fbpx
Fimmtudagur 26.nóvember 2020
Fréttir

Grimmilegt einelti í Sjálandsskóla – ,,Mér líður svo illa í skólanum að mig langar að deyja”

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 23. október 2020 10:16

Sjálandsskóli. Mynd: Zeppelin.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Endilega fjallið um þetta, einelti er dauðans alvara,“ segir Sigríður Ásmundsdóttir blaðamaður í stuttu spjalli við DV en hún hefur birt sláandi og áhrifamikinn pistil um einelti sem sonur hennar hefur orðið fyrir í Sjálandsskóla.

„Skólar eru svo úrræðalausir, þolendur flýja alltaf,“ segir hún enn fremur.

Í frásögn sinni lýsir hún kerfisbundnu, andlegu og líkamlegu einelti sem sonur hennar verður fyrir í Sjálandsskóla. Sem dæmi um eineltið hafa 10 til 11 ára strákar hrópað niðrandi orð um son Sigríðar fyrir utan heimili þeirra og birt upptökur af athæfinu á Youtube.

Sigríður hefur tekið þá ákvörðun að færa son sinn úr skólanum.Þrátt fyrir þetta ber hún skólastóranum, Sesselju Þóru Gunnarsdóttur, vel söguna: „Sesselja skólastjóri er yndisleg kona og var miður sín, reyndi en það var bara ekki nóg og við gátum ekki meir, en hún vildi halda eineltisvinnunni áfram, en var samt sammála mér um að það besta í stöðunni fyrir Ólíver væri að fara annað,“ segir Sigríður, en þessi ummæli virðast bera merki þess að ráðleysi gegn einelti sé mikið í skólanum.

Ekki náðist í Sesselju við gerð fréttarinnar en vetrarfrí er núna í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu.

Eftirfarandi eru nokkur dæmi um athugasemdirnar sem sonur Sigríðar má þola:

,,Hatar þú Ólíver?” ,,Já”
,,Hatar þú Ólíver?” ,,Já”
… allir viðstaddir (10-11 ára bekkjarfélagar) sögðust hata Ólíver, nema einn, sá er vinur hans.
,,Á ég að berja þig?”
,,Þú ert sterahaus með stór eyru”
,,Þú átt enga vini, þú ert ömurlegur”
,,Þú ert ljótur”
,,Þú ríður litlu systur þinni, barnaperri”
,,Pabbi þinn er vondur, hann lemur þig”
,,Mamma þín er svo feit að það er ekki einu sinni hægt að prenta út myndir af henni”
,,Það er þér að kenna að við erum svona leiðinlegir við þig”
,,Flott mark hjá þér ógeðið þitt!“ (bekkjarfélagi sem var með honum í liði á fótboltamóti).
Sigríður lýsir margskonar öðru ofbeldi:
Skólatöskunni var hent í ruslatunnu á fótboltaæfingu.
Takkaskónum var kastað yfir háa girðingu eftir æfingu, hann labbaði heim á sokkunum.
Strákar úr bekknum plönuðu að mæta fyrir utan heimilið okkar, hrópa niðrandi orð um Ólíver og setja það á Youtube, einhver stoppaði það en Ólíver frétti þetta og það var nóg. Hann varð miður sín bara við að heyra hvað þeim langaði að gera honum.
Ég hef fengið ótal símtöl frá elsku stráknum mínum þar sem hann er grátandi inni á klósetti í skólanum og biður mig að koma og sækja sig því strákarnir hafa hótað honum, hreytt í hann særandi athugasemdum eða lamið hann.
Ég hef sótt hann grátandi í skólann, oft.
Ég hef sótt hann blóðugan í skólann eftir hnefahögg í andlitið, hann fékk blóðnasir.
Sigríður segir jafnframt frá því hvernig hún hefur reynt að stappa stálinu í son sinn og styrkja hann í þessu stríði. Ljóst er að sú barátta er erfið og eineltið sem hann verður fyrir getur drepið lífsviljann:
Ég hef reynt að stappa í hann stálinu, sagt honum að vera sterkur, vera grjótharður og láta ekki þessi stráka komast upp með að láta honum líða illa. Þeim líði illa og láti það bitna á honum. Ég þurrka tárin og reyni að halda aftur að mínum þegar hann segir mér að sér líði svo illa í skólanum að hann geti ekki hugsað, geti ekki lært og kvíði fyrir að mæta alla daga. Ég segi stráknum mínum að vera hugrakkur, hann sé frábær, snillingur í handbolta og fótbolta og með risastórt og fallegt hjarta sem muni koma honum langt í lífinu. Ég reyni að gera allt sem ég get til að byggja upp sjálfstraustið og ,,plástra” laskaða sálina.
Það var svo kvöld eitt fyrir stuttu að ég heyrði að hann var að tala við vin sinn sem býr úti á landi; var að segja honum frá strákunum í bekknum og hvað þeir séu grimmir við sig. Ég legg við hlustir og þegar ég heyri barnið mitt segja ,,mér líður svo illa í skólanum að mig langar að deyja” brestur hjartað mitt. Elsku strákurinn minn. Ég sem segi honum alltaf að vera bara sterkur, þetta muni lagast. Þarna áttaði ég mig á því hversu slæmt eineltið var orðið; þegar barn segist ekki vilja lifa lengur er eineltið orðið dauðans alvara! Hann vill ekki valda okkur áhyggjum, vill ekki að okkur líði illa af því honum líði illa, vill ekki vera til vandræða því þannig upplifir hann sig í hópnum sem hefur útilokað hann. Hundsað hann og dreift ýkjusögum um hann, víðar en bara í skólanum, líka á fótboltaæfingum þar sem strákar úr öllum Garðabæ æfa saman. Þar heyrir hann að hann sé klikkaður og geðveikur, ég get endalaust talið upp. Hann gafst upp á Stjörnunni og fór að æfa með FH, þar er hann mjög ánægður.
Hún lýsir síðan atviki sem segir mikið um varnarhætti drengsins hennar í eineltisstríðinu:
Einu sinni báðu nokkrir strákar úr bekknum hann að hitta sig í sundi, hann var glaður og dreif sig af stað en þegar hann kom ofan í laugina þóttust þeir ekki þekkja hann, svöruðu honum ekki þegar hann kallaði á þá. ,,Af hverju fórstu ekki uppúr?” spurði ég hann þegar hann kom heim klukkutíma seinna og sagði mér hvernig var í sundi. ,,Ég var með boltann minn og lék mér bara sjálfur.”
Þarna áttaði ég mig á því að ástæðan fyrir því að hann er ALLTAF með bolta er ekki bara að vegna þess að hann elskar fótbolta og handbolta, boltinn er öryggið hans, ef hann hefur hann getur hann alltaf leikið sér einn. Ég vildi tilkynna eineltið formlega svo ákveðið ferli færi í gang til að reyna að stöðva það. Hann vildi það lengst af ekki, sagði að þá yrði það bara verra. Þeir myndu þá kalla hann aumingja og grenjuskjóðu. Ég fékk hann á endanum til að samþykkja það. Ólíver sagði samt við mig: ,,mamma þetta mun samt aldrei lagast, þeir geta ekki hætt að hata mig.”

