fbpx
Fimmtudagur 21.ágúst 2025
Fréttir

Bjarni Hafþór er kominn með Parkinson-sjúkdóminn – Tekur tíðindunum af æðruleysi og með húmor

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 10. apríl 2019 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er nú alveg í gangi, er ekki steindauður ennþá og ánægður með það sem hefur verið í gangi í tónlistinni hjá mér,“ segir Bjarni Hafþór Helgason í stuttu spjalli við DV, en hann birti fyrir skömmu tilkynningu þess efnis að hann hefði greinst með Parkinson-sjúkdóminn. Hann fékk þau tíðindi fyrir aðeins viku síðan. Bjarni fer yfir stöðuna í löngum og áhrifaríkum pistli á Facebook-síðu sinni. Bjarni Hafþór var þekktur sjónvarpfréttamaður fyrr á tíð en hefur síðan komið víða við og meðal annars starfað sem fjárfestingastjóri KEA. Bjarni var greindur með sjúkdóminn fyrir aðeins viku síðan en er þegar farinn að finna fyrir einkennunum.

Bjarni hefur fengist töluvert við tónlistariðkun og fyrir síðustu jól færði hann þjóðinni jólagjöf, heildarsafn tónlistar sinnar. Eru þetta 75 lög og voru gefin út undir heitinu Fuglar hugans. Það vakti athygli að Bjarni gaf þjóðinni þessa tónlist en efninu má blaða niður af Dropbox og njóta að vild.

Ólæknandi sjúkdómur – stífleiki, skjálfti og minnkandi hreyfigeta

Bjarni skrifar nokkuð langa grein um málið á Facebook-síðu sína, skrif sem einkennast af æðruleysi og húmor. Í upphafi greinarinnar fræðir hann lesendur um sjúkdóminn og þau einkenni sem hann hefur þegar orðið var við hjá sér:

„Fyrir rúmri viku var ég greindur með parkinson en það er ólæknandi taugasjúkdómur sem einkennist af stífleika í vöðvum, skjálfta og minnkandi hreyfigetu. Einkenna verður yfirleitt fyrst vart í öðrum helmingi líkamans en með tímanum ná þau yfir allan líkamann. Við honum er engin lækning en með lyfjagjöf er hægt að halda einkennum sjúkdómsins í skefjum í langan tíma. Mín staða í dag er sú að ég finn fyrir stífleika í hægri hendi og stundum smá skjálfta, get verið í örlitlu brasi við að skrifa nafnið mitt, pikka á tölvuna, spila á hljóðfæri eða tannbursta mig, finn líka einstaka sinnum skjálfta í hægri fæti. Þetta hamlar mér lítið í dag og flokkast ennþá bara sem smátruflanir. Eftir á að hyggja hef ég líklega byrjað að finna fyrir einkennum fyrir a.m.k. 1-2 árum síðan. Það er einstaklingsbundið hvernig parkinson fer með fólk en ef ég fylgi meginlínu ætti ekki mikið að breytast hjá mér á næstu árum. En kannski fer sjúkdómurinn hratt á mig en kannski hægt, það veit enginn.“

Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott og Bjarni fagnar því að sjúkdómurinn hafi dæmt hann til daglegrar hreyfingar – sem ekki hafi veitt af! Hann útilokar heldur ekki að nýjungar í lyfjaþróun geti orðið honum að gagni. Og hann ræðir um tónlistina sína:

„Svo er mikið að gerast á lyfjasviðinu og aldrei að vita nema lækning sé handan við hornið, þótt ég ætli ekki að gera sérstaklega út á það. Ég hef nú verið dæmdur til daglegrar hreyfingar og verra gat það verið. Að taka lyfin sín og hreyfa sig skiptir mestu til að halda einkennunum niðri. Viðhorfið skiptir öllu og ég tek Pollýönnu á þetta. Reyndar sagði sonur minn Atli Hafþórsson að allt líf okkar væri einn allsherjar Pollýönnuleikur gagnvart fyrirsjáanlegum endalokum þess. Það er vel mælt. Ég er svo ánægður með að hafa nýlokið við að gefa út heildarverk minnar tónlistar í safninu „Fuglar hugans“. Mér finnst það einhvern veginn dýrmætara núna og sterk viðbrögð við því hafa glatt mig óendanlega, það er fullt af fólki að hlusta á tónlistina mína alla daga á diskum, Spotify og víðar, enda eru þetta meira en 4 klukkustundir af nýuppteknum lögum. Kannski ég setji upp facebóksíðu fyrir Fugla hugans fljótlega.“

 

Húmorinn er mikilvægur: Við með Parkinson hristum þetta af okkur

Meðal þess sem Bjarni Hafþór ætlar að passa sérstaklega vel upp á er að hafa húmorinn í hávegum:

„En svo þarf að halda uppi húmornum, viðhorfið skiptir miklu hér eins og í öllu öðru. Vinur minn Jón Sigurðarson hefur verið með parkinson í mörg ár og er mér einstaklega dýrmætur. Fyrir nokkrum mánuðum kom hann til mín með aldargamlan sálm eftir langafa eiginkonu sinnar og spurði hvort ég gæti samið lag við hann. Ég gerði það og hann er kominn á youtube í flutningi Sönghóps Fríkirkjunnar. Sálmurinn heitir „Að leiðarlokum“ og ég sagði að þetta væri táknrænt, hann hefði rétt mér þetta textablað og í beinu framhaldi hefði ég verið úrskurðaður með parkinson, það væri augljóslega komið að leiðarlokum hjá mér. Hann svaraði; „Nei alls ekki Haffi minn, við sem erum með þennan sjúkdóm hristum hann af okkur.“ 

DV óskar Bjarna Hafþóri gæfu og gengis í þessu erfiða verkefni. Grein hans í heild má lesa með því að smella á færsluna hér að neðan:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

RÚV mátti ekki auglýsa Rás 2 á undan Áramótaskaupinu

RÚV mátti ekki auglýsa Rás 2 á undan Áramótaskaupinu
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Björn Ingi segir átök vera fram undan: „Tekist er á um þessi mál að tjaldabaki þessa dagana“

Björn Ingi segir átök vera fram undan: „Tekist er á um þessi mál að tjaldabaki þessa dagana“
Fréttir
Í gær

Andri Snær klórar sér í kollinum yfir nýju göngubrúnni: „Hún virðist líka eiga að vera svona“

Andri Snær klórar sér í kollinum yfir nýju göngubrúnni: „Hún virðist líka eiga að vera svona“
Fréttir
Í gær

Menn á sjötugsaldri ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnasmygl – Fluttu kókaín í pottum með Norrænu

Menn á sjötugsaldri ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnasmygl – Fluttu kókaín í pottum með Norrænu