Kristján Ernir Björgvinsson byrjaði í neyslu aðeins þrettán ára gamall. Hann kolféll strax fyrir áfengi en fór að leita í önnur efni sem væri auðveldara að fela neyslu á en áfengi. Eftir að hafa sokkið djúpt er hann nú búinn að vera edrú í fimm ár og situr í starfshópi heilbrigðisráðuneytisins um afglæpavæðingu neysluskammta.
Kristján Ernir er gestur Elvu Bjarkar Ágústsdóttur sálfræðings í nýjasta þætti hlaðvarpsins Poppsálarinnar. Þar ræðir hann um reynslu sína af þeirri refsistefnu sem nú er við lýði þegar kemur að vímuefnum, en auk þess um áföll, skaðaminnkunarsjónarmið og neysluskammta. Elva Björk fékk nýverið til sín í Poppsálina Halldóru Mogensen, þingmann Pírata, þar sem þær ræddu einnit um afglæpavæðingu neysluskammta.
Að mati Kristjáns er það hreinlega spurning um líf eða dauða að fara mannúðlegri leiðir en refsistefnu þegar kemur að vímuefnum.
Í Poppsálinni segist hann vera kvíðasjúklingur með ADHD og að áfengi hafi slökkt á kvíðanum hjá honum. Hann prófaði kannabis og amfetamín en þau efni gerðu ekki það sama fyrir hann og áfengið. Hann áttaði sig á því að það gengi ekki upp að koma heim til mömmu sinnar fullur aðeins þrettán ára gamall þannig að hann fór að leita annarra leiða til að deyfa kvíðann. „Kannski þarf ég að finna mér önnur efni sem er léttara að fela,“ hugsaði hann með sér.
„Það er miklu erfiðara að redda sér áfengi heldur en ólöglegum fíkniefnum á Íslandi,“ segir hann og á þá sérstaklega við fyrir ungmenni sem geta ekki farið í Vínbúðina. Hann hafi aðeins fjórtán, fimmtán ára gamall lent í því að geta ómögulega reddað sér bjór en ekkert mál hafi verið að verða sér úti um kókaín, jafnvel um miðja nótt.
Kristján Ernir segist fljótt hafa orðið háður vímuefnum, bæði andlega og líkamlega, og fjármagnaði neysluna með sölu. „Það er veikasta fólkið okkar sem er að selja,“ segir hann og þessu fylgi líka aðrir glæpir.
Upphafið að endinum hjá honum var þegar hann byrjaði að misnota svokölluð bensólyf, róandi lyfseðilsskyld lyf.
Hann segist alltaf hafa verið í sífelldum feluleik með neysluna af ótta við að verða jaðarsettur, og segist til dæmis alltaf hafa verið „tilbúinn með hreint piss“ ef það ætti að prófa hann fyrir vímuefnum.
Vegna refsistefnu í vímuefnamálum hér á landi veigri fólk sér oft við að leita sér aðstoðar, jafnvel þegar mikið liggur við.
„Ég horfði upp á besta vin minn ofskammta þegar hann var að nota vímuefni í æð þegar við vorum að gista heima hjá mér þegar við vorum í 10. bekk. Hann grátbað mig um að hringja ekki á sjúkrabíl,“ segir Kristján Ernir sem þurfti að vaka yfir vini sínum í von um að hann hefði þetta af. Hræðslan við jaðarsetningu og við refsingu hafi verið slík að þeir leituðu ekki eftir aðstoð.
Og eftir áralangt leikrit og endalausan feluleik segir hann að það hafi í raun verið kærkomið þegar leikritið gekk ekki lengur upp: „Það var léttur að vera böstaður í fyrsta skipti,“ segir hann.
Hér má hlusta á þáttinn í heild sinni.