Ríflega tvítugur piltur hefur verið dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að stela vefmyndavél að verðmæti 17 þúsund krónur á Akureyri. Samkvæmt dómi bakkaði pilturinn jafnframt með vítaverðum hætti á verslunarstjóra búðarinnar þegar hann reyndi að stöðva þjófnaðinn. Pilturinn framdi þjófnaðinn ásamt öðrum en við þingfestingu var ákveðið að dæma um hann sér í lagi.
Í dómi er atvikinu lýst svo að hinn pilturinn hafi stolið vefmyndavélinni meðan sá dæmdi beið í bifreið fyrir utan. Verslunarstjórinn hafi hlaupið á eftir þjófnum en þá hafi sá dæmdi ekið á hann með þeim afleiðingum að verslunarstjórinn kastaðist upp á vélarlok bifreiðarinnar og á jörðina. Því næst hafi sá dæmdi ekið viðstöðulaust af vettvangi án þess að huga að meiðslum verslunarstjórans.
Pilturinn játaði sök sína en að hans sögn framdi hann brotin undir áhrifum fíkniefna. Hann lagði fram vottorð um að hann hafi þegar hafið meðferð. Pilturinn sagði fyrir dómi að hann sæi afar mikið eftir verknaðinum og hefði beðið verslunarstjórann afsökunar. Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í málinu á föstudaginn.