Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið rannsókn á meintri árás hóps ungmenna á ungling í Langarima í Grafarvogi þann 21. apríl síðastliðinn. Málið vakti nokkra athygli en í fjölmiðlum var atvikið sett í samhengi við að fórnarlambið væri erlent. Samkvæmt lögreglu virðist það þó ekki hafa verið ástæða slagsmálanna.
Í yfirlýsingu lögreglu segir: „Virðist sem um pústra hafi verið að ræða þar sem gerandi taldi sig eiga óuppgerðar sakir. Brotaþoli varð ekki fyrir áverkum. Engar kröfur eru uppi í málinu.“ Sigurður Hólm Gunnarsson, forstöðumaður hjá Barnavernd, varð vitni að atvikinu og lýsti því á Facebook. „Ég sá hóp af ungum mönnum ráðast að einum með ofbeldi og aðra taka það upp á símann sinn,“ sagði Sigurður.
Sjá einnig: Ráðist á ungan dreng í Grafarvogi: „Ef fólk sér eitthvað svona, þá á að stoppa þetta“
Samkvæmt Sigurði var drengurinn kallaður „skítugur útlendingur“ og var honum skipað að sleikja skóna sína af hinum krökkunum. Þegar hann neitaði þeim fyrirmælum var ráðist á hann og fékk hann högg í andlitið.
Lögregla segir í yfirlýsingu að Barnaverndaryfirvöld voru upplýst um allar rannsóknaraðgerðir lögreglu. „Rætt var við fimm ungmenni að foreldrum viðstöddum, sem veittu alla þá aðstoð sem hægt var til að upplýsa um málsatvik. Gerandi og þolandi eru báðir undir sakhæfisaldri,“ segir í yfirlýsingu.