fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Harðar deilur um baráttusögu samkynhneigðra: „Ég trúi því ekki að þú hafir kallað mig lygara“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 3. nóvember 2019 13:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mikið óskaplega leggst Böðvar Björnsson lágt með skrifum sínum um upphaf baráttu samkynhneigðra á Íslandi og stofnun Samtakanna ´78,“ segir Hörður Torfason og gagnrýnir harkalega grein sem birtist í Mannlífi fyrir nokkrum dögum, þar sem farið er yfir baráttusögu samkynhneiðra á Íslandi síðustu áratugi.

Hörð Torfason þarf vart að kynna fyrir lesendum. Hann er með þekktari tónlistarmönnum þjóðarinnar og varð strax á unga aldri vinsæll lagasmiður og söngvari. Á áttunda áratugnum kom Hörður út úr skápnum í víðfrægu viðtali sem birtist í tímaritinu Samúel. Varð Hörður að flýja land sökum ágangs og jafnvel ofsókna eftir viðtalið. Ekki löngu síðar steig listamaðurinn Nonni Ragnarsson fram í sjónvarpsviðtali. Báðir voru atkvæðamiklir í mannréttindabaráttu samkynhneigðra en Samtökin 78 voru síðan stofnuð 1978. Á þeim tíma voru samkynhneigðir ósýnilegir í samfélaginu og tilvist þeirra ekki viðurkennd.

Í grein sinni í Mannlífi setur Böðvar upphaf mannréttindabaráttu samkynhneigðra við stofnun gleymdra samtaka sem hétu Iceland Hospitality. Um þau skrifar hann:

„Fyrsti hópur samkynhneigðra sem hittist reglulega til að ræða málin varð til 1975 með stofnun Iceland Hospitality, grasrótarsamtaka í nýjum anda hippatímans. Fundir voru óformlegir og skoðanir allra höfðu jafnt vægi. Þar var kominn vísir að hreyfingu sem hommar á öllum aldri gátu leitað til og hitt sína líka. Þá urðu tímamót því félagið átti pósthólf, sem það auglýsti heima og erlendis og í fyrsta sinn var hægt að hafa samband við samkynhneigða á Íslandi. Hommar í þessu félagi mættu á fund í maí 1978 og stofnuðu Samtökin 78. Þar var komið á gamla laginu með tibúnum lögum og styrkri stjórn. Síðan bættust lesbíur í hópinn. Nú hófst markviss barátta með lærðum greinum og umræðufundum en árangurinn lét á sér standa. Árin liðu og félögum leið stundum eins og í fótboltaliði sem hafði ekki unnið leik í mörg ár. Á móti kom að það fjölgaði í félaginu og félagsmenn urðu meðvitaðri um stöðu sína og sjálfsvirðingin og sjálfstraustið jókst.“

Böðvar nafngreinir enga baráttumenn og minnist því til dæmis ekki á Hörð í grein sinni. Herði þykir hann leggjast lágt með þessari söguskoðun og bendir á að meðlimir Iceland Hospitality hafi aldrei komið úr felum og félagið hafi haft það markmið að sinna samkynhneigðum erlendum ferðamönnum eins og nafn þess gefi til kynna:

„Þeir sem kölluð sig Iceland Hospitality og höfðu sent frá sér fjálglegt bréf til fjölmiðla 1977 bauðst að standa fyrir máli sínu en þeir þorðu ekki enda hefði óþægilegur sannleikur komkið í ljós. Eins og nafnið gefur til kynna var IH aðeins til að taka á móti erlendum samkynhneigðum ferðamönnum. Ég hafði beðið homma í Reykjavík að hjálpa mér að stofna baráttusamtök en þeir þorðu ekki. Í tæp tvö ár, var ég landsfrægur maður, eini maðurinn á Íslandi sem gekkst við kynhneigð minni. Það var eins og það hefði verið gefið út veiðileyfi á mig en hópnum var sama og sögðu að ég gæti sjálfum mér um kennt að vera að flagga mér svona. Blaðamaður hafði samband við þann sem sendi umrætt bréf til fjölmiðla og vildi ræða máli en hugrekkið var ekki tillstaðar. Betra að láta mig einan um að taka áföllunum. Það liðu tvö ár frá því að ég steig fyrstur fram þar til að sá næsti birtist og hafði manndóm og reisn í sér til að styða baráttuna en það var Nonni Ragnars. Þar næst birtist Guðni Baldursson og hann sýndi ótrúlegt hugrekki og dirfsku að taka að sér að verða fyrsti formaður S´78. Eins og við ákváðum saman; hann tæki að sér baráttunan í Reykjavík en ég myndi hefja sýnileika ferðalag um allt landið. Við stóðum báðir við heit okkar. Samtökin ´78 urðu til vegna þrotlausrar vinnu minnar og það tók mig nokkur ár vegna ótta annarra. Samtökin ´78 voru pólitísk baráttusamtök sem unnu markvisst að mannréttindabaráttu með lögum og reglum. Þau voru reist á áratuga reynslu manna, á hinum norðurlöndunum og víðar í Evrópu, sem höfðu stofnað baráttufélagið Forbundet´48. Ég þýddi lög og reglur Forbundet´48 með því markmiði að þau yrðu aðlöguð íslenskum staðháttum. Samtökin ´78 höfðu það markmið frá upphafi að tengjast stjórnmálamönnum og skapa þrýsting meðal þeirra til að knýja fram lagabreytingar og viðhorfsbreytingu gagnvart samkynhneigðum. Að þessu stefndi Guðni og fór í framboð, að mig minnir 1983, sem áttundi maður á lista hjá Bandalagi Jafnaðarmanna Guðni kom málefnum S´78 inn í íslenska pólitík og fékk góðan stuðning Vilmundar Gylfassonar, Garðars Sverrissonar og fleiri.“

