fbpx
Þriðjudagur 28.mars 2023
Fréttir

Skúli segir erfitt að trúa því að tvö ár séu liðin frá síðasta flugi WOW air – „Misstum sjónar af uppruna okkar“

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 29. mars 2021 07:47

Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég á erfitt með að trúa því að þegar séu liðin tvö ár frá því að WOW air flaug sitt síðasta flug og ég þurfti að horfast í augu við þá staðreynd að þessu ótrúlega ævintýri væri lokið. Að sumu leyti er þetta þegar orðinn fjarlægur draumur en samt líður vart sá dagur að ég hugsi ekki um þann frábæra hóp sem gerði WOW að veruleika. Þetta var einstakt í alla staði,“ segir Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air í langri færslu á Facebook í tilefni þess að tvö ár eru liðin frá falli fyrirtækisins.

Hann segir að margt hafi verið skrifað um fall WOW air og eins og venjulega hafi ekki skort neitt á „sérfræðinga“ með misgáfaða eftiráspeki. Hann segir að ástæðan fyrir falli fyrirtækisins sé í grunninn einföld. „WOW hætti að vera lággjaldafélag og þar með afvega leiddumst við, fyrst hægt og svo mjög snögglega. Það var þessi stefnubreyting sem varð WOW að falli. Við gleymdum okkur í velgengninni og misstum sjónar af uppruna okkar sem hreinræktað lággjaldafélag þar sem allt gekk út á að bjóða ávallt lægstu mögulegu fargjöldin með bros á vör. Þess í stað fórum við að eltast við „legacy“ félög og máta okkur við Icelandair og eltast við markaðshlutdeild í stað arðsemi og kostnaðaraðhalds. Við innleiddum breiðþotur og stærri „premium“ sæti og bættum við allsskyns þjónustu með tilheyrandi kostnaði sem við reyndum að réttlæta með þeim rökum að tekjurnar myndu hækka enn meir, það reyndust dýrkeypt mistök,“ segir hann.

Hann segir að því hafi verið haldið fram að fargjöld WOW air hafi verið ósjálfbær og af þeim sökum hafi viðskiptamódelið ekki getað gengið upp. Hann segir þetta ekki rétt og bendir á að eftir því sem hann best viti hafi aðeins tvö flugfélög á Vesturlöndum ekki fengið ríkisstyrki vegna heimsfaraldursins, það séu Ryanair og Wizzair sem séu bæði lággjaldaflugfélög sem bjóði upp á lægstu fargjöldin á flugleiðum sínum og séu þau oft tugum prósenta lægri en verð keppinautanna.

Hann bendir á að þrátt fyrir þetta hafi bæði félögin verið arðbærari og vaxið hraðar en nær öll önnur flugfélög.

„Þeirra galdur er fólgin í þvi að vera með allan fókus á kostnað og arðsemi leiðar kerfisins frekar en að einblína á tekjuhliðina eða eins og Michael O´Leary hefur ítrekað sagt, flugfélög fara ekki á hausinn vegna of lágra fargjalda heldur vegna of hás kostnaðar. Þar lá einmitt vandi WOW air undir hið síðasta. Eftir frábæra byrjun þar sem við skiluðum met hagnaði 2015 og 2016 eða um 6 milljörðum á tveimur árum sem lággjaldafélag, þá er sorglegt að sjá hvernig reksturinn fór úrskeiðis í kjölfar þess að við hættum að fylgja okkar stefnu og uppruna,“ segir Skúli.

Hann segir að reynt hafi verið að laga reksturinn og erfið en nauðsynleg ákvörðun hafi verið tekið í árslok 2018 um að skila öllum breiðþotunum og fara aftur í fyrri búninginn sem lággjaldaflugfélag. Það hafi verið magnað að sjá hversu hratt reksturinn lagaðist í kjölfarið en það hafi verið um seinan.

„Ég mun aldrei gleyma stemningunni sem ríkti hjá okkur og þeim anda og vilja sem gerði okkur kleift að vinna kraftaverk dag eftir dag undir óheyrilega erfiðum kringumstæðum. Sem dæmi um það vorum við með 94% sætanýtingu í mars þrátt fyrir endalausa mótvinda á þeim tíma. Allt fram að morgni síðasta dags vorum við að vinna í því að tryggja framtíð félagsins og vorum sannfærð um að það myndi takast en því miður fór sem fór,“ segir hann.

Hann segir að eftir því sem tíminn líður sjái hann betur hversu einstakt ævintýri þetta hafi verið og hversu mikið hann sakni samstarfsfólksins, stemmningarinnar, kraftsins og þeirrar uppbyggingar sem átti sér stað hjá félaginu. „. Ég er óheyrilega þakklátur og stoltur yfir því að hafa fengið tækifæri til að leiða og taka þátt í þeirri uppbyggingu með öllu okkar frábæra starfsfólki, samstarfsaðilum og farþegum. Það voru forréttindi að vinna með ykkur öllum og ég sakna WOW í öllu sínu veldi! Takk fyrir ferðalagið!” segir hann að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Sakfelldur fyrir að slá barnsmóður sína í andlitið – Hélt því fram að hún hefði áður logið til um ofbeldi og væri að reyna að ná yfirhöndinni í forsjármáli

Sakfelldur fyrir að slá barnsmóður sína í andlitið – Hélt því fram að hún hefði áður logið til um ofbeldi og væri að reyna að ná yfirhöndinni í forsjármáli
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Landsbankinn bregst við fölsuðu myndbandi – Harma að vegið sé að Eddu með þessum ósmekklega hætti

Landsbankinn bregst við fölsuðu myndbandi – Harma að vegið sé að Eddu með þessum ósmekklega hætti
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Björn telur tímabært að rússneski sendiherrann verði rekinn úr landi

Björn telur tímabært að rússneski sendiherrann verði rekinn úr landi
Fréttir
Í gær

Gefa í skyn að Rússar hafi komið að skemmdarverkunum á Nord Stream

Gefa í skyn að Rússar hafi komið að skemmdarverkunum á Nord Stream
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tannsýking dró Elvu næstum því til dauða – Ein sérstæðasta lífsbjörg í sögu Landspítalans varð henni til lífs

Tannsýking dró Elvu næstum því til dauða – Ein sérstæðasta lífsbjörg í sögu Landspítalans varð henni til lífs
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fréttavaktin: Þorgerður Katrín, Jakob Frímann og umdeildur kofi

Fréttavaktin: Þorgerður Katrín, Jakob Frímann og umdeildur kofi