fbpx
Föstudagur 12.ágúst 2022
Fréttir

Dómur fallinn í einu umfangsmesta kynferðisbrotamáli Danmerkursögunnar – 1.300 brot – Teygir anga sína inn í knattspyrnuheiminn

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 9. júní 2022 06:55

Stuðningsmenn Brøndby á vellinum. Mynd:EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær var Kevin Adrian Werner, 29 ára, dæmdur til ótímabundinnar fangelsisvistar fyrir nauðganir, ofbeldi og hótanir gegn fjölda pilta og ungra manna. Ótímabundin vistun þýðir að hann verður í fangelsi þar til, og ef, dómstóll kemst einhvern tímann að þeirri niðurstöðu að samfélaginu stafi ekki lengur hætta af honum.

Dómurinn var kveðinn upp af undirrétti í Glostrup í Danmörku. Fjöldi aðstandenda fórnarlamba Kevin voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna og einnig margir úr samtökum sem kenna sig við bifhjólasamtök en eru ekkert annað en skipulögð glæpagengi. Einnig voru margir úr hópi knattspyrnubulla viðstaddir en Kevin var árum saman ótvíræður leiðtogi knattspyrnubulla sem styðja lið Brøndby.

Danskir fjölmiðlar segja að mikil gæsla hafi verið í og við dómshúsið í gær sem og allan tímann sem réttarhöldin stóðu yfir. Mikill fjöldi lögreglumanna var á staðnum og leitað var á öllum sem fengu aðgang að dómsalnum og nöfn allra voru skráð.

Sterk tengsl við knattspyrnuheiminn

Werner var ákærður fyrir rúmlega 1.300 kynferðisbrot gegn 15 piltum og ungum mönnum. Yngsta fórnarlambið var 14 ára þegar ofbeldið hófst.

Werner þekkti mörg fórnarlambanna í gegnum heim knattspyrnubulla sem styðja Brøndby IF en hann var stofnandi og leiðtogi BHD (Brøndbys Hårde Drenge) og BHY (Brøndbys Hårde Yngre). TV2 segir að þessi hópar hafi náin tengsl við skipulögð glæpasamtök, það er bifhjólasamtök og aðra glæpahópa. Mikið ofbeldi og fíkniefnaneysla tengist bæði BHD og BHY. Mikil áhersla er lögð á vináttu innan hópanna og að engu sé lekið í lögregluna. Eða eins og Morten Frederiksen, saksóknari, sagði: Þetta var fullkomið umhverfi fyrir Werner til að finna fórnarlömb.

Werner tengdist ungum piltum nánum böndum, þeir litu upp til hans og voru hræddir við hann. Þeir vissu að ekki mátti mótmæla foringjanum og hvað þá segja lögreglunni frá nokkru.

Skotárás var kveikjan

Málið fór að rúlla eftir að lögreglunni var tilkynnt um skotárás í Brøndby þann 5. febrúar 2021. Lögreglan hitti Werner á vettvangi. Hann var á skrá hennar, bæði sem knattspyrnubulla og vegna dóma fyrir ofbeldisbrot og fíkniefnalagabrot.

Í fyrstu var talið að hann væri skotmaðurinn en fljótlega kom í ljós að hann hafði verið skotmarkið. Skotmálið er enn óleyst.

Á meðan Werner var í haldi lögreglunnar komu tveir piltar á lögreglustöðina og voru mæður þeirra með í för. Þeir kærðu Werner fyrir kynferðisbrot. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi allar götur síðan.

TV2 segir að eftir þessar fyrstu kærur hafi knattspyrnubullur og liðsmenn glæpagengja, sem tengjast BHD og BHY, safnast saman til fundar um málið. Þar voru fórnarlömb Werner beðin um að stíga fram og gerðu sum þeirra það. Þeim var heimilað að ræða við lögregluna.

Margir nýttu sér þetta leyfi en aðrir lögðu ekki fram kæru fyrr en lögreglan hafði samband við þá vegna rannsóknarinnar. Síðasta fórnarlambið gaf sig fram þegar réttarhöldin voru hafin.

Neitaði sök

Werner neitaði sök fyrir dómi og sagðist ekki vera ofbeldishneigður, alls ekki. Hann gat þó fallist á að í þessu fælist ákveðin andstæða í ljósi þess að hann notaði mikinn tíma í að skipuleggja og taka þátt í slagsmálum tengdum knattspyrnuleikjum.

Hann sagðist hafa átt í kynferðislegu sambandi við fimm af piltunum á sama tíma. Hann sagðist hafa borið miklar og djúpar tilfinningar til þeirra og þeir til hans en slík sambönd væru ekki samþykkt í hommahatandi samfélagi knattspyrnubulla og glæpagengja. Það síðastnefnda er örugglega rétt hjá honum en samt sem áður trúði dómurinn ekki þessari frásögn hans.

Niðurstöður geðrannsóknar eru að hann eigi auðvelt með að ljúga og fari ekki eftir reglum samfélagsins. Hann er með lélega dómgreind og hefur ekki stjórn á hvötum sínum. Hann þykir mjög sjarmerandi á yfirborðinu, er sjálfselskur og sýnir einkenni geðveiki.

Í lokaræðu sinni sagði saksóknarinn að hann væri geðsjúkur og það yrði að dæma hann til ótímabundinnar vistunar í fangelsi, annars myndi hann halda áfram að brjóta af sér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Nafn mannsins sem lést í sjósundi við Langasand

Nafn mannsins sem lést í sjósundi við Langasand
Fréttir
Í gær

Fordæma netárás og hótanir í garð Fréttablaðsins – „Alvarleg tilraun til að hafa áhrif á sjálfstæða ritstjórn íslensks fjölmiðils“

Fordæma netárás og hótanir í garð Fréttablaðsins – „Alvarleg tilraun til að hafa áhrif á sjálfstæða ritstjórn íslensks fjölmiðils“
Fréttir
Í gær

Fréttablaðið kærir hótanir hakkara til lögreglu – „Þetta er atlaga að fjölmiðlafrelsi“

Fréttablaðið kærir hótanir hakkara til lögreglu – „Þetta er atlaga að fjölmiðlafrelsi“
Fréttir
Í gær

Brotist inn í lúxusvöruverslunina Attikk í morgun – MYNDIR

Brotist inn í lúxusvöruverslunina Attikk í morgun – MYNDIR
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gunnar vonsvikinn eftir fund um mál kennarans sem smánaði hann – „Þær sögðu að þetta væri ekki einelti heldur mistök“

Gunnar vonsvikinn eftir fund um mál kennarans sem smánaði hann – „Þær sögðu að þetta væri ekki einelti heldur mistök“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

234 þúsund brottfarir erlendra farþega í júlí

234 þúsund brottfarir erlendra farþega í júlí