fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Steinunn svarar gagnrýnendum sínum: „Má ekki gagnrýna konur en það má segja hvað sem er um karlmenn og bera á þá sakir“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 4. nóvember 2019 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir birtir nýja grein á vef Fréttablaðsins í kvöld þar sem hún svarar gagnrýnendum sínum. Grein Steinunnar í síðustu viku vakti mikla athygli og deilur en þar fagnaði hún skaðabótadómi Héraðsdóms Reykjavíkur, leikaranum Atla Rafni Sigurðssyni í vil, en hann höfðaði mál gegn leikfélagi Reykjavíkur og Kristínu Eysteinsdóttur, leikhússtóra Borgarleikhússins, vegna þess að honum var fyrirvaralaust sagt upp störfum hjá leikhúsinu vegna ásakana um kynferðislega áreitni. Hins vegar fékk Atli aldrei að vita efni ásakananna né hvaða konur ásökuðu hann.

Ágreiningurinn í ritdeilum Steinunnar og ýmissa feminisma snýst um rétt manna sem bornir eru sökum um kynferðislega áreitni til að bera hönd yfir höfuð sér, gagnvart rétti fólks til að koma fram með nafnlausar ásakanir og njóta nafnleyndar.

Grein Steinunnar í kvöld ber yfirskriftina „Ágæta Bentína“ og þar er Anna Bentína Hermansen ávörpuð en hún sendi til Fréttablaðsins yfirlýsingu undirritaða af 100 konum þar sem skrifum Steinunnar var mótmælt. Í grein sinni í kvöld segir Steinunn: „Tölum tæpitungulaust um kjarna málsins. Styrinn stendur um leikreglur samfélagsins eða siðferðisleg prinsipp, því við erum að öðru leyti sammála.“ Hún reifar síðan það sem hún segir vera nýjar leikreglur samfélagsins:

„Samkvæmt leikreglunum nýju má ekki gagnrýna konur en það má segja hvað sem er um karlmenn og bera á þá sakir. Ef konur ætla að setjast í dómarasæti eins og Kristín Eysteinsdóttir gerði, utan reglna samfélagsins, stöndum við frammi fyrir mun stærri vanda og ófyrirsjáanlegum skaða. Að gera því skóna að einhver sé afbrotamaður að óathuguðu máli og breiða það út er líka að setja sig í dómarasæti.

Leikreglur samfélagsins eru lög og réttarkerfi landsins sem við höfum sammælst um að sé það vegakerfi sem okkur er skylt að aka eftir. Ef þessar reglur eru ekki í heiðri hafðar mun allt fara til andskotans. Hins vegar er hægt að knýja fram breytingar á réttarkerfinu; um það eru mýmörg dæmi.“

Steinunn segir að þolendur verði að standa með sjálfum sér og gera verði þá kröfur til fullorðinna einstaklinga að stíga fram og sýna hugrekki:

„Við getum ekki krafist réttarfarslegra umbóta ef við knýjum þær ekki fram og ef viðkvæðið „þessi mál fá aldrei viðunandi afgreiðslu, orð okkar eru alltaf dregin í efa og þess vegna kærum við ekki “ halda áfram að heyrast. Þjáningaveginn verður að ganga þangað til að fólki finnst það sjálfsagt mál að leita réttar síns. Þarna eru engar auðveldar flýtileiðir í boði. Hér stendur hnífurinn í kúnni.

Það er á ábyrgð þeirra sem fara með mál brotaþola að veita þeim ekki aðeins áheyrn, skilning og samúð heldur efla þau til dáða og styðja þau til að leita réttar síns. Ef fólk eins og þú og aðrir sem starfa með brotaþolum eruð þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagt að Atla var sagt upp störfum vegna þess að á hann voru bornar að því er virðist alvarlegar sakir án þess að hann fengi uppgefnar sakargiftir, er ég ykkur einfaldlega ósammála. Ef ykkur finnst eðlilegt að það sé réttað utan ‘leikreglna’ samfélagsins eins og gerðist þegar Atla var sagt upp störfum hef ég verulegar áhyggjur af því að þið séuð ekki starfi ykkar vaxin.“

Segir umræðuna brenglaða

Steinunn segir umræðu um ofbeldi vera orðin brenglaða og hugtakið vera orðið allt of teygjanlegt. Alla vanlíðan sem tengja má samskiptum kynjanna sé nú hægt að kalla ofbeldi. Það sé hins vegar ótækt:

„Ungir drengir eiga undir högg að sækja því það er stundum alveg sama hvernig þeir snúa sér í samskiptum við hitt kynið, þeir geta alltaf átt von á að það verði eftir á útskýrt sem ofbeldi vegna þess að orðið ofbeldi er algjörlega gengisfallið og getur nú þýtt nánast hvað sem er: návist, snerting, raddblær, augnaráð og allt rófið til hrottalegrar misbeitingar. Það hefur orðið mikil aukning á því að ungir drengir séu bornir þungum sökum að ósekju og það er ekkert réttlætanlegt við það. Að kalla það nauðsynlegan fórnarkostnað byltinga er bara ógeðslegt. Stúlkur eru einnig í vanda því að sumar fyrirmyndir, eins og Þórdís Elva, boða að ef þær upplifa eitthvað óþægilegt í samskiptum kynjanna þá skuli það heita ofbeldi og þær eigi heimtingu á að heimurinn skilgreini það líka sem ofbeldi. Að innræta slíkt hugarfar mun í lengdina mynda gjá á milli kynja, auka hatursorðræðu og sundra fólki á tímum þar sem nauðsynlegt er að fólk standi saman til þess að heimurinn sé áfram byggilegur.“

Steinunn gagnrýnir líka öðru sinni harkalega Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur sem ritaði bók um kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir og hélt fyrirlestra með geranda sínum sem gekkst við verknaðinum. Í fyrri grein sinni sakaði sakaði Steinunn Þórdísi um að markaðssetja ofbeldi. Hefur Steinunn verið sökuð um ofbeldi gegn Þórdísi með þessum skrifum sínum:

„Hvað varðar gagnrýni mína á Þórdísi Elvu, þá er rétt að ég gagnrýni hana harðlega í grein minni. Þú segir mig keppa í ofbeldi og sigra þá ofbeldiskeppni. Það sem ég gerði var að gagnrýna vinnuaðferðir hennar og framgöngu. Ef þú sérð ekki muninn á gagnrýni og ofbeldi tölum við tæpast sama tungumálið.

Það skiptir ekki nokkru einasta máli hvort mér finnst saga Þórdísar Elvu og Tom Stranger ótrúverðug eða sannfærandi, eða hvort mér finnst að bók Þórdísar, Handan fyrirgefningarinnar, hefði frekar átt að bera annan titil. Um það var ég ekki að skrifa í grein minni. Hún á næga aðdáendur og þarf ekki á minni velþóknun að halda. Ég minnist hins vegar ekki einu orði á að ég dragi upplifun Þórdísar í efa þótt þér henti að leggja svo út af orðum mínum og gera það að megininntaki greinar þinnar, því þú vilt ekki ræða aðalatriðið sem um ræðir, og ég spyr mig hvaða prinsipp hefur sá sem neitar að ræða grundvallaratriðin?

Ég skal vera eins skýrmælt og mér er unnt. Mér hugnast ekki að kalla Tom Stranger, fyrrum unnusta Þórdísar Elvu, nauðgara þótt hann gangist við því sjálfur. Ekki fremur en ég myndi nefna þjófóttan krakka þjóf langt fram á fullorðinsár. Þau voru bæði barnung þegar þetta gerðist og ég hef samúð með þeim báðum, henni 16 ára og honum 18 ára gömlum. Það er flókið að vera unglingur. Ég gagnrýndi það markaðstækifæri sem hún sá í upplifun sinni, þá fullorðin kona og framsetninguna alla. Mér finnst það lýsa ótrúlegri grimmd. Við Þórdís lítum fyrirgefninguna ólíkum augum.“

Steinunn segir Þórdísi hafa skaðað og skrumskælt umræðu um kynferðisbrotamál á Íslandi og hún ítrekar þá skoðun sína að Þórdís sé sjálfskipaður talsmaður #Metoo:

„Sú mynd sem Þórdís hefur málað af ofbeldisfullum heimi sviðslistafólks er langt frá þeim veruleika sem fólkið sem þar starfar þekkir. Sviðslistafólk hefur orðið fyrir ofbeldi á vinnustöðum sínum eins og því miður fólk í öllum starfsstéttum, ég er ekki að draga það í efa, en að íslenskur listaheimur sé eitthvað á pari við þann veruleika sem konur búa við í Hollywood er fjarstæða.“

Steinunn víkur síðan aftur að máli Atla Rafns og segir að hafi hann gerst brotlegur þá væri best að hann viðurkenndi brot sitt og fengi betrun. En þá þurfi hann líka að vita hvers eðlis brot hans var.

Grein Steinunnar í heild

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni