fbpx
Fimmtudagur 23.september 2021
Fréttir

Guðmundur Elís sagður vilja bæta ráð sitt þrátt fyrir fleiri ofbeldiskærur og ítrekuð brot gegn nálgunarbanni

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 11. júní 2021 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur hefur þyngt refsingu í máli Guðmundar Elís Sigurvinssonar sem var í mars á síðasta ári sakfelldur fyrir gróft ofbeldi gegn fyrrverandi kærustu sinni, Kamillu Ívarsdóttur sem og fyrir að senda barnsmóður sinni grófar hótanir. Í héraði var Guðmundi gert að sæta 12 mánuðum í fangelsi en Landsréttur lengdi refsinguna í 18 mánuði.

Meðal þeirra brota sem greint er frá í ákæru er árás á Kamillu þann 19. október 2019  við Reykjavíkurhöfn þar sem hann veitti henni ítrekuð högg og spörk sem sérstaklega beindust að höfði hennar. Einnig tók hann hana hálstaki og þrengdi að öndunarvegi hennar. Við árásina þríbrotnaði Kamilla í andliti og er nú með gervikinnbein.

Í kjölfar árásarinnar þurfti Kamilla að dvelja í tíu daga á sjúkrahúsi og meðal annars að gangast undir aðgerðir vegna nefbrots og vegna hliðrunar á augnumgjörð. Kamilla þurfti á sjúkraþjálfun að halda í kjölfarið og kvaðst glíma við tíða höfuðverki, heyrnarskerðingu og hefði auk þess áhyggjur af sjón sinni.

T.h. má sjá mynd af Kamilli í kjölfar árásarinnar 19. október 2019

Eins var hann sakfelldur fyrir brot gegn barnsmóður sinni, hótanir en meðal þeirra hótanna sem hann sendi voru eftirfarandi:

„Ég lem þig í stöppu“

„Ég tek þig og kem þig í klessu og nauðga þér þegar ég kem“ 

„Þu gerir sjalfri þer bara illt verra með þessu B, Ekki gera mig reiðan, Afþvi ég verð reipur þangad til ég sé þig og þa sleppi ég henni ut á þig.“

Ekki brot í nánu sambandi

Það sem vekur athygli í málinu er að dómstólar, bæði héraðsdómur sem og Landsréttur, líta ekki á brot Guðmundar sem brot í nánu sambandi. Rökin sem fyrir því voru gefin voru þau að þrátt fyrir að ákvæði hegningarlaga um brot í nánu sambandi taki til fyrrverandi maka þá verði í þeim tilvikum að vera um fyrrverandi sambúðaraðila að ræða. Fram kom í dómi héraðsdóms að Guðmundur hafi búið heima hjá foreldrum bæði Kamillu sem og barnsmóðurinnar í nokkurn tíma. Ákæruvaldið fór sérstaklega fram á það við Landsrétt að þessi afstaða væri endurskoðuð og viðurkennt að brot Guðmundar teldust brot í nánu sambandi, en því var hafnað. Landsréttur tekur þó fram að þrátt fyrir að ekki sé talið að um ofbeldi í nánu sambandi sé að ræða þá auki tengsl Guðmundar og þolenda hans á alvarleika brotanna.

Tók héraðsdómur fram að þar sem ákvæði um brot í nánu sambandi fæli í sér þyngri refsingu en ella þá þyrfti að túlka allan vafa ákærða í hag og þar sem ekki var ráðið „að mikil festa hafi verið á sambúð ákærða“, eins og segir í niðurstöðu Héraðsdóms, og kvennanna tveggja þá hafi ekki verið um náið samband í skilningi hegningarlaga að ræða, þrátt fyrir að önnur brotaþola sé barnsmóðir hans.

