fbpx
Fimmtudagur 16.maí 2024
Fréttir

Ný skýrsla lögreglu varpar ljósi á ógnvænleg erlend glæpagengi á Íslandi

Máni Snær Þorláksson
Fimmtudaginn 16. desember 2021 13:40

Myndin er samsett.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Álag á lögreglu vegna skipulagðrar brotastarfsemi á Íslandi hefur aukist vegna notkunar brotahópa á stafrænni tækni. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi.

„Áhætta vegna skipulagðrar brotastarfsemi á Íslandi telst mjög mikil. Aukin notkun brotahópa á stafrænni tækni eykur álag á ýmsum sviðum löggæslunnar. Skipulögð brotastarfsemi felur í sér ógn við öryggi samfélags og einstaklinga,“ segir í upphafi skýrslunnar.

Þá kemur fram að íslenskur fíkniefnamarkaður líkist æ meira evrópska markaðnum. Viðskiptin hafa í auknum mæli færst á smáforrit og samfélagsmiðla þar sem rafrænni slóð er jafnharðan eða samskiptin eru þá dulkóðuð.

„Aðgengi íslenskra brotahópa að erlendum mörkuðum er auðveldara meðal annars vegna þess að íslenskir brotamenn hafa komið sér fyrir erlendis og myndað tengsl á helstu fíkniefnamörkuðum til dæmis í Hollandi, Spáni og í Suður-Ameríku. Aukin umsvif fjölþjóðlegra brotahópa og skipulagðra brotahópa frá Suðaustur-Evrópu á Íslandi eru merkjanleg.“

Skipulagt smygl á fólki og mansal á Íslandi

Ljóst er að fíkniefnaneysla í Reykjavík er umfangsmikil, það er staðfest af nýrri íslenskri rannsókn á frárennslisvatni á höfuðborgarsvæðinu. „Samkvæmt henni er fíkniefnaneysla hér mjög í líkingu við fíkniefnaneyslu í borgum Norðurlanda og Evrópu þar sem sambærilegar rannsóknir hafa verið unnar og vísbendingar um jafnvel meiri neyslu sumra fíkniefna til dæmis amfetamíns hér á landi en á sumum Norðurlanda,“ segir í skýrslunni.

Það er ekki bara fjallað um fíkniefnaneyslu í skýrslunni því einnig er fjallað um fólksflutninga og mansal. „Lögregla hefur upplýsingar um að hingað til lands sé flutt fólk er sæti misneytingu og jafnvel mansali. Á Íslandi eru starfandi glæpahópar sem eru tengdir ákveðnum þjóðarbrotum frá Mið-Austurlöndum og Suðaustur-Evrópu og stunda skipulagt smygl á fólki og mansal,“ segir í skýrslunni.

„Peningaþvætti er alvarlegur vandi í íslensku samfélagi“

Þar sem er skipulögð brotastarfsemi eru peningar yfirleitt líka þvegnir en greiningardeildin telur nærri öruggt að umfangsmikið peningaþvætti fari fram hér á landi.

„Peningaþvætti er alvarlegur vandi í íslensku samfélagi líkt og mikil fjölgun slíkra mála, í kjölfar bætts regluverks og aukinnar áherslu lögreglu á málaflokkinn, ber með sér. Ekki liggja fyrir upplýsingar um heildarupphæð haldlagðra/kyrrsettra fjármuna í tengslum við rannsóknir mála á peningaþvætti. Það er mat greiningardeildar ríkislögreglustjóra að bæta þurfi skráningar lögreglu er varðar kyrrsetningu og haldlagningu fjármuna í peningaþvættismálum,“ segir í skýrslunni.

Umtalsverðar fjárhæðir sviknar út í hverjum mánuði

Einnig er fjallað um netárásir í skýrslunni en þar er það fullyrt að nærri öruggt sé að ógnin vegna netárása á fjármálafyrirtæki á Íslandi fari vaxandi. Það er þó ekki bara netárásir á fjármálafyrirtæki sem hafa aukist heldur einnig á einstaklinga.

„Skráðum tölvu- og netbrotum fjölgar ört samkvæmt upplýsingakerfi lögreglu. Tilkynnt atvik til CERT-ÍS hafa rúmlega tvöfaldast frá árinu 2019. Net- og tölvuþrjótar ná að svíkja út umtalsverðar fjárhæðir af almennum borgurum og fyrirtækjum á Íslandi í hverjum mánuði til dæmis með svokölluðum fjárfestingasvikum sem fjallað er nánar um í kafla um tölvu- og netglæpi. Þó margt hafi áunnist í baráttu gegn tölvu- og netglæpum þá er það mat greiningardeildar ríkislögreglustjóra (GRD) að netvarnir, vöktun og viðbúnaður gegn netglæpum séu ekki nægjanlegar Íslandi.“

Greiningardeild ríkislögreglustjóra er á því að bæta megi menntun og fræðslu fyrir lögreglumenn varðandi tölvu- og netglæpi. Þá megi einnig bæta aðgengi lögreglu að sérfræðiþekkingu og samvinnu við fagaðila í málum sem varða þennan flokk afbrota.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Fleiri nýleg gjaldþrot Ásgeirs – Mörg hundruð milljónir í súginn

Fleiri nýleg gjaldþrot Ásgeirs – Mörg hundruð milljónir í súginn
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Jóhanna Vigdís fær á baukinn eftir viðtal við Höllu Hrund: „Furðulegar spurningar satt að segja“

Jóhanna Vigdís fær á baukinn eftir viðtal við Höllu Hrund: „Furðulegar spurningar satt að segja“