fbpx
Fimmtudagur 09.maí 2024
Fréttir

Innheimtustofnun sveitarfélaga sökuð um niðurlægjandi framkomu í garð meðlagsgreiðenda

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 29. apríl 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér birtist í heild síðari hluti umfjöllunar DV um málefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga. 

Fyrir skömmu stigu fjórar konur fram í DV og sökuðu forstöðumann útibús Innheimtustofnunar sveitarfélaga á Ísafirði um ógnarstjórnun, einelti, furðuleg afskipti af einkalífi og sérkennilega framgöngu varðandi starfslok. Innheimtustofnun hafnaði þessum ásökunum með öllu og benti á að frá sínum sjónarhóli hefði starfsmannavelta stofnunarinnar á Ísafirði ekki verið mikil í gegnum árin.

Hér verður nokkuð vikið að meintri ámælisverðri framkomu stofnunarinnar við meðlagsgreiðendur auk þess sem tveir fyrrverandi starfsmenn (konur) stíga fram og vitna um starfsandann á stofnunni og framkomu í þeirra garð sem þær eru ekki sáttar við.

Mikið ber á ásökunum um ósveigjanleika í samskiptum lögfræðinga og stjórnenda stofnunarinnar við meðlagsgreiðendur sem og niðurlægjandi tal um meðlagsgreiðendur á vinnustaðnum á meðal starfsfólks og stjórnenda.

Fyrrverandi vinnuveitandi í Skagafirði, Kristján Jónsson, var krafinn um greiðslu á meðlagsskuld starfsmanns hans þar sem hann hafði látið undir höfuð leggjast að draga meðlag af launum starfsmannsins sem vann hjá honum í aðeins einn mánuð. Kristján telur stofnunina hafa gengið fram af mikilli óbilgirni í því máli en svo fór að honum var endurgreidd krafan.

Rétt er, áður en lengra er haldið, að greina frá nöfnum tveggja helstu stjórnenda stofnunarinnar, sem hér koma mikið við sögu, en þeir voru ekki nafngreindir í fyrri umfjöllun DV um málefni stofnunarinnar. Jón Ingvar Pálsson er forstjóri stofnunarinnar en forstöðumaður útibús Innheimtustofnunar á Ísafirði er Bragi Rúnar Axelsson. Báðir eru lögfræðingar að mennt og störfuðu við innheimtu meðlagsgreiðslna sem óbreyttir lögfræðingar hjá stofnuninni áður en þeir unnu upp sig upp í þessar stjórnunarstöður.

Innheimtustofnun sveitarfélaga er í þessum skrifum ýmist nefnd því nafni, eða einfaldlega Innheimtustofnun, eða með skammstöfuninni IHS.

Endurgreiddu kröfu til að forðast kæru til umboðsmanns Alþingis

Kristján Jónsson er búsettur á Hofsósi í Skagafirði. Fyrir nokkrum árum rak hann loðdýrabúið Loðbúa ehf. Í nóvember árið 2014 fékk hann til sín starfsmann sem starfaði hjá honum í einn mánuð og hvarf síðan á braut. Í desember sama ár voru öll laun og launatengd gjöld vegna starfsmannsins gerð upp eins og lög og reglur gera ráð fyrir.

Á daginn kom að umræddur starfsmaður skuldaði barnsmeðlög og í lok janúar árið 2015 fékk Kristján bréf frá IHS þar sem farið var fram á að hann héldi eftir 250.000 krónum eða helmingi af launum viðkomandi starfsmanns. En starfsmaðurinn var ekki á launaskrá hjá Loðbúa ehf. og átti engin ógreidd laun hjá fyrirtækinu.

Í nóvember árið 2015, ári eftir fyrri vistina hjá Loðbúa, kom þessi maður aftur til starfa í einn mánuð. Laun og launatengd gjöld voru greidd með sama hætti og áður en ekki dregið af meðlag. Það voru liðnir tíu mánuðir frá bréfinu frá IHS og Kristján segist ekki hafa áttað sig á því að krafa um frádrátt meðlagsgreiðslna væri enn í gildi:

„Þetta var engan veginn fastur starfsmaður hjá mér, hann kom tvisvar og vann hjá mér í stuttan tíma,“ bendir Kristján á.

