fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
FréttirPressan

Fimm sjómenn myrtir um borð í flutningaskipi í Norðursjó

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 4. maí 2018 07:33

Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd:Wikimedia Commons

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir 25 árum varð sá voveiflegi atburður um borð í þýska gámaskipinu M/S Bärbel að fimm áhafnarmeðlimir voru myrtir. Blóðbaðið um borð var líkt og úr martröð og aðkoman vægast sagt ógeðfelld. Aðeins einn áhafnarmeðlimur lifði hryllinginn af. Það var Andrej Lapin 28 ára rússneskur sjómaður og fyrrum yfirmaður í rússneska sjóhernum.

Málið er eitt það blóðugasta og undarlegasta í danskri sögu en danska lögreglan sá um rannsókn þess.

Upphaf málsins var að þann 18. ágúst 1993 sáu áhafnir tveggja danskra fiskibáta tvo björgunarbáta í Norðursjó um 85 sjómílur vestan við Esbjerg á Jótlandi. Annar björgunarbáturinn var mannlaus. Í hinum var einn maður. Hann var með teppi utan um sig og nokkrar niðursuðudósir og kókflöskur.

Hann ríghélt í tösku en síðar kom í ljós að í töskunni voru 60.000 þýsk mörk en það svarar til um fjögurra milljóna íslenskra króna.

Maðurinn hét Andrej Lapin.

Draugaskip

Á sama tíma fannst flutningaskipið M/S Bärbel mannlaust á reki. Lapin var fluttur með þyrlu til Esbjerg, þvert á vilja hans. M/S Bärbel var dregið til hafnar í Esbjerg.

Lapin var yfirheyrður af lögreglunni og sagði að eldur hefði brotist út í skipinu. Hann sagði að skipstjórinn og fjórir áhafnarmeðlimir hefðu farið í björgunarbát en hann sjálfur hefði farið í annan björgunarbát. Síðan hefði bátana rekið frá hvor öðrum.

Það vakti athygli lögreglumannanna að Lapin sagði lítið um hina áhafnarmeðlimina og sýndi ekki miklar tilfinningar þótt að allir samstarfsmenn hans væru horfnir.

Þegar M/S Bärbel kom til hafnar í Esbjerg hófst lögreglan handa við tæknirannsóknir um borð. Þar mætti lögreglumönnunum óhugnanleg sjón. Blóð var úti um allt. Krani skipsins hafði verið notaður til að hífa líkin upp. Bundið hafði verið um fætur þeirra og blóð hafði runnið úr þeim.

Víða um skipið voru ummerki um hrikaleg átök. Búið var að rústa káetu skipstjórans. Á gólfinu lá tómur peningakassi skipsins. Díselolíu hafði verið hellt víða um skipið og reynt að kveikja í henni. Blóðslettur voru á veggjum og gólfum sem og húð og hár. Lögreglan fann einnig afrifið höfuðleður á einum stað. Allt skipið var greinilega vettvangur glæps og mikil vinna beið lögreglunnar enda skipið stórt og þrjú dekk á því.

Grunaður um fimm morð

Það þarf ekki að koma á óvart að Lapin var grunaður um að hafa myrt hina áhafnarmeðlimina en hann þvertók fyrir það. Við yfirheyrslu breytti hann framburði sínum margoft. Að lokum sagði hann að uppreisn hefði verið gerð um borð og að hann hefði drepið tvo skipsfélaga sína í sjálfsvörn.

Lapin sagði að tveir rússneskir hásetar hefðu rifist við skipstjórann, sem var einnig eigandi skipsins, og hefði endað með að þeir hefðu drepið hann. Lapin sagðist þá hafa sótt stýrimanninn og farið með hann á verkstæðið þar sem skipstjórinn hafði verið myrtur að hans sögn. Þegar þangað kom hafi hann séð að skipstjórinn hafi verið drepinn með öxi. Tvímenningarnir hafi þá ráðist á stýrimanninn og höggvið hann til bana. Næst hafi tvímenningarnir drepið kokkinn uppi á dekki.

Nú voru aðeins Lapin og morðingjarnir tveir eftir að hans sögn. Hann sagðist hafa falið sig við stiga og beðið eftir að þeir kæmu að leita hans, einn í einu því þá gæti hann ráðið niðurlögum þeirra.

Andrej Lapin.

Lapin sagði að þegar fyrri morðinginn hafi komið niður stigann hafi hann náð að rífa öxina af honum og lemja henni í höfuð hans, svo fast að hún sat fast og hann gat ekki losað hana sama hvað hann reyndi.

Lapin sagðist síðan hafa náð að yfirbuga hinn morðingjann og hafi drepið hann með öxinni, einu höggi í höfuðið. Þetta gerðist 15. ágúst að hans sögn eða þremur dögum áður en hann fannst á reki í björgunarbátnum.

Lapin sagðist óttast að enginn myndi trúa honum og því hafi hann varpað líkunum fimm fyrir borð, eitt þeirra með öxina fasta í höfðinu. Að þessu loknu þreif hann skipið eins vel og hann gat.

Það vakti undrun lögreglumanna að peningakassi skipsins var tómur og að Lapin var með háa fjárhæð meðferðis.

Aðeins eitt lík fannst

Lapin sagðist hafa bundið járnstykki við líkin svo þau myndu sökkva til botns. Lík skipstjórans fannst í september þegar það kom í net fiskibáts í Norðursjó. Hin líkin hafa ekki fundist.

Lapin hafði ekki játað að hafa drepið skipstjórann og því var ekki hægt að nota líkfundinn til að staðfesta frásögn hans. tæknirannsóknir um borð í skipinu sýndu að áhafnarmeðlimirnir höfðu dáið þar sem Lapin hafði sagt að þeir hefðu dáið.

Morðin höfðu átt sér stað á alþjóðlegri siglingaleið og því var hægt að rétta í málinu í Þýskalandi, þar sem skipið var skráð, eða í Rússlandi, heimalandi Lapin.

Lapin var framseldur til Þýskalands í desember 1993. Hann neitaði að ræða við þýsku lögregluna og tjáði sig ekki um málið fyrr en réttarhöld hófust rúmlega ári eftir hryllingsatburðinn.

Fyrir dómi virtist Lapin vera ískaldur og yfirvegaður þrátt fyrir að vera ákærður fyrir fimm morð en við þessu lá allt að 75 ára fangelsi. Hann var kurteis fyrir dómi og svaraði spurningum með stuttum setningum. Augnaráðið var hins vegar ískalt og hann sýndi aldrei neinar tilfinningar.

Niðurstaða geðrannsóknar var að Lapin væri ekki veikur á geði. Hann væri mjög greindur og markviss í öllu því sem hann tæki sér fyrir hendur.

Dómurinn

Það er aðeins Andrej Lapin sem veit hvað gerðist í raun og veru um borð í M/S Bärbel í ágúst 1993. Það er einmitt ein af ástæðunum fyrir að hann var sýknaður eftir margra mánaða réttarhöld. Ekki var hægt að sýna fram á að frásögn hans væri ósönn. Nokkur atriði bentu til sektar hans en ekki nægilega mörg eða góð til að hægt væri að sakfella hann. Öll vitni og fórnarlömb voru látin.

Fjölskyldur hinna látnu sáu því Lapin ganga frjálsan út úr dómshúsinu og hann fékk 60.000 þýsku mörkin en hann sagðist hafa fengið peningana fyrir rússneska helgigripi sem hann hefði selt.

Síðar sótti hann um skipspláss á M/S Bärbel hjá ekkju skipstjórans en hún átti þá skipið og sá um útgerð þess. Það þarf ekki að koma á óvart að hann fékk plássið ekki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni
Pressan
Fyrir 4 dögum

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað