fbpx
Mánudagur 07.júlí 2025
Fréttir

Játar að hafa kveikt í jólageit IKEA„Ég taldi ekki að það væru mikil verðmæti fólgin í þessari heyhrúgu“

Blaðamaður var viðstaddur réttarhöldin

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 26. maí 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég taldi ekki að það væru mikil verðmæti fólgin í þessari heyhrúgu,“ sagði sakborningur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Blaðamaður var viðstaddur forvitnileg réttarhöld þar sem réttað var yfir karlmanni og tveimur konum, öllum á þrítugsaldri, fyrir að hafa kveikt í IKEA-jólageitinni þann 26. nóvember í fyrra. Við þingfestingu málsins neituðu þremenningarnir sök en sú afstaða breyttist við aðalmeðferð málsins. Karlmaðurinn játaði að hafa kveikt í geitinni en öll höfnuðu þau bótakröfu IKEA, sem hljóðar upp á 1,8 milljónir króna auk vaxta. Öll báru þau við minnisleysi.

Töldu sig vera að gera IKEA greiða

Ástæðu íkveikjunnar má rekja til þeirrar þjóðsögu sem gengið hefur á einhverjum stöðum að IKEA á Íslandi sjái sér sérstakan hag í að jólageit fyrirtækisins verði eldi að bráð. Auglýsingagildið sem felist í umfjöllun fréttamiðla um skíðlogandi geitina geri slíkt skemmdarverk beinlínis eftirsóknarvert. Slíkar samsæriskenningar fengu byr undir báða vængi í októberlok árið 2015 þegar bilun í ljósaseríu varð til þess að geitin fuðraði upp á þremur mínútum um miðjan dag. Fjölmiðlar landsins gerðu málinu góð skil og einhverjir töldu að um þaulskipulagt markaðsplott væri að ræða. Við réttarhöldin mátti ætla að þetta væri skoðun sakborninga.

Lögreglumaður, sem var í hópi þeirra sem komu að handtöku þremenninganna, sagði fyrir dómi að sakborningarnir hefðu ekki botnað neitt í harkalegum viðbrögðum lögreglu enda beinlínis talið sig vera að gera IKEA greiða.

Öryggisráðstafanir og lífstíðarbann

Það mat er greinilega ekki á rökum reist því að sögn er forsvarsmönnum IKEA á Íslandi mikið í mun að jólageitin fái að standa óáreitt, enda er heildarkostnaðurinn við uppsetningu hennar um tvær milljónir króna. Hún er rúmir sex metrar á hæð, nokkur tonn að þyngd og fagurlega skreytt ljósum og borðum. Vegna skemmdarverka síðustu ára hefur eftirlit með geitinni verið hert til muna. Öryggismyndavélum hefur verið komið fyrir og rafmagnsgirðing reist í kringum geitina.

Stefna IKEA í málinu þarf ekki að koma neinum á óvart. Í byrjun árs 2016 greindi DV frá því að 45 Íslendingar væru í lífstíðarbanni frá versluninni vegna þjófnaðar í versluninni. Reglan er einfaldlega sú að þeir sem eru staðnir að verki við hnupl eru settir í slíkt bann. Í því ljósi er rökrétt að IKEA hafi sótt jólageitar-varganna til saka.

Vissi ekki neitt

Við réttarhöldin kom fram að karlmaðurinn og önnur konan hefðu verið úti að skemmta sér á skemmtistaðnum Húrra aðfaranótt mánudagsins 14. nóvember. Eftir lokun staðarins sótti þriðja konan parið við 10-11 á Hverfisgötu og síðan keyrðu þau út í nóttina. Þau mundu ekki eftir neinu við yfirheyrslur í réttarsal og báru við ölvun. Þá afsökun gat „flóttabílstjórinn“ ekki notað enda hafði hún ekki bragðað dropa af áfengi samkvæmt mælingu lögreglu.
Minni hennar var þó líka afar gloppótt. Hún vissi ekki hvernig hugmyndin var tilkomin, áttaði sig í raun ekki á hvað var að gerast þegar hún sá geitina skíðloga og hafði ekki hugmynd um hvernig númersplata bílsins, að minnsta kosti að framanverðu, varð hulin með límbandi.

Þremenningarnir gátu því með engu móti varpað ljósi á það fyrir dómi af hverju jólageit IKEA fuðraði skyndilega upp þessa nótt. Það var öryggisvörður hjá IKEA sem sá hvað var að gerast í öryggismyndavél fyrirtækisins. Tvær ógreinilegar mannverur sáust nálgast geitina og skyndilega fór allt í bál og brand. Öryggisvörðurinn þusti út til að stöðva för skemmdarvarganna. Stúlkan sem ók bílnum bar við hræðslu þegar hún var spurð af hverju hún hefði sveigt tvisvar framhjá bíl starfsmannsins og brunað út í nóttina.

Megn bensínstækja í bílnum

Öryggisvörðurinn lét hins vegar ekki deigan síga og hélt í humátt á eftir flóttabílnum. Á meðan var hann í símasambandi við lögreglu og leiðbeindi henni hvert skyldi halda. Bíllinn var stöðvaður við Grímsbæ á Bústaðavegi og þremenningarnir handteknir. Vitnisburður lögreglumanna var á þá leið að farþegar bílsins hefðu verið ölvaðir og þá sérstaklega konan. Megn bensínstækja hafi verið í bílnum. Sú sem keyrði bíllinn var yfirheyrð þá um nóttina en farþegarnir látnir sofa úr sér. Lögreglumaður sem bar vitni fyrir dómi sagði að farþegarnir hefðu ekkert skilið í af hverju þeir voru handteknir og þeim hefði fundist gjörðir sínar afar kómískar.

Hafi prakkarastrikið verið fyndið í nóvember þá var húmorinn að engu orðinn í réttarsal. Það var afar undarlegt að fylgjast með þremur vel gerðum ungum einstaklingum útskýra heimskupör eins og þessa íkveikju fyrir framan dómara, tvo fulltrúa saksóknara og að viðstöddum þremur skikkjuklæddum verjendum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Taldi sig vera í ástarsambandi við Chat GPT botta – Réðist á lögreglumenn og var skotinn til bana

Taldi sig vera í ástarsambandi við Chat GPT botta – Réðist á lögreglumenn og var skotinn til bana
Fréttir
Í gær

Trump ekki í hátíðarskapi – Harðlega gagnrýndur fyrir að ala á sundrungu – „Ég hata þá“

Trump ekki í hátíðarskapi – Harðlega gagnrýndur fyrir að ala á sundrungu – „Ég hata þá“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gunnar fyrirgaf morðingja móður sinnar – „Var nýbúin að segja mér að hún væri bara reiðubúin að fara“

Gunnar fyrirgaf morðingja móður sinnar – „Var nýbúin að segja mér að hún væri bara reiðubúin að fara“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmæla sölu félagsheimilisins Hnitbjarga – Tvöfaldur íbúafjöldinn skrifað undir undirskriftalista á einum degi

Mótmæla sölu félagsheimilisins Hnitbjarga – Tvöfaldur íbúafjöldinn skrifað undir undirskriftalista á einum degi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Áráttufullur perri í Reykjavík olli konum skelfingu – „Chupa Chupa“

Áráttufullur perri í Reykjavík olli konum skelfingu – „Chupa Chupa“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gullöld Donald Trump: Allt gengur forsetanum í hag

Gullöld Donald Trump: Allt gengur forsetanum í hag
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þorbjörg Sigríður vill þyngja refsingar í ofbeldismálum

Þorbjörg Sigríður vill þyngja refsingar í ofbeldismálum