fbpx
Miðvikudagur 15.maí 2024
Fréttir

Skúli segir málið gegn sér byggt á misskilningi og Eva svarar honum – „Þessar fullyrðingar læknisins algjörlega út úr kortinu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 12. desember 2021 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eva Hauksdóttir lögmaður, eitt barna konu sem lést eftir að hún var að tilefnislausu sett í lífslokameðferð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) haustið 2019, hefur brugðist við ummælum sem höfð eru eftir Skúla Tómasi Gunnlaugssyni, fyrrverandi yfirlækni HSS, um að mál gegn honum væru byggð á miklum misskilningi og gögn gegn honum sem væru á borðinu í lögreglurannsókn á starfsháttum hans hefðu ekki sönnunargildi.

Skúli er grunaður um brot gegn ellefu sjúklingum og möguleg manndráp gegn sex þeirra. Snúast hin meintu brot um að læknirinn hafi sett sjúklinga sem voru ekki í lífshættu á lífslokameðferð. Í september fór lögregla fram á farbann yfir Skúla til 1. desember en Héraðsdómur Reykjaness féllst á farbann til 1. nóvember.

Málsrök Skúla, sem lagðist gegn farbanni gegn sér, láku til einhverra fjölmiðla í gær og greindi RÚV frá því að Skúli teldi málið gegn sér vera byggt á miklum misskilningi, sem fælist í því að á HSS hefði líknandi meðferð verið skráð sem lífslokameðferð og sjúklingar sem hann er sakaður um að hafa sett á lífslokameðferð hafi í raun verið settir á líknandi meðferð.

Þá segir Skúli að gögn í lögreglurannsókninni væru einhliða gögn sem hefði verið aflað án hans aðkomu og slík gögn hefðu ekki sönnunargildi. Staðhæfir Skúli að enginn rökstuddur grunur væri fyrir hendi í þeim málum sem hafa komið upp gegn honum.

Landlæknir hafnaði áður röksemdum Skúla

Eva Hauksdóttir fer  yfir málið í pistli á vefsíðu lögmannsþjónustu sinnar. Það tilgreinir hún bút út áliti Landlæknis, sem gaf vinnubrögðum Skúla falleinkunn, þar sem þeim málatilbúnaði Skúla, að hann hafi ekki sett móður hennar á líknandi meðferð er hafnað. Í áliti Landlæknis segir:

„Andmæli og útskýringar STG á þá leið að hann hafi ekki áformað eða beitt lífslokameðferð (LLM) heldur einkennameðferð eða líknarmeðferð (LM) og að um misskilning sé að ræða fá ekki stuðning í gögnum. Landlæknir fellst ekki á þá skýringu að tæknilegt atriði hafi ráðið skráningu LLM í stað LM. Þvert á móti liggur fyrir að hugtakið lífslokameðferð var skráð því nafni í sjúkraskrá við innlögn og í vottorði sem STG skrifaði 28.9.2019. Þá var meðferð DJ frá fyrsta degi síðustu legunnar í eðli sínu samsvarandi lífslokameðferð að eðli og framkvæmd.“

Landlæknir svipti Skúla starfsleyfi í kjölfar rannsóknar sinnar en honum var síðan veitt takmarkað starfsleyfi og starfar hann undir eftirliti á Landspítalanum. Nýlega var takmarkaða starfsleyfið framlengt um eitt ár. Hefur þessi ráðstöfun vakið mikla gagnrýni.

Eva gefur lítið fyrir þau rök Skúla að ekki sé upp rökstuddur grunur gegn honum og að gögn gegn honum séu einhliða og hafi ekki sönnunargildi:

„Það verður að teljast afar sérstakt að lögregla sé með mál til rannsóknar í meira en ár (þ.e. frá nóvember 2020) án þess að rökstuddur grunur liggi fyrir um refsivert brot. Enda eru þessar fullyrðingar læknisins algjörlega út úr kortinu,“ segir Eva. Þá segir hún fráleitt að telja gögn ekki marktæk af því þeirra sé ekki aflað í samvinnu við sakborning. Eva birtir texta úr áliti Landlæknis sem sanni að rökstuddur grunur sé um að móðir hennar hafi látist vegna þeirrar meðferðar sem Skúli skráði hana í:

„Vistunarmat var samþykkt 9.7.2019 skv. áritun á skjöl þar að lútandi en ekkert er að finna í gögnum sem styður að reynt hafi verið að þrýsta á um vistun eða finna leiðir til þess að bæta líkamlegt eða andlegt ástand hennar og undirbúa hana fyrir langtímavistun á hjúkrunarheimili. Þvert á móti virðist áhersla meðferðar fyrst og fremst hafa verið á að bæla og slæva og hvers kyns eftirliti með ástandi hennar eða lífsuppihaldandi meðferð hætt. Þetta hafði þær afleiðingar að mati landlæknis að í ellefu vikna langri legu hrakaði DJ; hún var með legusár, næringarskort og sýkingar allt fram til andlátsins, sem verður að telja líklegt að hafi orðið fyrr en ella vegna þeirrar meðferðar sem hún hlaut.“

Barnaníðingar í endurhæfingu á leikskólum?

Eva líkir þeirri ákvörðun að setja Skúla í starfsendurhæfingu á Landspítalanum við að barnaníðingar væru settir í endurhæfingu sem starfsmenn leikskóla. Í lok greinar sinnar fer hún yfir stöðu málsins gegn Skúla í dag:

„Lífslokalæknirinn er grunaður um stórfelld brot í starfi gagnvart ellefu sjúklingum. Sum málanna eru rannsökuð sem möguleg manndrápsmál enda liggur fyrir rökstuddur grunur byggður á sjúkragögnum, ítarlegum rannsóknum sérfræðinga og skriflegum og munnlegum framburði læknisins sjálfs. Áhuga vekur að það var ekki fyrr en eftir að læknirinn mætti í skýrslutöku (og útskýrði væntanlega allan þennan misskilning) sem lögreglan fór fram á farbann.

Lífslokalæknirinn er nú í endurhæfingu á bráðalyflækningadeild Landspítalans. Þar er hann að sögn yfirmanna undir eftirliti og því vonandi skaðlaus. Væri ekki líka alveg upplagt að senda grunaða barnaníðinga í endurhæfingu sem starfsmenn leikskóla? Undir eftirliti að sjálfsögðu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Skúli skammar Willum og Ölmu vegna sífelldra tafa á meðferð kvartana hjá embætti landlæknis

Skúli skammar Willum og Ölmu vegna sífelldra tafa á meðferð kvartana hjá embætti landlæknis
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Willum segir fylliefni stríð á hendur – Vill takmarka meðferðir til útlitsbreytinga án læknisfræðilegs tilgangs

Willum segir fylliefni stríð á hendur – Vill takmarka meðferðir til útlitsbreytinga án læknisfræðilegs tilgangs
Fréttir
Í gær

Vilborg segir að fólki sé misboðið vegna ákvörðunar Morgunblaðsins

Vilborg segir að fólki sé misboðið vegna ákvörðunar Morgunblaðsins
Fréttir
Í gær

Egill spyr hvort Íslendingar þurfi ekki að læra lexíu af Eurovision

Egill spyr hvort Íslendingar þurfi ekki að læra lexíu af Eurovision