fbpx
Þriðjudagur 06.maí 2025
Fréttir

Gagnrýnir hvað birtar eru viðkvæmar upplýsingar um börn í Mæðratips – „Leitaðu fyrst til læknis“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 12. október 2020 13:42

Vigdís Sigríður Jóhannsdóttir. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vigdís Sigríður Jóhannsdóttir, lögfræðingur og ráðgjafi á sviði persónuverndar, varar við þeirri þróun sem orðið hefur síðari ár að foreldrar birta viðkvæmar heilsufarsupplýsingar um börn sín og gjarnan myndir af þeim í stórum hópum á Facebook. Foreldrum virðist ganga gott eitt til, þ.e. að fá ráð og upplýsingar sem snerta veikindi barna sinna, en þetta getur verið óheppilegt.

Vigdís fer yfir þessi mál í grein á Vísir.is í dag og nefnir til sögunnar stóra og vinsæla Facebook-hópa:

„Hóparnir eru ýmist opnir öllum, lokaðir eða faldir. Þeir geta verið misstórir en það eru þó nokkrir hópar sem eru gríðarlega vinsælir á meðal fólks á Íslandi. Má þar nefna Skreytum hús… með um 71.000 meðlimi, Matartips! með um 41.000 meðlimi, Beauty tips! með um 35.000 meðlimi og Mæðra tips! með um 21.000 meðlimi. Þessir fjórir hópar eiga það sameiginlegt að vera lokaðir hópar. Í síðastnefnda hópnum, þ.e. Mæðra tips! er að finna umræðuvettvang þar sem mæður og verðandi mæður geta leitað ráða líkt og nafnið á hópnum gefur til kynna. Þarna koma fyrir alls konar fyrirspurnir og vangaveltur sem tengjast móðurhlutverkinu. Sumir meðlimir ákveða að senda inn fyrirspurnir á hópinn undir „Nafnlaus fyrirspurn“ sem þýðir að fyrirspurninni er deilt með stjórnendum hópsins OG Facebook á meðan aðrir setja inn fyrirspurnir undir nafni, sem flestir gera.“

Vigdís segir að fyrirspurnirnar í þessum hópum séu mismunandi en fjöldi þeirra snúi að heilsufari barna og þar sé oft viðkvæmum upplýsingum deilt:

„Myndir af börnum sem eru jafnvel fáklædd með ýmis konar útbrot eru birtar í hópnum í því skyni að leita læknisráða. Upplýst er um andleg veikindi barna og greiningar sem börn hafa. Þrátt fyrir að mynd af barni fylgi allajafna ekki með slíkum fyrirspurnum, þ.e. um andleg veikindi eða greiningar, þá er oftast ekki vandkvæðum háð að fara inn á „prófíl“ spyrjanda til að fá frekari upplýsingar um barnið.“

Vigdís segir að eflaust sé tilgangurinn sá að fá ráð en ekki deila viðkvæmum upplýsingum, en: „Raunin er þó sú að með þessum fyrirspurnum er verið að deila viðkvæmum persónuupplýsingum um börnin. Vissulega er það þannig að foreldrar/forráðamenn hafa stjórn á því hvaða upplýsingum þeir deila um börn sín en það er einmitt mergur málsins, foreldrarnir hafa stjórnina en börnin hafa allajafna ekkert um þessa upplýsingagjöf að segja. Það er þó þannig að börn eiga rétt á að tjá sig um hvað er gert með þeirra upplýsingar að teknu tilliti til aldurs og þroska og þau mega hafa skoðun t.d. á myndbirtingum á samfélagsmiðlum þrátt fyrir að foreldrar þeirra birti myndirnar.“

Getur haft afleiðingar fyrir börnin

Vigdís segir að birting svo viðkvæmra upplýsinga geti haft áhrif á börnin síðar á ævinni. Ekki sé eingöngu verið að deila upplýsingum með stórum hópi fólks heldur einnig með gríðarstóru bandarísku fyrirtæki sem Facebook sé. „Hugum að því að börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs og persónuvernd rétt eins og fullorðnir,“ segir Vigdís.

Í samtali við DV segir hún aðspurð að þar sem foreldrarnir séu forráðamenn barnanna geti  þau ekki gerst brotleg við persónuverndarlög með því að deila upplýsingum um þau. Hins vegar vill hún vekja foreldra til meðvitundar um að þetta sé varhugavert.

Aðspurð hvort hægt sé að fara aðrar leiðir til að fá ráð við kvillum barna en að deila viðkvæmum upplýsingum um þau segir Vigdís að almennar fyrirspurnir sem byggja á einkennum barnsins séu alltaf betri en nákvæmar persónulegar upplýsingar um líðan barnsins eða myndir af útbrotum og einkennum. „Hér áður fyrr leituðu mæður oft ráða á bland.is og þar var hægt að koma fram undir nafnleynd. Þar var þó sá galli að þú varst að deila upplýsingum með forráðamönnum bland.is,“ segir Vigdís.

„Annars hef ég engin endanleg ráð um hvernig fólk getur borið sig að við þessar aðstæður nema þetta: Leitaðu fyrst til læknis. Fólk er oft að spyrjast fyrir og birta viðkvæmar upplýsingar um barnið sitt í Mæðratips áður en það hefur haft samband við lækni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Bónus hefur afhent 500 nýfæddum börnum Barnabónus

Bónus hefur afhent 500 nýfæddum börnum Barnabónus
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Ferðamaður óttast að gera Íslendinga reiða með því að panta hvalkjöt – „Þetta er ekki einu sinni gott“

Ferðamaður óttast að gera Íslendinga reiða með því að panta hvalkjöt – „Þetta er ekki einu sinni gott“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Segir vinnubrögð samskiptaráðgjafa hafa ýtt bróður sínum í sjálfsvíg – ,,Við fáum aldrei manninn til baka. Við ætlum að hreinsa mannorðið hans“

Segir vinnubrögð samskiptaráðgjafa hafa ýtt bróður sínum í sjálfsvíg – ,,Við fáum aldrei manninn til baka. Við ætlum að hreinsa mannorðið hans“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Katrín segir Grænland ekki vera til sölu – Trump hótar á ný

Katrín segir Grænland ekki vera til sölu – Trump hótar á ný