Meðlimir í Úlfi Úlfi vara við læknadópi
„Við verðum varir við jafn mikið og allir sem stunda næturlífið. Rapparar rappa um þetta af því að þetta er partur af þeim veruleika sem við lifum í. Það er alveg „semi“ faraldur og mér finnst þetta mjög óhugnanlegt fyrirbæri. Það eru ungir krakkar að fikta við þetta. Mér finnst þetta ekki vera neitt djók. Ég get alveg peppað smá drykkju og kannabisreykingar en mér finnst ekkert fyndið við þetta. Þetta er bara stórhættulegt og það ætti enginn að byrja.“
Þetta sögðu þeir Arnar Freyr Frostason og Helgi Sæmundur Guðmundsson, meðlimir í hljómsveitinni Úlfur Úlfur, í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon í dag. Frosti Logason, annar stjórnandi þáttarins, spurði þá hvort að þeir yrðu varir við mikla neyslu læknadóps innan rappsenunnar.
„Þeir rapparar sem eru að rappa um „purple drank“ og svona læknadóp, eru þeir að fikta við eldinn, eins og þú talar um?,“ spurði Frosti.
„Þeir eru að fjalla um raunveruleikann eins og hann er. Þú gætir litið á það sem einhverskonar glamúrvæðingu eða það sé verið að fjalla á mjög beinskeyttan hátt um vandamál sem er til staðar, frekar en að segja ekki neitt um það,“ svaraði Arnar Freyr.
Helgi benti á að rapparar væru ekki að upphefja læknadóp heldur að lýsa hlutunum eins og þeir eru. „Vandamálið er miklu dýpra en það sem rapparar segja. Þetta er mjög óhugnanlegt en heimurinn er „scary“ staður og rapparar eru bara að segja sögur,“ sagði Helgi.