Illt að vera kallaður lygari

Böðvari þykir illt að sitja undir ásökunum Harðar og svarar honum svo:

„Hörður, ég var ekki að skrifa persónusögu þína, ég var að teikna upp yfirlit yfir söguna. Ég nefni engin nöfn í greininni hvorki þitt né annarra. Það voru fleiri en þú á ferðinni á þessum árum og ég hef rætt við marga. Mér þykir miður hvað þú talar illa um Iceland Hospitality sem voru auðvitað fyrstu samtök homma hér á landi og hjálpuðu mörgum á ýmsan hátt. Hvernig þú skilgreinir samtök veit ég ekki. Mér þykir líka leitt hvernig þú talar um aðra homma frá þessum árum; svik, prettir og heigulsháttur í hverju horni.
Svo langar mig til að benda á að það stofnar enginn Samtök einn síns liðs, ekki frekar en þú stofnar hljómsveit einn.
Ég trúi því ekki að þú hafir kallað mig lygara og að ég eigi að hafa skömm fyrir greinina mína.
Kær kveðja“

Hrafnhildur Gunnardóttir, ein þeirra sem gerðu þættinu „Svona fólk“ um baráttusögu samkynhneigðra, kemur Böðvari til varnar í ummælum á Facebook. Svona túlkar hún þessa sögu:

„Það þarf nú ekki annað en að horfa á 1sta þátt Svona fólks til að sjá að Böðvar hefur rétt fyrir sér með Iceland Hospitality. Ég er reyndar ekki sérfræðingur í því hvað það er sem að gerir félag að félagi en Icelandi Hospitality setti fram stefnuskrá, hélt reglulega fundi með flötum strúktúr eins og t.d. Kvennaframboðið, sendi frá sér fréttatilkynningar bæði innan lands og erlendis og var með pósthólf. Það eru engar lygar. 1977 sagði Jón Ragnarsson – Nonni Ragnars sem nú er nýlátinn í uppteknu viðtali á RUV eftirfarandi:
Spyrill: En eru einhver formleg samtök hér?
Nonni: „Já, það er nýbúið að stofna Iceland Hospitality og það er pósthólf 4166. “ Veturliði sagði sömuleiðis og les upp fréttatilkynningu sem send var á fjölmiðla ca 1976/77: „Fyrir nokkru voru stofnuð í Reykjavík samtök er nefnast Iceland Hospitality. Að samtökunum standa um 30 manns sem telja svonefnda kynvillu hvorki sjúkdóm né siðspillt athæfi heldur einn þátt mannlegs eðlis sem hvorki sé gerlegt né endilega æskilegt að bæla niður. Megintilgangur samtakanna er að efla samskipti þeirra sem eru sama sinnis og vinna gegn fordómum og fáfræði um þessi mál.“ Þannig að það væri í raun sögufölsun að halda því fram að Samtökin 78 hefðu verið fyrstu samtök homma á íslandi. Þau voru jú vissulega fyrstu samtökin sem unnu með skipulögðum hætti að réttindamálum samkynhneigðra og lögðu grunninn að þeirri réttindabaráttu sem átti sér stað yfir næstu 30 árin en þau voru ekki fyrst. Forsprakkar Iceland Hospitality fluttu flestir úr landi undir lok 1977 þ.e. Reynir Már, Veturliði og Trixie og því komu þeir ekkert að stofnun Samtakanna 78 eðlilega og kannski hefðu þeir heldur ekki gert það þó þeir hefðu verið á landinu þar sem þeir aðhylltust flatan strúktúr og rákust ekki í mjög skipulegu félagsstarfi. En það er bara mín skoðun og ekki hægt að segja neitt um það nema að spyrja þann sem lifir. Nonni gerð a.m.k. tilraun til að vera með í stofnun samtakanna 78 en var rekin úr stofnhópnum fyrir að halda ekki kjafti. Varla var það huglaust.“

Hommar og lesbíur ekki lengur velkomin?

Í lok greinar sinnar víkur Böðvar að öðru, inngöngu félags BDSM-fólks í samtökin 78 árið 2016. Telur hann hommum og lesbíum vart vera vært í samtökunum lengur:

„Hommar og lesbíur gagnrýndu langflest harðlega öll hinseginfræðin og óvild og jafnvel hatur í garð samkynhneigðra í þeirra eigin félagi. Upp úr sauð á aðalfundi Samtakanna haustið 2016 og kornið sem fyllti mælinn var að félag gagnkynhneigðra sadómasókista skyldi eiga aðild að Samtökunum 78. Þangað til höfðu að jafnaði mætt um 30 félagar á aðalfundi en nú komu 300 manns. Helmingurinn var fólk sem aldrei hafði sést áður á vettvangi félagsins.

Eftir þennan fund sögðu margir hommar og lesbíur skilið við félagið. Sérstaklega var það áberandi um fólk sem hafði stutt gay hreyfinguna árum saman. Eftir baráttu við læknisfræðina sem taldi samkynhneigt fólk sjúkt; við lögfræðina sem taldi það sekt og guðfræðina sem taldi það syndugt þótti fjári hart að þurfa að berjast við kynjafræðina sem telur sig hafa umboð til að ráðskast með líf og tilfinningar samkynhneigðra og endurskrifa sögu þeirra.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi