fbpx
Miðvikudagur 12.maí 2021
Fréttir

Segir Kára hræða líftóruna úr þjóðinni – „Þú virðist sitja fastur í leðjunni, í Levi‘s skyrtunni ljósbláu og góðu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 15. september 2020 16:22

Samsett mynd DV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Skák, Kári, þú átt leikinn. Satt bezt að segja öfunda ég þig ekki af stöðunni. Þú virðist sitja fastur í leðjunni, í Levi‘s skyrtunni ljósbláu og góðu,“ segir Ole Anton Bieldvedt, alþjóðlegur kaupsýslumaður og stjórnmálarýnir, í lok nýrrar greinar sinnar á Vísir.is. Ritdeila er nú í gangi milli Ole og Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) og virðist hafa yfir sér kankvísan og stríðnislegan blæ.

Þrátt fyrir ítarlega svör Kára við gagnrýnispunktum Ole í grein í gær er Ole hvergi af baki dottinn og teflir fram sjö punktum í grein sinni í dag.

Sjá einnig: Kári svara Ole og kallar hann ringlaðan og aldraðan kaupsýslumann

Inntak gagnrýni Ole er að Kári ýki stórlega kostnað ÍE af skimun fyrir kórónuveirunni og að skimunarstarfið og rannsóknir ÍE á kórónuveirunni séu drifin af hagnaðarsjónarmiðum.

Í pistli sínum tekur Kári fyrir nokkrar fullyrðingar Ole og svarar þeim. Kári fullyrðir að það kosti einn milljarð á mánuði að reka ÍE en öll starfsemin hafi verið bundin við skimunarstarfið þrjá mánuði og ekki hafi verið hægt að sinna öðrum verkefnum á meðan. Ole dregur þetta í efa og telur að kostnaðurinn hafi ekki verið nema 136 milljónir. Kári svaraði þessu svona í gær:

„Hjá ÍE vinna um 280 starfsmenn og voru í kringum 40 við vinnu í Vatnsmýrinni að greina sýnin og vinna úr gögnum og 40 að taka sýni í Turninum í Kópavogi. Aðrir voru sendir heim til þess að minnka líkur á því að þeir sem ynnu við skimunina sýktust. Það hefði ekki þurft nema einn að sýkjast til þess að við hefðum þurft að setja alla á staðnum í sóttkví. Þeir starfsmenn sem voru sendir heim gátu ekki sinnt vinnu sinni vegna þess að hún snýst að mestu um að vinna úr gögnum sem mega ekki vera aðgengileg á netinu vegna persónuverndar. Þar af leiðandi var skimunin það eina sem fyrirtækið sinnti í þessa þrjá mánuði og það kostaði einn milljarð á mánuði. Það er hins vegar rétt sem Ole gefur í skyn að þetta er óheyrilega há upphæð fyrir þessa vinnu en það er bara það sem það er og það var enginn annar kostur í stöðunni. Beinn kostnaður ÍE af vinnu við veiruna ef frá er dreginn kostnaður af því að loka fyrir aðra starfsemi er 872 milljónir króna.“

Ole hefur vænt ÍE um að láta gróðasjónarmið stýra aðkomu sinni að skimunum og rannsóknum á kórónuveirunni en Kári vísaði því til föðurhúsanna í grein sinni. Ole hefur einnig haldið því fram að ÍE og samstarfsfyrirtæki hennar Amgen hafi hagsmuni af því að skimanir séu sem víðtækastar og þessir hagsmunir gangi gegn hagsmunum ferðaþjónustunnar. Við þessu sagði Kári: „Ég viðurkenni að ÍE hefur staðið fyrir öflun meiri gagna um veiruna og faraldurinn en nokkur annar aðili í íslensku samfélagi og að öllum líkindum í öllum heiminum. Þessi gögn höfum við afhent sóttvarnaryfirvöldum og þau hafa notað þau ásamt öðru til þess að byggja á ráðleggingar til ríkisstjórnarinnar. Það er síðan ríkisstjórnin sem tekur ákvörðun um hvað gera skuli, ekki sóttvarnaryfirvöld og svo sannarlega ekki ÍE. Ég sem einstaklingur styð ríkisstjórnina í þessu máli og held að hún sé að gera rétt og sé með þessu að vernda heildarhagsmuni samfélagsins. Ég er líka á þeirri skoðun að það séu langtíma hagsmunir ferðaþjónstunar að við tökum á faraldrinum á þennan máta þótt honum fylgi töluverðar fórnir.“

Segir að starfsfólk ÍE geti stundað rannsóknir heima hjá sér í fjarvinnu

„Þú ert vinsæll pistlahöfundur (svo ekki sé talað um skimunarpáfi, enda búinn að hræða líftóruna úr stórum hluta þjóðarinnar, sem nú trúir þér og fylgir, eins og Rússar Raspútin), og tryggir þessi endurtekning minna helztu punkta hugsanlega tvöfaldan lestur,“ segir Ole og er ánægður með að Kári hafi tekið upp megnið af efni greinar hans í andsvarapistli sínum. Hann ræðst síðan að röksemdum Kára fyrir því að skimanir ÍE hefðu kostað fyrirtækið yfir einn milljarð á mánuði, þar sem skimanaverkefnið yfirtók húsnæði ÍE svo starfsfólk varð að fara heim og ekki var hægt að vinna í öðrum verkefnum. Rekstur ÍE kosti einn milljarð á mánuði. Ole skrifar:

„Þú upplýsir, að 280 manns vinni hjá IE, og, að 80 þeirra hafi unnið við sýnatöku marz til maí, í þrjá mánuði, og, að hinir 200 hafi verið sendir heim, þar sem þeir gerðu ekkert í 90 daga eða lengur. Sýnist mér þetta vísbendingu um litla hugkvæmni eða lítinn frumleika forstjóra IE, sé þetta þá rétt. Ég hef heyrt af mörgum stjórnendum, alls konar fyrirtækja, sem létu sitt fólk vinna heima í vor, með góðum árangri, í einstaka tilfellum með betri árangri, en náðist á vinnustað. Varla geta hin margvíslegu verkefni IE verið svo heilög, þó merkileg séu, að menn geti ekki unnið við þau á neinn hátt í fjarvinnu. Ef ég ætti að gefa einkunn fyrir þessa starfsstýringu 200 manna í 3 mánuði – afsetning þeirra í algjört iðjuleysi og gagnsleysi – þá væri hún, því miður, falleinkunn.“

Ole dregur mjög í efa að góðvild en ekki gróðasjónarmið séu að baki skimunarverkefnum ÍE. Hann spyr hvort þessi góðvild muni ekki valda ÍE gjaldþroti:

„Nú sýnir nefndur ársreikningur IE, að eigiðfé IE var ekki „nema“ um 3,8 milljarðar í lok þess reikningsárs. Ertu að segja, að bara á 3 mánuðum í vor, hafir þú gefið 80% af eigin fé fyrirtækisins einfaldlega út úr því!? Slíkt væri meira en rausnarlegt. Einhver hefði kallað það algjört rugl. Hvernig stenzt slíkt gagnvart stjórn, hluthöfum eiganda, kröfuhöfum og yfirvöldum, þar með talið gagnvart skattyfirvöldum!? Í fljótu bragði virðist mér þessi meinta „gjöf“ vera skattskyld. Hvað segir ágætur Kári, fyrir mér nú frekar gola en stormur, um þetta?“

Og, hvað með framhaldið; sumarið og haustið? Þú virðist vera að halda áfram að gefa ríkisstjórninni og þjóðinni milljónir, ef ekki milljarða, án þess, að þú segir, að þið fáið nokkuð fyrir ykkar snúð, annað en innri gleði. Ef þetta er rétt, sé ég ekki betur, en að þú og það félag, sem þú stýrir, IE, standið á gjaldþrotsbrúninni. Er ekki rekstrarkostnaðurinn 1 milljarður á mánuði!?“

Ole endar grein sína á gamansömum nótum og af tóni hans má ráða að hann telji að ritdeilan við Kára sé rétt að hefjast. Það kemur í ljós hvort Kári heldur áfram að svara honum.

Sjá grein Ole

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Þrjú smit í gær
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maríjon til Kvis

Maríjon til Kvis
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gunnar smíðakennari reynir að staðsetja sig í metoo-umræðunni – „Kannski er ég þjakaður af erfðasynd“

Gunnar smíðakennari reynir að staðsetja sig í metoo-umræðunni – „Kannski er ég þjakaður af erfðasynd“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bókunum í flug hingað til lands fjölgar ört

Bókunum í flug hingað til lands fjölgar ört
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Banna sölu á maíspokum á kassasvæðum verslana

Banna sölu á maíspokum á kassasvæðum verslana