Talið að hann hafi sýnt iðrun

Landsréttur tekur svo eftirfarandi fram í niðurstöðu sinni:

„Um ákvörðun refsingar er horft til þess að ákærði, sem var ungur að árum þegar brotin voru framin, hefur ekki áður gerst sekur um brot á hegningarlögum, hann játaði brot sín greiðlega og hefur sýnt merki iðrunar og vilja til að bæta ráð sitt.“

Fram hefur komið að síðan dómur héraðsdóms féll hefur Guðmundur ítrekað brotið gegn nálgunarbanni sem honum var gert að sæta gegn Kamillu. Hún steig fram í Kastljósi og sagði sögu sína. Þar tók hún fram að síðan Guðmundur hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald hafi hann brotið nálgunarbann 122 sinnum með því að hringja í hana. Síðan losnaði hann úr fangelsi og fór aftur beint til hennar. Hún lýsti einni árás hans gegn sér með þessum hætti:

„Hann tekur mig upp yfir axlirnar á sér og hendir mér í gólfið, þannig ég skalla gólfið og missti meðvitund í smá stund því ég skall svo fast á gólfið. Síðan nær hann mér þannig, ég sný mér svona við og er í að skríða upp í rúmið. Og tekur mig kyrkingartaki þar. Og ég var ekki einu sinni að berjast á móti honum því ég var bara: Ókei, þetta er bara búið sko. Og svo hélt hann hníf upp við hálsinn á mér og lýsti því fyrir mér hvað hann myndi gera ef ég myndi fara frá honum.”

Sjá einnig: „Hann hélt hníf upp við hálsinn á mér“ og sagðist ætla að „drepa fjölskylduna mína og mig“

Eins hefur barnsmóðir Guðmundar stigið fram og furðað sig á því hversu væga refsingu Guðmundur fékk í héraði. Greindi hún frá því að hún lifi við stöðugan ótta vitandi að barnsfaðir hennar gangi laus. Hann sé síbrotamaður og stórhættulegur.

„Hann hefur ekki bara beitt ofbeldi 1 sinni, ekki bara tvisvar eða þrisvar, þetta var ekki í fyrsta skipti og þetta var ekki í síðasta skipti. Karlmaður sem stal KJÚKLING, fékk hærri dóm.“

Sjá einngiGuðmundur Elís sendi virkilega grófar hótanir á barnsmóður sína – Gengur nú laus – „Hversu lengi þarf ég að vera hrædd?“ spyr hún

Barnsmóðirin velti því fyrir sér hvernig vinir Guðmundar gætu réttlætt það að halda vinskapnum áfram:. „Af hverju? Þið vitið af öllu sem hann hefur gert og hafið verið viðstödd af einhverjum atvikum. Hvenær ætlið þið að átta ykkur á hvernig mann þið eruð að styðja? Hvernig mann þið eruð að umgangast? Hvað þarf hann að gera svo þið sjáið hvernig maður hann er og hvernig maður hann mun alltaf vera?“

„Ég er svo fokking reið og sár, og ég skil ekki afhverju þið gerið ekki betur, ég skil ekki hvernig þig hafið það í ykkur að geta brugðist okkur aftur og aftur og aftur.“

Guðmundur var handtekinn í október og úrskurðaður þá í gæsluvarðhald og sat hann í gæsluvarðhaldi í fimm mánuði. Honum var sleppt úr fangelsi nokkrum dögum eftir að dómur féll og tveimur mánuðum síðar réðst hann aftur á Kamillu, líkt og hún greindi frá í Kastljósi.  Sú árás var kærð til lögreglu, en Landsréttur tekur engu að síður fram að Guðmundur hafi sýnt iðrun og vilja til að bæta ráð sitt. Eins hefur hann verið ákærður fyrir ítrekuð brot á nálgunarbanni. Eins mun hann hafa ráðist á barnsmóður sína aftur síðasta sumar og það mál er einnig á borði lögreglu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lokayfirlýsing DV: Faðir sem opinberar barnið sitt

Lokayfirlýsing DV: Faðir sem opinberar barnið sitt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sér ekki ástæðu til hertra aðgerða í bili

Sér ekki ástæðu til hertra aðgerða í bili