Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga sér ekki ástæðu til að aðhafast neitt í tilefni skrifa DV um starfsemi stofnunarinnar. Þetta kemur fram í svari formanns stjórnar stofnunarinnar við fyrirspurn DV. Á undanförnum vikum hefur DV birt tvær úttektir í prentútgáfu miðilsins sem hafa orðið að um tíu netfréttum á dv.is þar sem raktar eru ýmsar ávirðingar í garð stofnunarinnar og yfirmanna hennar.
Í þessum greinum er meðal annars að finna ásakanir um einelti, ógnarstjórnun og kúgunartilburði á vinnustaðnum. Enn fremur ásakanir um niðurlægjandi framkomu við meðalagsgreiðendur og að stofnunin fari offari og jafnvel á svig við reglur í innheimtu meðlagsskulda. Ennfremur er að finna frásögn um óeðlileg viðbrögð forstjóra stofnunarinnar við niðurstöðum starfsánægjukönnunar hjá fyrirtækinu.
Sumar ásakanir í greinunum eru ósannaðar á meðan aðrar teljast fullsannaðar. Rétt er að hafa í huga að stofnuninni er ekki heimilt að svara um mál einstakra starfsmanna né einstakra meðlagsgreiðenda.
Sér stjórn Innheimtustofnunar ástæðu til að bregðast með einhverjum hætti við fréttaflutningi DV? Svo sem með rannsókn á starfsháttum, áminningum til stjórnenda eða einhverjum öðrum hætti sem viðeigandi þykir? Enn fremur: Sér stjórnin ástæðu til að kanna sérstaklega vinnubrögð og framgöngu í starfi hjá forstöðumanni stofnunarinnar á Ísafirði, Braga Axelssyni, en afar margar kvartanir og ásakanir beinast að honum?
Starfsemi Innheimtustofnunar sveitarfélaga gengur vel og starfsandi er með ágætum. Stjórnendur og starfsfólk vinna störf sín af fagmennsku og samviskusemi, oft undir miklu álagi. Sem stjórnarformaður tel ég að nýleg umfjöllun DV gefi ekki tilefni til viðbragða af hálfu stjórnar.
Fyrrverandi starfsfólk sakar Innheimtustofnun um ógnarstjórnun
Innheimtustofnun sveitarfélaga sökuð um niðurlægjandi framkomu í garð meðlagsgreiðenda