Í fyrstu eftir þetta endurtók sig mynstrið frá árinu áður; í febrúar árið 2016 fær Loðbúi ehf. sams konar bréf frá IHS og árið áður. En síðan var málinu fylgt eftir af hörku. Seint í apríl árið 2016 barst innheimtubréf frá IHS þar sem fyrirtækinu var gert skylt að greiða kröfu upp á 322.704 krónur – innan sjö daga, vel að merkja.

Rétt er að það komi fram að það er í samræmi við lög að launagreiðendur séu ábyrgir fyrir afdrætti meðlagsskulda starfsmanna sinna. Þau lög virðast hins vegar hafa verið túlkuð langt umfram efni í þessu máli enda fór það svo að IHS varð að játa sig sigraða – eins og kemur fram hér síðar. Til dæmis er óljóst hvort ákvæði um afdráttarskyldu launagreiðanda hefðu í rauninni átt við um þetta tilvik, IHS gafst upp í málinu áður en reyndi fyllilega á það.

Kristján hafði samband við IHS og fór fram á að skuldin yrði felld niður eða lækkuð. Var þeirri beiðni hafnað á þeim forsendum að ekki væri heimilt að lækka höfuðstól skuldar. Hins vegar var honum sagt að hægt væri að fella niður vexti ef hann greiddi strax 250.000 krónur. Þar átti í hlut Bragi Axelsson, forstöðumaður IHS á Ísafirði. Á þetta gat Kristján ekki fallist, meðal annars vegna þess að þessi upphæð var töluvert umfram þau 50% sem áskilið er að dregin séu af launum starfsmanns, en helmingur af launum umrædds starfsmanns voru 185.463 krónur.

Eftir nokkurt þjark var samþykkt að lækka skuldina niður í þá upphæð sem samsvaraði í raun hálfum launum starfsmannsins en svo var ákveðið að leggja ofan á þá upphæð innheimtukostnað svo niðurstaðan var að mati Kristjáns algjörlega óviðunandi. Hann taldi meðal annars fráleitt að vaxtakostnaður legðist á kröfu á meðan samningaferli um hana stæði yfir.

Fjárnám var síðan gert vegna kröfunnar og Kristján settur á vanskilaskrá Creditinfo. Hann neyddist því til að greiða samtals 302.000 krónur.

Kristján vísaði málinu til umsagnar hjá umboðsmanni Alþingis, um hvort þessi afgreiðsla IHS stæðist gildandi lög og góða stjórnsýsluhætti. Umboðsmaður Alþingis benti honum hins vegar á bréfleiðis að afstaða stjórnar IHS þyrfti að liggja fyrir áður en umboðsmaður Alþingis tæki afstöðu í málinu.

Kristján sendi því erindi til stjórnar IHS þar sem meðal annars komu fram eftirfarandi punktar sem stjórnin var beðin um að taka afstöðu til:

Lítur stjórn IHS svo á að henni sé heimilt að innheimta 250.000 kr. sem er hámarksgreiðsla en ekki helming greiddra launa sem var í þessu tilviki 185.463 kr. eins og krafist var?

Telur stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga eðlilegt að innheimta vexti og innheimtuþóknun meðan mál eru í vinnslu hjá stofnuninni sem ella hefðu fallið niður ef mál hefði verið afgreitt strax?

Óskað er eftir verklagsreglum sem liggja að baki tilboði Braga Axelssonar um að hann greiddi 250.000 krónur og þá félli niður vaxtakostnaður. Er stjórn IHS samþykk þessu tilboði og stæðist það verklagsreglur?

Eru öll sambærileg mál sem þetta afgreidd eftir sömu reglum hjá stofnuninni?

Finnst stjórn IHS að við afgreiðslu þessa máls sé gætt meðalhófs og fylgt góðum stjórnsýsluháttum?

Stjórn IHS bað um vikufrest til að fara yfir málið en síðan hafði þáverandi formaður stjórnar samband við Kristján og tjáði honum að IHS væri tilbúin að endurgreiða honum kröfuna ef hann félli frá því að kæra málið til umboðsmanns Alþingis.

Skömmu síðar fékk Kristján alla upphæðina greidda inn á reikning sinn en hann fékk aldrei kvittun eða nokkuð formlegt erindi vegna þess gjörnings.

„Ég tel að þetta hafi verið viðurkenning þeirra á því að þeir voru ekki að fara að lögum,“ segir Kristján en velta má vöngum yfir því hvort framganga IHS í málinu öllu geti talist fagleg og eðlileg.

Jón Ingvar Pálsson forstjóri IHS.

„Ég hef aldrei upplifað annan eins dónaskap“

Í ferlinu fékk Kristján viðtal hjá Jóni Ingvari Pálssyni, forstjóra IHS, til að semja um kröfuna. Sú framkoma sem Kristján varð fyrir á þeim fundi telur hann fráleita:

„Allt í einu kemur hann með Braga Axelsson á fundinn, án þess að ræða það við mig, en ég var ekki kominn til að hitta hann,“ segir Kristján og var honum mjög brugðið við þetta. Kristján hafði þegar átt í samskiptum við Braga símleiðis sem honum þótti einkennast af hroka, yfirgangi og dónaskap af hálfu Braga. Kristján segir að soðið hafi upp úr á þessum fundi og telur framkomu Braga hafa verið með ólíkindum. Eru það algeng ummæli um forstöðumanninn á Ísafirði eins og kemur fram víðar í þessari grein og fyrri umfjöllun DV um stofnunina.

Hlutverk Innheimtustofnunar

Rétt er hér að staldra við og minna lesendur á að hlutverk IHS er vissulega að innheimta meðlag með árangursríkum hætti og eðlilegt er að foreldrar sem ekki ala upp börn sín greiði því foreldri sem stendur straum af uppeldi þeirra meðlag. Meðlag með barni til 18 ára aldurs er 34.362 krónur á mánuði. Foreldri með forsjá er tryggð þessi upphæð af hálfu ríkisins en hlutverk IHS er að endurheimta það sem út af ber til ríkissjóðs. Flest okkar þekkja einhverja eða hafa heyrt um einhverja sem skulda háar fjárhæðir í barnsmeðlög. Fólk getur rétt ímyndað sér hversu miklir hagsmunir hér eru í húfi fyrir ríkið og hvað það er mikilvægt að fyrir hendi sé skilvirk og eftir atvikum hörð innheimtustarfsemi varðandi þessar skuldir. En getur verið að stofnunin fari stundum offari? Dæmið um loðdýrabóndann í Skagafirði hér að framan er til vitnis um það, þar sem stofnunin virðist brjóta gegn eigin reglum og ganga fram af mikilli óbilgirni.

Á heimasíðu IHS er ágætlega upplýsandi kafli (spurningar og svör) um meðlag. Þar segir meðal annars:

„Í greiðsluerfiðleikum eru ýmis úrræði í boði fyrir meðlagsgreiðendur. Umsóknum er skilað inná Mínum síðum eða með umsóknareyðublaði sem finna má á heimasíðunni ásamt síðasta skattframtali umsækjanda og afriti þriggja síðustu launaseðla. Nánari upplýsingar veitir starfsfólk stofnunarinnar.“

Að teknu tilliti til þessa er margt sem bendir til þess að viðhorfið til meðlagsgreiðenda sé of neikvætt innan stofnunarinnar. Það hafa bæði meðlagsgreiðendur bent DV á (og vissulega eru þeir ekki hlutlausir) en einnig fyrrverandi starfsmenn.