Mikilvægt að opna umræðuna

Sigríður lýsir því hvernig viðbragðsferli gegn einelti sem fór í gang hafði nánast engin áhrif. Þar með er ekki lengur neitt annað í stöðunni en að taka drenginn úr Sjálandsskóla. Hún hvetur okkur til að opna umræðuna um einelti, það megi aldrei vera tabú:
Hann var búinn að missa vonina eftir langvarandi niðurbrot á sálinni. Ferlið fór í gang, rætt var við alla drengina og foreldra þeirra, það átti að taka á þessu. En nei, þeir létu hann vera í nokkra daga og byrjuðu svo aftur af fullum þunga þar til sonur minn gat ekki meira. Hann kom heim og brotnaði niður; hágrét og sagðist aldrei vilja fara aftur í Sjálandsskóla. Ég gat ekki haldið áfram að segja honum að þetta myndi lagast, hann hafði rétt fyrir sér, þetta lagaðist ekki. ,,Þeir geta ekki hætt að hata mig mamma”. Ég lofaði honum að hann þyrfti aldrei aftur að mæta í skólann, við myndum finna góðan skóla. Honum var létt, mér var létt. Hann frétti svo frá vini sínum að þegar skólastjórinn hafi sagt bekknum að Ólíver væri hættur í skólanum vegna eineltis hafi sumir þeirra fagnað! Það segir allt um ástandið. Þolendur eineltis þurfa alltof oft að flýja skólann sinn, gerendur halda áfram í skólanum, þeir komast upp með að rústa sálum skólafélaga sinna. Einelti má ekki vera tabú, það má ekki vera skömm að verða fyrir einelti. Opnum umræðuna, segjum frá og skilum skömminni til þeirra sem eiga hana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Bæklingur um „Græna planið“ kostaði borgina 10 milljónir – 9.6 tonn af pappír í kynningu á umhverfisvænu skipulagi

Bæklingur um „Græna planið“ kostaði borgina 10 milljónir – 9.6 tonn af pappír í kynningu á umhverfisvænu skipulagi
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Tekjur Pírata námu 78 milljónum í fyrra – Fengu aðeins 35 þúsund kall í styrki frá einstaklingum

Tekjur Pírata námu 78 milljónum í fyrra – Fengu aðeins 35 þúsund kall í styrki frá einstaklingum
Fréttir
Í gær

Óánægja meðal íbúa Langholtshverfis vegna konu á götuhorni – „Þessi kona er algjört fífl“

Óánægja meðal íbúa Langholtshverfis vegna konu á götuhorni – „Þessi kona er algjört fífl“
Fréttir
Í gær

Smit innan þríeykisins – Víðir með Covid-19

Smit innan þríeykisins – Víðir með Covid-19
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Starfsmaður Akureyrarbæjar sagður hafa neytt 11 ára dreng úr bol og buxum og slegið hann í andlit

Starfsmaður Akureyrarbæjar sagður hafa neytt 11 ára dreng úr bol og buxum og slegið hann í andlit
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segja Guðmund hafa selt Jóni lagerinn á spottprís skömmu fyrir gjaldþrot – Kennitöluflakksmál óalgeng í kerfinu

Segja Guðmund hafa selt Jóni lagerinn á spottprís skömmu fyrir gjaldþrot – Kennitöluflakksmál óalgeng í kerfinu