Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag mann í þrjátíu daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir líkamsárás sem átti sér stað í miðbæ Reykjavíkur.
Líkamsárásin átti sér stað aðfaranótt sunnudagsins 7. apríl 2019, fyrir utan verslun 10/11 að Austurstræti í Reykjavík.
Maðurinn réðst að öðrum manni með því að slá hann hnefahöggi í andlitið. Það varð til þess að brotaþoli féll í jörðina og hlaut nokkra skurði. Sá fyrsti var eins sentímetra stór á miðju enni. Annar var tveggja sentimetra stór aftan á höfði og sá þriðji var eins sentímetra stór ofan við vinstri augabrún. Skurðina þurfti að sauma með samtals átta sporum. Auk þess hlaut maðurinn hruflsár á kinn og bólgu yfir kinnbeini.
Hinn ákærði játaði brot sín skýlaust og var málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu. Hann óskaði eftir vægustu refsingu sem völ var á. Líkt og áður segir hlaut maðurinn þrjátíu daga skilorðsbundin fangelsisdóm, til tveggja ára. Og þá mun hann þurfa að greiða nokkur hundruð þúsund krónur í máls- og sakarkostnað.