Á morgun verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness mál gegn Albananum Shpetim Qerimi. Shpetim þessi var meðal fjögurra sakborninga í Rauðagerðismálinu. Voru þau ákærð fyrir samverknað við morðið á Armando Bequirai sem Angjelin Sterkaj skaut til bana fyrir utan heimili Armandos í Rauðagerði, þann 13. febrúar 2021.
Svo fór að allir voru sýknaðir í málinu fyrir utan Angjelin sem nú afplánar 16 ára dóm fyrir morð. Shpetim ók Angjelin að Rauðagerði þegar hann framdi voðaverkið en staðhæfði að hann hafi ekkert vitað um fyrirætlanir Angjelins. Angjelin tók undir þann framburði og Shpetim var sýknaður.
Afbrotin sem Shpetim er núna ákærður fyrir eru mun vægari en Rauðagerðismálið og þau voru framin áður en til þess kom. DV hefur ákæru í málinu undir höndum. Shpetim er sakaður um að hafa framvísað fölsuðu ökuskírteini þann 2. ágúst 2019 er lögregla hafði afskipti af honum. Hann er ennfremur sakaður um að hafa þann 5. september 2020 ekið bíl réttindalaus og undir áhrifum áfengis. Lauk þeim akstri með óhappi.
Hann er einnig sakaður um að hafa ekið bíl sviptur ökurétti þann 13. janúar 2021.
Miðað við þetta er nær öruggt að Shpetim hafi ekki haft ökuréttindi þegar hann ók Angjelin í Rauðagerði kvöldið örlagaríka, 13. febrúar 2021.
Sem fyrr segir verður fyrirtaka í málinu við Héraðsdóm Reykjaness á morgun.