„Ég hef aldrei kunnað að meta baktal“

„Það er hlegið að fólki sem á virkilega erfitt og er að biðja um náð og miskunn til að rétta sig af. Ég man til dæmis eftir þegar lögfræðingur hjá stofnuninni sagði frá þessum bölvaða aumingja sem var að semja um barnsmeðlagið sitt og svo var hann bara grenjandi í símanum, eða eitthvað á þá leið.“

Þetta segir Hulda Ósk Eysteinsdóttir, fyrrverandi starfsmaður IHS. Hulda starfaði hjá stofnuninni í Reykjavík á um það bil eins og hálfs árs tímabili, frá seinni hluta 2006 og inn á árið 2008. „Ég sagði upp korteri fyrir hrun,“ segir Hulda sem rekur snyrtistofu í dag og gengur vel. Hún varð hins vegar atvinnulaus um skeið eftir að hafa sagt upp störfum hjá IHS og verið neitað um meðmæli frá stjórnendum stofnunarinnar.

Hulda segir að henni hafi liðið illa allan sinn starfstíma hjá stofnuninni, annars vegar vegna þess hvernig stjórnendur og annað starfsfólk töluðu um meðlagsgreiðendur og hins vegar vegna þess að hún sjálf var lögð í einelti – að hennar sögn.

„Ég fór alltaf ein í kaffi og mér var aldrei boðið að vera með í neinu, til dæmis ef safnað var saman í afmælisgjöf handa einhverjum, þá var ekki leitað til mín, en til allra annarra. Svo var pískrað og baktalað, þú finnur þegar verið er að pískra um þig,“ segir Hulda sem leitaði bæði til verkalýðsfélags síns og til þáverandi forstjóra stofnunarinnar vegna eineltisins, en „það vildi enginn gera neitt í þessu“.

„Þegar ég hringdi eftir að ég hafði sagt upp og bað um meðmæli var bara sagt þvert nei og skellt á,“ segir Hulda sem starfaði í móttöku IHS í Lágmúla 9.

Svo virðist sem samúð hennar með meðlagsgreiðendum hafi unnið gegn Huldu á vinnustaðnum og átt þátt í meintu einelti gegn henni, ef miðað er við frásögn hennar:

„Ég hef aldrei kunnað að meta baktal og yfirleitt geng ég burtu þegar verið er að tala illa um fólk. Þarna kom fólk að reyna að semja um skuldirnar sínar og það komu upp alls konar mál, til dæmis að barn skipti um föðurnafn en faðirinn þarf samt að borga fullt meðlag – alls konar mál – og það var alltaf verið að gera lítið úr þessu fólki á vinnustaðnum,“ segir Hulda.

„Ég var skömmuð fyrir að vera of lengi í símanum og hlusta á fólk,“ segir Hulda, sem segist ekki hafa þolað við í því andrúmslofti sem hún segir hafa ríkt innan stofnunarinnar.

Hæddust að meðlagsgreiðanda í FB-hópi

Nokkuð athyglisvert og óvenjulegt er að starfsfólk IHS og makar þess eru með sameiginlegan Facebook-hóp, Starfsfólk IS og makar. DV hefur undir höndum skjáskot úr hópnum sem gæti verið nokkuð lýsandi fyrir viðhorfið til meðlagsgreiðenda á meðal starfsfólks stofnunarinnar:

Starfsmaður tekur ljósmynd af bíl meðlagsgreiðanda sem er að aka burtu frá höfuðstöðvum IHS í Lágmúla og deilir í hópnum með orðunum:

„Bara venjulegur dagur í Lágmúlanum. Þessi á rauða bílnum var að sækja um frest.“

Margir starfsmenn setja síðan „læk“ eða hlátursmerki við færsluna. Meðal þeirra er forstjórinn, Jón Ingvar Pálsson, sem setur hlátursmerki við.

 

 Var látin skrifa fárveik undir starfslokasamning

Ríkey Garðarsdóttir starfaði sem aðalbókari hjá IHS á árunum 2007 til 2013.

