fbpx
Þriðjudagur 26.október 2021
Fréttir

Kattabúr veldur ólgu í Garðabæ – „Ég get ekki bara leyft þessu búri að vera þarna. Þetta er ógeðslegt.“ – Eigandinn skýrir málið

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 31. júlí 2021 15:00

Kattabúrið umrædda. Skjáskot Facebook.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íbúi í einbýlishúsahverfi í Garðbæ hefur valdið ólgu hjá nágrönnum sínum með því að setja upp föngunarbúr á lóð sinni til að lokka í ketti. Harðfisksbiti er inni í búrinu en ef köttur freistast þangað inn lokast hann inni í búrinu.

Í umræðu nágranna mannsins er farið hörðum orðum um þessa ráðstöfun mannsins og sumir íbúar gera því skóna að hún hafi eitthvað með hvarf katta í hverfinu að gera. DV ræddi við manninn sem greindi frá því að hann hefi enn ekki fangað einn einasta kött í búrið. Meira um það hér að neðan.

„Þar sem stundum er verið að biðja fólk að kíkja eftir týndum kisum hér þá vil ég benda á að í íbúar í XXXX eru með fellibúr með harðfisk í til að veiða óvelkomna ketti í,“ segi einn íbúinn á Facebook en í umræðum eru bæði heimilisfang og nafn mannsins birt.

Nágranni mannsins segist hafa kvartað undan búrinu við Matvælastofnun í fyrra sem ekkert hafi gert í málinu. Kona sem býr í næsta húsi hefur miklar áhyggjur þar sem kötturinn hennar elskar harðfisk.

Önnur kona segir:

„Þetta á ekki að líðast! Harðfiskurinn laðar að ketti sem fara sinn vanalega hring í nágrenninu – sem sagt væntanlega fleiri ketti en þá sem annars hefðu komið við í umræddum garði.“

Og önnur kona segir:

„Hef heyrt af þessum manni, greyið sem ekki þolir ketti er nú að laða alla ketti í hverfinu í garðinn sinn, mjög góð spurning hvað hann gerir svo við kisurnar?“

Föngunarbúr leyfileg

Samkvæmt reglugerð um velferð gæludýra er leyfilegt að fanga gæludýr, þar á meðal ketti, í búr af þessu tagi. Er kveðið á um stærð búranna og að vitja þurfi um þau á minnst 12 klukkustunda fresti en oftar ef hitastig er undir fimm gráðum eða yfir 20 gráðum. Þá segir ennfremur um þetta í reglugerðinni (12. gr.):

„Ávallt skal, eins fljótt og auðið er, leitað eftir örmerki dýrs sem fangað hefur verið. Ef ekki næst í umráðamann eða dýrið er ómerkt skal dýr án tafar flutt í dýraaðstöðu sveitarfélags.“

Segist vera dýravinur

DV hafði samband við manninn sem skýrði málið út í rólegheitum en hafði áhyggjur af umræðunni. „Ég vil ekki fá yfir mig einhverja holskeflu,“ sagði hann, en svo kom sagan:

„Þetta hefur staðið yfir í mörg ár. Nágranni minn var með kött og ég er með garð og sand allan hringinn í garðinum. Auðvitað sækir kötturinn í sandinn, ég skil það mjög vel. En það sem ég skil ekki er af hverju kattaeigendur útbúa ekki eitthvað í sínum garði en sleppa þeim bara út.“

Segir maðurinn að kettir séu svo þrifnir að þeir geri ekki þarfir sínar í heimilisgarðinum heldur fari í næstu garða.

„Ég hef ekkert út á ketti að setja. Ég er dýravinur,“ segir maðurinn ennfremur. „En núna er ég kominn með þann stimpil að ég sé dýraníðingur og það finnst mér mjög vont.“

Umræddur köttur sem varð tilefni þess að maðurinn greip til þess að nota búrið er nú ekki lengur lifandi en hann drapst úr elli. Maðurinn segist hafa þrifið eftir hann annaðhvorn dag í mörg ár. Árið 2016 eða 2017 fékk hann fulltrúa frá Heilbrigðiseftirlitinu til að ræða við nágranna sinn en það stoðaði lítt. Starfsmaðurinn ráðlagði manninum að nota tiltekna tegund af föngunarbúri.

Búrið tekið fram aftur – og fjarlægt

Núna hefur nýr nágrannaköttur tekið við hlutverki kattarins sem drapst og gerir stykki sín í garð mannsins. Þess vegna tók hann búrið fram aftur eftir nokkurt hlé.

„Kettir eru þannig að þeir tileinka sér svæði. Ef einn köttur skítur í garðinn þá gerir annar köttur það ekki á meðan. Þannig hefur það að minnsta kosti verið hjá mér.“

Þegar maðurinn er spurður út í hvað taki við eftir að köttur er fanginn í búri hans hlær hann og segir: „Ég hef ekki náð að veiða neinn.“

Hann segist enda lítið hafa notað búrið og spila hörð viðbrögð nágrannana þar inn í. Hann útskýrir hins vegar hvað hann álítur að myndi gerast ef köttur yrði einu sinni fanginn í búrinu:

„Mér skilst að það sé þannig að þegar köttur lendir einu sinni í klípu þá gleymir hann því aldrei,“ og telur maðurinn líklegt að eitt slíkt skipti gæti leitt til þess að viðkomandi köttur kæmi ekki aftur í garðinn hans.

Hann segist ekki vilja fá kattaskít í garðinn sinn enda hafi lítil börn leikið sér þar til skamms tíma. En hann segist vera búinn að taka búrið inn aftur eftir þessi hörðu viðbrögð nágrannana.

Aðspurður hvort hann geti ekki róað nágrannana niður og náð  samkomulagi í málinu, segir hann: „Ég hef reynt að gera það en það er bara öskrað.“

Segist hann ekki treysta sér til að setja búrið upp aftur. „Ég held bara áfram að fara út í garð og þrífa upp kattaskít með brosi á vör.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Íbúar í Innri-Njarðvík vilja meiri upplýsingar um vistun ósakhæfra í hverfinu

Íbúar í Innri-Njarðvík vilja meiri upplýsingar um vistun ósakhæfra í hverfinu
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Nítján þolendur hópnauðgana hafa leitað hjálpar það sem af er ári

Nítján þolendur hópnauðgana hafa leitað hjálpar það sem af er ári
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fjórir hreinsaðir af morðákærum íslenska ríkisins á einu ári – 68 milljóna lögmannskostnaður fellur á ríkið

Fjórir hreinsaðir af morðákærum íslenska ríkisins á einu ári – 68 milljóna lögmannskostnaður fellur á ríkið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Umdeild skrif Jakobs Bjarnar um hagsmunatengsl á RÚV – „Íslendingar eru prinsipplaus þjóð“ – „Hættu þessu rugli, Jakob“

Umdeild skrif Jakobs Bjarnar um hagsmunatengsl á RÚV – „Íslendingar eru prinsipplaus þjóð“ – „Hættu þessu rugli, Jakob“