fbpx
Mánudagur 06.maí 2024
Fréttir

Borgun ætlar að ráða 60 nýja starfsmenn en sagði upp tíu í gær

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 16. júlí 2020 13:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Greiðslumiðlunarfyrirtækið Borgun hefur birt fréttatilkynningu þess efnis að fyrirtækið hyggist ráða 60 nýja starfsmenn á næstu sex mánuðum. Þetta eru frábærar fréttir á tímum vaxandi atvinnuleysis vegna kórónuveirufaraldursins. Hins vegar sagði fyrirtækið upp 10 starfsmönnum í gær  eins og Markaður Fréttablaðsins skýrði frá í morgun. Þær uppsagnir má líklega rekja til eigendaskipta en meðal þeirra sem sagt var upp voru einhverjir af æðstu stjórnendum fyrirtækisins. Sæmundur Sæmundsson, sem var forstjóri fyrirtækisins, lét nýlega af störfum.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Borgun verður stór hluti nýrra starfsmanna nýútskrifaðir háskólanemar sem fara í gegnum sérstaka þjálfun. Fréttatilkynning Borgunar vegna málsins er eftirfarandi:

 

„Hópráðning hjá Borgun 

Nýr eigandi greiðslumiðlunarfyrirtækisins Borgunar, áður Kreditkort, hyggst ráðast í verulega stækkun fyrirtækisins og hyggst það ráða 60 nýja starfsmenn á næstu 6 mánuðum hér á landi. Stór hluti nýráðninganna verður úr hópi nýútskrifaðra háskólanema sem fara munu í gegnum sérstaka þjálfun á ýmsum sviðum. Alþjóðlega fyrirtækið Salt Pay Co Ltd. sem nýverið keypti Borgun, mun leggja umtalsverða fjármuni í uppbyggingu félagsins á næstunni en fyrirtækið er umsvifamikið í tæknilausnum og þjónustu við söluaðila víða um Evrópu.

Samhliða tilkynningu gærdagsins um brotthvarf Sæmundar Sæmundssonar úr stóli forstjóra hafa örfáir stjórnendur og starfsmenn til viðbótar látið af störfum hjá félaginu, aðallega á þeim sviðum þar sem nýir stjórnendur taka við. Alls voru það tíu manns að Sæmundi meðtöldum. Ríflega 130 manns starfa hjá fyrirtækinu eftir breytingarnar en fjölgar, sem áður sagði, verulega á næstunni. Hluti þeirra stjórnenda sem áður mynduðu framkvæmdastjórn félagsins verða áfram í stjórnendahópnum eftir kaupin. Ráðning stjórnar fyrirtækisins á Eduardo Pontes og Marcos Nunes, sem eru nýir forstjórar Borgunar, er upphafið á endurskipulagningu félagsins með það að markmiði að setja viðskiptavinina í fyrsta sæti – þeir verði hjartað í starfseminni fram á við.

Salt Pay vill koma á framfæri kærum þökkum til þeirra sem leitt hafa fyrirtækið síðustu ár. Þeir hafi byggt grunninn og stuðlað að því að Borgun gæti fundið alþjóðlegan kaupanda sem tryggir bjarta framtíð fyrirtækisins.

Salt Pay var stofnað af reyndum stjórnendum og frumkvöðlum sem hafa byggt upp nokkur leiðandi greiðslumiðlunarfyrirtæki víða um heim. Meðstofnandi og stjórnarformaður Salt Pay er Ali Mazanderani sem er sérfræðingur í fjártækniiðnaðinum og stjórnarmaður í tveimur skráðum greiðslumiðlunarfyrirtækjum, StoneCo sem skráð er á Nasdaq markaðinn og Network International sem er skráð í bresku kauphöllina FTSE.

Markmiðið með kaupum Salt Pay á Borgun og ráðningu fjölda nýrra starfsmanna hér á landi er að ná forskoti í þróun lausna og þjónustu fyrir söluaðila í allri álfunni. Ekki aðeins í gegnum greiðslumiðlun heldur einnig með því að hjálpa söluaðilunum sjálfum að vaxa og ná fram aukinni skilvirkni í rekstri sínum. Salt Pay þjónar í dag milljónum söluaðila í 14 löndum.

 

Marcos Nunes, forstjóri Borgunar: „Við erum afar spennt fyrir að geta boðið ungu fólki á Íslandi ný tækifæri hjá ört stækkandi fyrirtæki. Það er sá hópur sem hefur orðið hvað verst úti í kjölfarið á COVID-19 og þarf nauðsynlega að fá sitt fyrsta tækifæri á vinnumarkaðnum. Við munum bjóða þeim þjálfun þar sem þau læra að þekkja þarfir viðskiptavina, þróa vörur og lausnir sem tryggja að söluaðilar fái bestu mögulega þjónustu. Hjá Salt Pay erum við vön að segja: Vertu forvitinn, vertu hugrakkur, taktu áhættu og vertu sífellt að rannsaka og reyna að skilja þarfir viðskiptavinanna. Við viljum skapa frumkvöðlaumhverfi hjá Borgun sem höfði til næstu kynslóðar leiðtoga í viðskiptalífinu og tæknigeiranum. Við vitum að ungt fólk á Íslandi vill láta til sín taka, láta gott af sér leiða og fá tækifæri til að starfa í alþjóðlegu umhverfi þar sem það getur byggt upp reynslu og öðlast hæfni sem skapar þeim farsælan starfsframa.“

Unnur María Birgisdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs og menningar hjá Salt Pay: „Salt Pay leggur áherslu á að bjóða ungu fólki tækifæri til vaxtar. Fyrirtækið ætlar að verða jákvætt afl í íslensku atvinnulífi og til framtíðar ætlar það að verða leiðandi á sínu sviði í Evrópu og í heiminum. Við höfum mikla trú á framtíðinni, bæði á Íslandi og annars staðar og vonumst til að fá fjölmargar umsóknir um þau 60 störf sem við ætlum að ráða í hjá Borgun á næstu vikum og mánuðum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Stefán Einar svarar fyrir sig – Segir ómerkilega menn hafa ráðist á eiginkonu hans – „Þá skortir sómakennd til að sjá að sér“

Stefán Einar svarar fyrir sig – Segir ómerkilega menn hafa ráðist á eiginkonu hans – „Þá skortir sómakennd til að sjá að sér“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Elín Hirst óttast um velferð föður síns

Elín Hirst óttast um velferð föður síns