„Jón Ingvar Pálsson, forstjóri IHS, og ég vorum góðir samstarfsfélagar og vinir áður en hann varð forstjóri og mér þótti alltaf vænt um hann. Ég veit að ég var góður starfsmaður, fær í mínu starfi og afar samviskusöm. Ég var einnig trúnaðarmaður starfsfólks í mörg ár og í skemmtinefnd IHS. Í gegnum árin komu nokkrir að máli við mig sem trúnaðarmann varðandi óánægju á vinnustað en því miður var aldrei hægt að vinna úr þeim málum þar sem viðkomandi einstaklingar létu mig lofa að segja ekki forstjóranum frá þessu. Vildu greinilega bara létta á sér. Mér fannst það bara ekki nóg og ég leitaði ráða hjá starfsmannafélaginu. Þar var mér tjáð að það væri ekkert hægt að gera ef forstjórinn mætti ekki vita hver væri að kvarta. Þetta var vítahringur,“ segir Ríkey.

Ríkey veiktist illa síðasta starfsárið sitt hjá stofnuninni. Var hún nokkuð frá vinnu vegna veikinda. Í september árið 2013 var Ríkey kölluð til forstjórans fárveik til að skrifa undir starfslokasamning:

„Það varð mér mikið áfall þegar forstjórinn hringdi í mig heim í september 2013 þar sem ég var mjög veik og bað mig að koma hitta sig daginn eftir og skrifa undir starfslokasamning. Þegar ég kom á staðinn hafði skrifstofustjóri orð á því hvað ég væri veikluleg og greinilega með bullandi hita og ætti að vera heima. Ég hafði verið mikið veik og gengið á milli lækna til að reyna að finna út hvað amaði að mér, en enginn gat fundið út úr því. Verkir, vanlíðan og hiti voru að gera út af við mig og ástandið fór bara versnandi. Ég greindi Jóni Ingvari og næstu yfirmönnum mínum ávallt frá stöðu mála. Ég var hætt að geta sofið vegna verkja og það var alveg sama til hvaða læknis ég fór, enginn gat fundið út hvað var að.

Ég spurði Jón hvort við gætum ekki beðið með þessa uppsögn. Það væri greinilega eitthvað mikið að mér og mér fyndist ósanngjarnt að láta mig fara á þennan hátt. Hann sagði að skrifstofustjóri og aðstoðarskrifstofustjóri hefðu sett honum stólinn fyrir dyrnar og sagt honum að láta mig fara, þetta gæti ekki gengið svona lengur, ég væri svo mikið frá að það væri ekki hægt að bjóða samstarfsmönnum mínum upp á þetta.“

Ekki var nóg með að að Ríkey væri rekin og það væri að hennar mati mjög ósanngjörn ákvörðun, heldur voru starfslokin niðurlægjandi, miðað við þessa lýsingu:

„Það var einnig rosalega sárt þegar hann bað einn samstarfsmann minn þarna, sem einnig var góður vinur minn og hans reyndar líka, að standa yfir mér á meðan ég tæmdi skrifstofuna mína, og skrifa kveðjuorð til samstarfsfélaga í gegnum tölvupóst. Mér fannst það einkennileg framkoma eftir öll þau ár sem ég hafði verið þarna og mér leið mjög illa yfir því að vera ekki treyst fyrir því að ganga frá minni skrifstofu ein. Það síðasta sem Jón Ingvar sagði við mig var: „Ekki verða ókunnug, Ríkey mín, komdu og líttu á okkur hvenær sem þú vilt.“ Ég hef ekki stigið fæti þarna inn eftir þennan dag og mun sjálfsagt aldrei gera það.

Rétt um tveimur vikum síðar var ég flutt nær dauða en lífi á sjúkrahús og í aðgerð. Þar kom skýring á mínum miklu veikindum og verkjum en fyrir aðgerðina tjáði einn samstarfsmanna mér að það væri talað um hjá IHS af yfirmönnum að ég væri ekkert veik, væri bara að ná mér í veikindadaga. Ég hef alla mína ævi unnið hörðum höndum og hafði aldrei verið sagt upp áður, þannig að þetta varð mér gríðarlegt áfall og svo bættist við að ég hafði ekki mátt né heilsu til að berjast á móti. Það tók mig afar langan tíma að vinna úr þessu áfalli og þurfti ég hjálp fagaðila til þess.“

Ríkey segist glöð í dag yfir að vera fyrir skilin að skiptum við IHS og segir margt óheilbrigt við starfsandann og stjórnunarstílinn innan stofnunarinnar:

„Það var endalaust baktal í flestum herbergjum, hvort tveggja um starfsfólk og meðlagsgreiðendur. Óþolandi og andstyggileg ummæli um meðlagsgreiðendur voru oft látin falla. Flestir voru tiplandi á tánum í kringum forstjórann, allir vildu hafa hann góðan.“

Bragi Axelsson, forstöðumaður IHS á Ísafirði

Um Braga Axelsson, sem núna er forstöðumaður IHS á Ísafirði, segir Ríkey:

„Mér fannst Bragi frá upphafi vera ruddi og hrokagikkur. Hann ætlaði að sanna tilvist sína hjá IHS með frekju og yfirgangi við meðlagsgreiðendur og hala inn peninga fyrir stofnunina. Stjórna starfsfólki sínu eins og honum er einum lagið. Hann virðist ekki vita að góð samskipti eru forsenda vellíðunar á vinnustað. Hann kann ekki að koma fram við aðra af kurteisi og vinsemd. Það þyrfti að kenna honum að tillitssemi er dyggð. Og það er nokkuð ljóst að fleiri þarna mættu taka það til sín.“

Hellti sér yfir starfsfólk vegna lélegrar útkomu í starfsánægjukönnun

Ríkey greinir frá sérstæðum viðbrögðum stofnunarinnar við lakri útkomu í viðhorfskönnun starfsmanna. Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar sendi starfsfólki spurningalista í tengslum við val á stofnun/fyrirtæki ársins innan borgarkerfisins. Leitað var eftir viðhorfi félagsmanna til vinnu sinnar og yfirmanna, líðan þeirra í starfi, starfsumhverfi, tækjabúnaði og hvernig samskiptum væri háttað á vinnustaðnum. Ríkey segir:

„Það er skemmst frá því að segja að IHS kolféll í þessari könnun og var nálægt 50. sæti. Forstjórinn varð fokillur og á næsta starfsmannafundi hraunaði hann yfir okkur öll. Sagði að ef við værum svona óánægð þá gætum við bara farið og það væri kannski bara best að hann hætti að berjast fyrir því að IHS fengi að starfa áfram í óbreyttri mynd en ekki undir TR eins og áætlað var. Hann var mjög reiður og sagði að hann hefði ekki áhuga á að gefa okkur brauð, ost og álegg á starfsmannafundum, við ættum það ekki skilið. Ég var næstum því búin að skella upp úr þarna. Hverjum er ekki sama um ost eða brauð?“

Þess má geta að annar starfsmaður frá þessum tíma sem sat umræddan fund hefur staðfest þessa frásögn Ríkeyjar við DV.

IHS fékk allt aðra niðurstöðu í sams konar könnun ári síðar, að sögn Ríkeyjar:

„Ári seinna var aftur sama könnun. Þrátt fyrir engar breytingar hjá fyrirtækinu á þessu ári sem liðið var þá varð samt heldur betur breyting í þessari könnun. Ég fékk símtal frá starfsmannafélaginu og mér var tjáð að ég og forstjórinn ættum að mæta á Nordica Hótel þar sem það væru nokkuð góð tíðindi fyrir okkur og að forstjórinn yrði afar glaður. Við mættum, auk Braga og eins annars starfsmanns. Við vorum hástökkvarar ársins, lentum í 7. sæti. Í tilefni þess var boðið upp á köku með morgunkaffinu.“

Sú spurning vaknar hvort starfsánægja hafi aukist í fyrirtækinu á tímanum sem þarna leið á milli kannana eða hvort hörð viðbrögð við niðurstöðu fyrri könnunar hafi haft áhrif á hvernig starfsfólkið svaraði spurningalistanum næst. Ríkey er ekki í neinum vafa um þetta eins og að framan greinir.

Tjá sig ekki um mál einstakra starfsmanna

DV hefur áður greint frá því að Innheimtustofnun hafi hafnað ásökunum með öllu. Í svarinu sem DV hefur áður birt segir meðal annars:

„Stofnunin getur almennt ekki tjáð sig um mál einstakra starfsmanna.“

Og enn fremur:

„Hvað starfsmannaveltu varðar, að á um níu ára tímabili, frá 2010 er núverandi forstöðumaður á Ísafirði hóf störf hjá stofnuninni, hafa alls 4 starfsmenn látið af störfum á umræddri starfsstöð, einn 2013, annar 2014, þriðji 2015 og svo síðasti 2018. Alls starfa 8 manns á starfsstöð stofnunarinnar á Ísafirði í fullum störfum, auk afleysinga- og sumarstarfsfólks.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum
Eldgosinu er lokið

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sigurbjörg sakar Ásdísi um ólýðræðisleg vinnubrögð – „Hér er verið að afvegaleiða umræðuna,“ segir bæjarstjórinn

Sigurbjörg sakar Ásdísi um ólýðræðisleg vinnubrögð – „Hér er verið að afvegaleiða umræðuna,“ segir bæjarstjórinn
Fréttir
Í gær

Stefán Einar segist aka skriðdreka – „Honum verður ekið á fullri fart í gegnum þessar kosningar“

Stefán Einar segist aka skriðdreka – „Honum verður ekið á fullri fart í gegnum þessar kosningar“
Fréttir
Í gær

Sá grunaði í Hamraborgar-ráninu bar ábyrgð á hrinu innbrota á höfuborgarsvæðinu fyrir rúmum áratug

Sá grunaði í Hamraborgar-ráninu bar ábyrgð á hrinu innbrota á höfuborgarsvæðinu fyrir rúmum áratug
Fréttir
Í gær

Inga Sæland æf út í MAST og vill leggja stofnunina niður – „Ljótu andskotans aumingjarnir“

Inga Sæland æf út í MAST og vill leggja stofnunina niður – „Ljótu andskotans aumingjarnir“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sauð upp úr hjá Dóru Björt og Ragnhildi Öldu – „Það er fáránlegt hvernig þú lætur. Þetta er alveg svakalegt með þig“

Sauð upp úr hjá Dóru Björt og Ragnhildi Öldu – „Það er fáránlegt hvernig þú lætur. Þetta er alveg svakalegt með þig“
Fréttir
Fyrir 2 dögum
Hera úr leik
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Staðreyndavillur í yfirlýsingu Reykjavíkurborgar um staðreyndavillur í innslagi Maríu Sigrúnar

Staðreyndavillur í yfirlýsingu Reykjavíkurborgar um staðreyndavillur í innslagi Maríu Sigrúnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Biggi Sævars kærir konu til lögreglu fyrir rangar sakargiftir og meiðyrði

Biggi Sævars kærir konu til lögreglu fyrir rangar sakargiftir og meiðyrði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ögmundur skilur ekkert í ritstjórn Kveiks – „Hvers vegna í ósköpunum var þessum fréttaskýringarþætti ekki tekið fagnandi?“

Ögmundur skilur ekkert í ritstjórn Kveiks – „Hvers vegna í ósköpunum var þessum fréttaskýringarþætti ekki tekið fagnandi?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Flugumenn sænskra glæpagengja hafa laumað sér í raðir lögreglunnar

Flugumenn sænskra glæpagengja hafa laumað sér í raðir lögreglunnar