fbpx
Laugardagur 23.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Segir skrifstofustjóra Landsréttar hafa hrakist úr einni haldlausri klisjunni yfir í þá næstu

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 6. nóvember 2018 07:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýlega fjölluðu fjölmiðlar um fyrirtöku Landsréttar á áfrýjun Thomasar Møller Olsen á 19 ára fangelsisdómi sem hann hlaut fyrir að hafa myrt Birnu Brjánsdóttur að bana en málið er eitt umtalaðasta sakamál síðari tíma hér á landi.

Fram kom í umfjöllun fjölmiðla að starfsfólk Landsréttar hefði komið í veg fyrir að fréttaljósmyndarar gætu tekið myndir í tengslum við málið.

Haukur Logi Karlsson, nýdoktor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, skrifar um þetta í Fréttablaðið í dag. Þar segir hann:

”Fréttablaðið fjallaði hinn 31. október sl. um myndatökur í dómshúsum og rakti brot úr samtali blaðamanns við skrifstofustjóra Landsréttar. Tilefnið var einkennileg uppákoma á dögunum þar sem reynt var að koma í veg fyrir eðlilegan fréttaflutning af einu umtalaðasta dómsmáli síðustu ára, m.a. með því að sveipa sakborninginn svörtum gardínum. Svör skrifstofustjórans, sem ég geri ráð fyrir að séu rétt höfð eftir, voru á þá leið að öryggi sakborninga þyrfti að tryggja, þeir væru saklausir uns sekt væri sönnuð, fólk ætti að geta komist óséð um dómshúsið og að fólk hefði val um hvort það væri myndað. Það verður að viðurkennast að þarna hrekst skrifstofustjórinn úr einni haldlausri klisjunni yfir í þá næstu.“

Segir Haukur og bendir á að öryggi sakborninga sé ekki ógnað með því að fréttaljósmyndir séu teknar af þeim. Í þessu máli hafi sakborningurinn verið sakfelldur af héraðsdómi.

„. . . fólk á ekki heimtingu á að komast óséð um opinbera staði eins og dómshús og fólk hefur almennt ekki val um það hvort það sé myndað á opinberum stöðum. Í stuttu máli misheppnaðist skrifstofustjóranum að færa viðhlítandi rök fyrir takmörkun á fréttaflutningi af því dómsmáli sem um ræðir, enda eru ljósmyndir órjúfanlegur þáttur af nútíma fréttaflutningi. Uppákoman í dómshúsinu verður vart skilin öðruvísi en sem takmörkun á þeirri meginreglu að réttarhöld skuli fara fram fyrir opnum tjöldum.“

Segir Haukur og bætir við að meiri líkur séu á að dómstóll komist að réttri niðurstöðu ef störf hans eru opin almenningi. Ástæðan sé einföld, þá þurfi lögmenn, saksóknarar, dómarar og sakborningar að vanda sig betur.

„Það eru því meiri líkur á mistökum og slælegum vinnubrögðum í réttarhaldi sem fer fram á bak við svarta gardínu, rétt eins og það eru meiri líkur á að fólk fari gegn rauðu ljósi þegar enginn er að horfa. Það má því spyrja hvort þær ástæður sem skrifstofustjórinn nefnir réttlæti aukna hættu á mistökum í dómsmeðferð sakamála? Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart að lögmenn, saksóknarar, dómarar og aðrir starfsmenn réttarkerfisins vilji vinna störf sín fjarri kastljósi fjölmiðla. Það er þægilegra að hafa það þannig og þeir treysta sjálfum sér eflaust til að gera ekki mistök. Réttarhald, ekki hvað síst í sakamálum, er hins vegar opinber athöfn. Almenningur þarf að sjá og heyra hvað dómstólarnir og aðrir starfsmenn kerfisins eru að aðhafast, enda er það eina aðhaldið sem unnt er að veita þeirri grein ríkisvaldsins sem er svo vandlega varin fyrir pólitískum afskiptum. Öll takmörkun á fréttaflutningi af dómsmálum, umfram það sem er nauðsynlegt til að dómþing geti náð eðlilega fram að ganga, þarf því að byggja á sterkum rökum en ekki innihaldslausum klisjum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ríkið gæti þurft að greiða milljarða í bætur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálanna

Ríkið gæti þurft að greiða milljarða í bætur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálanna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Skuggahliðar klónunar Sáms – Veit Dorrit af þessu?

Skuggahliðar klónunar Sáms – Veit Dorrit af þessu?