fbpx
Laugardagur 13.ágúst 2022
Fréttir

Mikil heift vegna stóra trampólíns-málsins og íbúar í Granaskjóli uggandi – „Við teljum mikilvægt að koma eftirfarandi á framfæri“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 18. maí 2022 20:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íbúi í Granaskjóli segir að trampólín sem er statt á lóð sem er sameign fjölda húsa við Granaskjól, upprunalega hafa átt að vera fyrir alla. Framkoma hóps unglinga síðasta sumar hafi þó gert það að verkum að íbúar ákváðu að takmarka aðgang að trampólíninu við börnin í botnlanganum. Íbúinn segir heiftina í umræðunni um trampólínið svo mikla að íbúar íhugi nú að taka það niður. 

Þetta kemur fram í svari sem íbúi sendi á DV í kjölfar fregna dagsins af harðri gagnrýni sem kom upp í Facebook-hóp Vesturbæinga um trampólínið. Íbúinn segir að íbúar í Granaskjóli séu uggandi vegna umræðunnar, einkum í ljósi þess aðkast sem íbúar við Einimel hafi orðið fyrir í kjölfar neikvæðrar umræðu um fósturjarðir. Því óskaði íbúi aftir að fá að koma nokkrum atriðum á framfæri.

„Það er nú varla að maður þori að tjá sig á Vesturbæjarsíðunni, slík er heiftin í garð íbúa Granaskjóls. Það finnst okkur mjög leitt en við teljum mikilvægt að koma eftirfarandi á framfæri vegna umræðunnar.

 Líkt og fram hefur komið í hópnum og í fjölmiðlum er lóðin ekki borgarland, heldur einkalóð og sameign húsanna í botnlanganum. Það er alveg skýrt.“ 

Sjá einnig: Foreldrar í Granaskjóli sakaðir um aðskilnaðarstefnu – Bara sum börn fá að leika sér á trampólíninu

Íbúi vísar þar til opinberra gagna sem sýni að svæðið þar sem trampólínið er sé lóð í sameing íbúa við Granaskjól, en skjalið má sjá hér.  Því hafi húseigendur í Granaskjóli keypt öll leiktæki sem á svæðinu eru, jafnvel rólurnar, sem og að annast umhirðu.

„Börn hafa leikið hér í hverfinu um árabil og markmiðið er ekki að koma í veg fyrir það, alls ekki.

Hið umdeilda trampolín var sett upp fyrir nokkrum árum, með reglum um notkun þess, t.d. varðandi fjölda sem má hoppa í einu og hversu lengi má hoppa á daginn. Reglur sem miða að því að varna slysum og trufla ekki fólkið í hverfinu. Fyrst voru engar takmarkanir á því hverjir máttu nota það.“

Reglurnar hafi verið til að varna slysum þar sem eigendur trampólínsins bera ábyrgð á því og vilja síður bera ábyrgð á notkun annarra á því.

Hópur unglinga með óspektir

Þrátt fyrir að öllum hafi verið heimilt til að byrja með að nota trampólínið þá hafi orðið ljóst eftir síðasta sumar að þessu þyrfti að breyta.

„Síðasta sumar fór hópur unglingsstráka að venja komu sína í botnlangann til að fara á trampolínið, yfir daginn og kvölds og nætur. Þeir komu í veg fyrir að börnin í hverfinu gætu hoppað, köstuðu steinum í húsin, hringdu dyrabjöllum seint á kvöldin og spörkuðu í útidyrahurðir og vöktu börnin. Ítrekað reyndu húseigendur að ræða við drengina en ekkert gekk og sóttu þeir raun enn meira í botnlangann eftir að reynt var að ræða við þá. Á endanum var einnig haft samband við lögreglu sem hefur því miður ekki tekist að ná í skottið á þeim.“

Vissulega væri óskastaðan sú að leiktækin væru opin öllum. En þó verði fólk að taka tillit til þeirrar ábyrgðar sem eigendurnir bera. Þessi hópur unglinga hafi einnig valdið öðrum íbúum í hverfinu ónæði og auk þess hrætt börn. Því hafi tvennt verið í stöðunni, að taka trampólínið niður eða leita annarra leiða.

„Þá var settur upp miðinn um að þetta væri fyrir börnin í botnlanganum. Miðinn er settur upp vegna ábyrgðarreglna og til að reyna að koma í veg fyrir að þessi hópur unglinga myndi sækja í trampolínið. Og það bar árangur. Þeir koma núna minna, en þó öðru hverju og sparka í hurðir og eru með læti.

Þar hafið þið það, þetta er tilraun til að halda leiktæki á þessari einkalóð fyrir börnin í hverfinu. Við reyndum fyrst að hafa það fyrir alla, enda væri það auðvitað best, en með hliðsjón af ábyrgðarreglum og ágangi unglinga var talið rétt að takmarka notkunina á þessu trampolíni sem sannarlega stendur á einkalóð. Og eflaust hefði mátt vera skýrara orðalag á miðanum til að koma í veg fyrir misskilning. Hinn möguleikinn er að taka það niður og miðað við umræðuna, heiftina og hótanirnar munu íbúar taka það til skoðunar.

 Með kveðju,

Íbúi í Granaskjóli“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sölvi Tryggvason á fulla ferð að nýju – Birtir fjögur ný hlaðvarpsviðtöl á heimasíðu sinni

Sölvi Tryggvason á fulla ferð að nýju – Birtir fjögur ný hlaðvarpsviðtöl á heimasíðu sinni
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lést eftir umferðarslys í miðbæ Akureyrar

Lést eftir umferðarslys í miðbæ Akureyrar