Vigfús Jóhannesson, fyrrverandi bocciaþjálfari á Akureyri hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að nauðga þroskaskertri stúlku. Vigfús þjálfaði stúlkuna þegar brotin áttu sér stað. Það er Rúv.is sem greinir frá þessu.
DV hefur fjallað ítarlega um málið og greindi fyrst frá því að Boccia-heimurinn á Akureyri væri klofinn vegna átaka tveggja boccia klúbba í bænum. Í frétt DV sagði að 16 fyrrverandi liðsmenn Akurs, sem glíma við þroskaskerðingu af einhverju tagi hefðu gengið úr félaginu yfir í nýtt ósamþykkt félag sem heitir BFA sem stendur fyrir Bocciafélag Akureyrar. Í frétt DV sagði enn fremur að málið væri sérstakt og mætti rekja til þess að Vigfús Jóhannesson fyrrverandi formaður Akurs hefði ákveðið að stíga til hliðar eftir að skjólstæðingur hans kærði hann fyrir alvarlegt kynferðisbrot.
Í viðtali við DV neitaði Vigfús sök og hélt því fram að móðir stúlkunnar stæði á bak við kæruna. Vigfús sakar móðurina um að vera í hefndarhug og að kæran snúist um að hafa af sér peninga. Þá segir hann málið byggt á sandi. Í vor gaf héraðssaksóknari svo út ákæru á hendur Vigfúsi sem neitar sök.
Vigfús starfaði um árabil sem Boccia þjálfari og Akureyri og var fyrst ávíttur af réttargæslumanni fatlaðra á Akureyri þar sem hann þótti sýna af sér ósæmilega hegðun sem þjálfari í garð stúlkunnar haustið 2014. Samkvæmt heimildum DV kvörtuðu milli fimm og sjö manns, sem urðu vitni að hegðun Vigfúsar á móti á Seyðisfirði.
Dv ræddi við Vigfús í kjölfar ákærunnar þar sem hann var meðal annars spurður út í efni hennar. „Hún er að segja að ég hafi misnotað sig. Þetta er nauðgunarkæra. Það er ekki rétt. Það er langur vegur þar frá. Það er bara búið að leggja fram kæru og ekkert annað. Þetta fólk er ekkert að gera annað en að sverta mitt mannorð. Stelpan er sögð með þroskaskerðingu. Hún er ekki með skerðingu. Hún er ekki með örorku. Þessu máli var vísað aftur til lögreglu vegna þess að stúlkan er ekki með þroskaskerðingargreiningu. Það var farið fram á það að hún færi í greiningu til að sýna fram á að hún væri með greininguna. Þetta eru tvær konur sem eru að reyna ná sér í peninga,“ sagði Vigfús í samtali við DV á síðasta ári.
Aðspurður um hvort hann hafi átt í sambandi við stúlkuna svaraði Vigfús: „Ég get ekki farið að segja til um það. Það væri ekki skynsamlegast af mér,“ svaraði Vigfús. Dómur yfir honum var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra í morgun þar sem hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi.
Ekki náðist í Vigfús við vinnslu fréttarinnar.