í heila. Stefnandi fékk því tíma mánudaginn þann 4. apríl 2016. “

En á laugardeginum þegar maðurinn var úti að skokka féll hann skyndilega til jarðar og missti meðvitund. Hann hafði fengið mjög alvarlegt heilablóðfall en gangandi vegfarandi fann hann liggjandi á gangstétt og hringdi á Neyðarlínuna. Við tók löng sjúkrahúsvist, meðal annars á endurhæfingardeild Grensás. Maðurinn sendi eftirfarandi kvörtun á Landlækni vegna vinnubragða læknisins:

„Ég hringdi á heilsugæslustöðina á XXXX og fékk símatíma hjá XXXX lækni vegna sjóntruflana sem ég var að fá. Hann hefur samband við mig á fimmtudaginn 31.3 eða 1.4.2016. Ég lýsi því fyrir honum að ég hafi lent í því nokkrum sinnum í vikunni að sjónin mín skiptist í tvennt. Lýsi því að ég hafi verið að bakka í stæðið heima hjá mér og sný mér við til að sjá út og sjónin skiptist í tvennt. Ég var mjög skrýtinn í hausnum og máttlítill og sagði ég lækninum að ég hefði þurft að hring[j]a inn í konuna mína og biðja hana að styðja mig inn í húsið. Við XXXX ræðum um það að mögulega gætu litlir tappar verið að skjótast upp í heila. Hann tekur þá ákvörðun að skoða mig eftir helgi. Gefur mér tíma á mánudagsmorgni. Þessi ákvörðun hans var mér dýrkeypt því á laugardeginum dett ég niður og fæ mjög alvarlegt heilablóðfall.“

Landlæknir og Sjúkratryggingar Íslands ekki sammála

Álit Landlæknis var að læknirinn hefði ekki gert mistök er maðurinn hringdi í hann. Óháður sérfræðingur sem Landlæknir leitaði álits hjá benti hins vegar á að frásögnum mannsins og læknisins bæri ekki saman. Landlæknir taldi hins vegar að ekkert í símtalinu hefði gefið til kynna að eitthvað alvarlegt væri í aðsigi. Talið var líklegt að misskilningur hefði orðið milli læknisins og mannsins í símtalinu.

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) voru ekki sammála Landlækni en þær birtu ákvörðun sína í febrúar árið 2018. Læknirinn hafði ályktað að ástand mannsins væri hægt að rekja til hliðarverkana lyfsins Concerta sem maðurinn tók við athyglisbresti. Álit SÍ var á skjön við þessa ályktun læknisins en þar segir meðal annars:

Orsakir tvísýni geta verið margvíslegar og má rekja þær til miðaugakerfis, heilatauga, taugatenginga við augnvöðva, augnvöðva eða skerts hreyfirýmis augans í augntóftinni. Læknir HSA kveðst í greinargerð sinni, dags. 7. apríl 2017, hafa velt fyrir sér tvennum hugsanlegum orsökum tvísýni, þ.e. aukaverkun af völdum Conserta eða bólgu í gagnaugaslagæð. Hvor tveggja skýringin getur talist hugsanleg en jafnframt ólíkleg að mati SÍ. Umræddur æðabólgusjúkdómur er nær óþekktur hjá fólki yngra fimmtugu og tvísýni er ekki sérstaklega lýst meðal þeirra hjáverkana lyfsins Concerta, sem tengjast sjón. Þá ber að athuga að mati SÍ að tjónþoli kveðst einnig hafa kvartað um mikinn slappleika, að hann þurfti að hringja í konu sína til að styðja sig inn í húsið. Tjónþoli var fertugur og líkamlega vel virkur. Þessi umkvörtun hefði að mati SÍ átt að vekja lækni til grunsemda, að eitthvað alvarlegt væri á seyði í taugarkerfinu Framburður tjónþola og eiginkonu hans staðfestu að umræddur læknir hafi látið sér detta í hug, að tappar hefðu borist í heila. Ekki er að mati SÍ ástæða til að rengja það. Slíkir tappar geta valdið tímabundnum eða varanlegum súrefnisskorti í heilavef. Staðsetning tappans og skemmdarinnar ræður því, hvaða sjúkdómseinkenni koma fram, en meðal þeirra getur verið tvísýni og slappleiki. Vaknar grunur um tapparek í heila, krefst það tafarlausra viðbragða, rannsóknar og e.t.v. meðferðar.

Var það ákvörðun SÍ að dæma manninum fullar bætur úr sjúkratryggingu, 11 milljónir króna. Maðurinn taldi það hins vegar engan veginn bæta upp það lífstíðarheilsutjón sem hann hefur orðið fyrir og gerir kröfu á ríkið á grundvelli þess að heilbrigðisstarfsmaður hafi gerst sekur um saknæma vanrækslu í starfi sínu. „Stefnandi gerir aðallega þá kröfu að viðurkennd sé skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda vegna afleiðinga sem rekja má til mistaka starfsmanns stefnda þann 31. mars 2016 ásamt 50% álagi á miskabætur, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga frá 31. mars 2016 til greiðsludags,“ segir um kröfugerð mannsins í stefnu.

Að sögn lögmanns mannsins, Ómars R Valdimarssonar, þurfti hann að flytja til útlanda til að fá næga heilbrigðisþjónustu og láta enda ná saman. Hann telur mistök læknisins augljós: „Hann segir manni sem er með augljós einkenni heilablóðfalls að koma bara eftir helgi. Minn maður fær heilablóðfall sem annars hefði verið hægt að koma i veg fyrir. Hann var kominn með einkenni sem bentu til þess að hann væri að fara að fá mjög alvarlegt heilablóðfall.“

Sem fyrr segir verður fyrirtaka í málinu þann 7. september. Vænta má þess að aðalmeðferð og uppkvaðning dóms verði nokkrum mánuðum síðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Kveiks-fíaskóið vandræðalegt fyrir RÚV í ljósi tengsla útvarpsstjóra

Kveiks-fíaskóið vandræðalegt fyrir RÚV í ljósi tengsla útvarpsstjóra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik