fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Kennitöluflakkarar hlutu stærsta niðurrifsverkefni Íslandssögunnar

Stjórnendur fyrirtækisins tengjast slóð gjaldþrota og vanefnda á opinberum gjöldum – Í rannsókn hjá skattinum

Ritstjórn DV
Mánudaginn 30. október 2017 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Menn eru gríðarlega ósáttir við að ríki og borg séu að koma löppunum undir svona aðila sem hafa svikið og prettað alla tíð. Þessir aðilar borga engin opinber gjöld og setja síðan fyrirtæki ítrekað í þrot. Það er ekki hægt að keppa við svona aðila og það er ótrúlegt að þeim sé heimilt að taka þátt í útboðum hjá ríki og borg,“ segir ósáttur verktaki í samtali við DV. Að hans sögn kraumar mikil reiði meðal kollega hans varðandi þá staðreynd að opinberir aðilar eins og Hafnarfjarðarbær og Akraneskaupstaður hafi gengið til samninga við fyrirtækið Work North ehf. um stór niðurrifsverkefni. Aðilar tengdir fyrirtækinu tengjast slóð gjaldþrota og eru til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra vegna ýmissa brota.

Sat í gæsluvarðhaldi útaf Brotafls-málinu

Stjórnarmaður og prókúruhafi Work North ehf. er Þórkatla Ragnarsdóttir, eiginkona Sigurjóns G. Halldórssonar, gjarnan kenndur við Brotafl. Talsvert var fjallað um meint brot fyrirtækisins á síðasta ári en fyrirtækið er enn til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra. Um tíma þurftu Sigurjón og Þórkatla að sitja í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar. Ferill Sigurjóns er skrautlegur en hann hefur rekið mörg fyrirtæki í þrot á undanförnum áratugum.

Í vikunni var tilkynnt um að Akraneskaupstaður hefði gengið til samninga við Work North ehf. vegna niðurrifs á mannvirkjum Sementsverksmiðjunnar. Um er að ræða eitt stærsta niðurrifsverkefni Íslandssögunnar og því voru margir áhugasamir verktakar um hituna. Þegar tilboðin voru opnuð kom í ljós að Work North ehf. var með lægsta tilboðið, eða 175 milljónir króna. Kostnaðaráætlun verkfræðistofunnar Mannvits hljóðaði upp á rúmlega 326 milljónir króna og því var tilboð Work North aðeins um 54% af kostnaðaráætluninni.

Íslandsbanki og Hafnarfjarðarbær meðal viðskiptavina

Fyrirtækið hefur aðeins starfað í skamman tíma en fyrsta verkefni þess var niðurrif fyrir Íslandsbanka á svokölluðum SVR-reit. Næsta verkefni sem Work North hlaut var niðurrif á Lækjargötu 2 í Hafnarfirði. Það hús gekk undir nafninu Dvergurinn og var Work North hlutskarpast í útboðinu. Tilboð fyrirtækisins hljóðaði upp á 26,9 milljónir króna en samkeppnisaðilar buðu 33,5 milljónir og 42,5 milljónir í verkið. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 70 milljónir króna og varð niðurstaða Hafnarfjarðarbæjar sú að ganga til samninga við Work North vegna verksins.

Það er athyglisvert í ljósi þess að rúmum áratug fyrr hafði Hafnarfjarðarbær brennt sig vegna viðskipta við fyrirtæki í eigu Sigurjóns G. Halldórssonar. Um var að ræða fyrirtækið Bortækni Karbó ehf., sem var stofnað árið 2002. Fyrirtækið var með lægsta tilboð í niðurrif gömlu Bæjarútgerðarinnar á Norðurbakka árið 2004 og hlaut verkið. Niðurrifið tafðist talsvert, aðallega vegna þess að í ljós kom að asbest var í byggingunni sem krafðist þess að vandað væri til verks.

Hafnarfjarðarbær brenndi sig

Í fréttum frá þessum tíma kemur fram að starfsmenn fyrirtækisins hafi þurft að sækja námskeið í meðhöndlun efnisins og var það fjarlægt sérstaklega. Fyrirtækið fékk síðan leyfi frá bæjaryfirvöldum til þess að sturta steypunni úr byggingunni í Hafnarfjarðarhöfn til uppfyllingar. Öðru efni, járni og timbri, átti fyrirtækið að farga með löglegum hætti. Upp komst um strákinn Tuma nokkru síðar þegar timbur byrjaði skyndilega að fljóta upp á yfirborð hafnarinnar. Þá kom í ljós að fyrirtækið hafði ekki hirt um að flokka úrganginn sem skyldi. Var Bortækni-Karbó gert að þrífa eftir sig með tilheyrandi kostnaði. Sama ár, þann 21. júní 2005, var nafni fyrirtækisins breytt í Karbo ehf. og tveimur árum síðar, þann 20. júlí 2007, var það úrskurðað gjaldþrota.

Annað umdeilt mál tengt asbesti kom upp tveimur árum síðar. Þann 11. júní 2007 greindi Fréttablaðið frá því að SR-verktakar ehf., fyrirtæki sem var í eigu Sigurjóns að hluta, hefði fengið áminningu frá Heilbrigðiseftirlitinu vegna þess að erlendir starfsmenn fyrirtækisins hefðu rifið asbestklæðningu grímulausir og án hlífðarfatnaðar. Þá hefði klæðningin ekki verið bleytt og mengunarvörnum ekki tilkynnt um verkið eins og reglur kveða á um. Í samtali við Fréttablaðið sagði Sigurjón að áminningin væri bull og að um slys hefði verið að ræða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur
Fréttir
Í gær

Seesaw-deilur Reykjavíkur og Persónuverndar beint í Hæstarétt

Seesaw-deilur Reykjavíkur og Persónuverndar beint í Hæstarétt