fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Fréttir

Íslenski auðkýfingurinn sem enginn hefur heyrt um

Ævintýramaðurinn Justin Markús er góðvinur Pippu Middleton – Hjólaði þvert yfir Bandaríkin og setti heimsmet er hann reri yfir Atlantshafið

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 5. maí 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einn umdeildasti Íslendingur seinni tíma er flugmaðurinn og vopnasalinn Loftur Jóhannesson, sem auðgaðist gríðarlega á vopnasölu á síðari hluta 20. aldar. Loftur skaffaði fjölmörgum einræðisherrum vopn og meðal annars seldi hann Saadam Hussein tólf sovéska skriðdreka fyrir tæpa tvo milljarða. Enginn veit nákvæmlega hversu auðugur Loftur er en ljóst er að auðæfin hlaupa á milljörðum króna og jafnvel hefur því verið haldið fram að vopnasalinn sé ríkasti Íslendingurinn. Íslenskir fjölmiðlar hafa af og til fjallað lauslega um feril hans en sú umfjöllun hefur ætíð byggst á uppljóstrunum erlendra fjölmiðla. Nú síðast skaust Loftur fram á sjónarsviðið í umfjöllun um Panama-skjölin en á þeim lista voru fjögur fyrirtæki sem tengdust umfangsmiklu viðskiptaveldi hans.

Talsmenn Lofts hafa iðulega neitað því að hann hafi tengst vopnasölu á nokkurn hátt og því freistaði DV þess að komast í samband við Íslendinginn umdeilda. Sú vegferð leiddi til ábendingar frá ónafngreindum aðila um að Loftur glímdi við heilsubrest og hefði dregið sig í hlé. Viðskiptaveldi hans væri nú í höndum bróðursonar hans, Justins Markúsar Bjarnasonar, sem er áhugaverður karakter í meira lagi. Hann fæddist árið 1975 í London og á sess í efsta þrepi bresks þjóðlífs. Hann er meðal annars einn af bestu vinum James Matthews, sem mun ganga að eiga Pippu Middleton, systur Kate Middleton – verðandi Bretlandsdrottningar – þann 20. maí næstkomandi.

Justin Markús Bjarnason er ævintýramaður fram í fingurgóma sem tekur reglulega þátt í ýmsum þrekraunum. Hann tók þátt í Vasa-skíðagöngunni í Svíþjóð og hjólaði þvert yfir Bandaríkin ásamt Pippu og James. Þá hefur hann keppt í hefðbundum maraþonum sem og ofurmaraþonum, meðal annars á Norðurpólnum. Hann tekur reglulega þátt í þríþrautum en mesta afrek hans er án efa heimsmet í róðri yfir Atlantshafið ásamt vöskum hópi árið 2011.

Efnaðist á borgarastyrjöldinni í Bíafra

Nokkrar kynslóðir Íslendinga kannast eflaust við setninguna: „Hvað með svöngu börnin í Bíafra?“ sem að foreldrar beittu á árum áður ef börn þeirra fúlsuðu við mat. Upprunann má rekja til borgarastríðs í Nígeríu sem braust út árið 1967 þegar hérað í suðausturhluta landsins, Bíafra, lýsti yfir sjálfstæði. Stríðið stóð yfir í tæp þrjú ár og kostaði mörg hundruð þúsunda manns lífið. Flestir létust úr hungri og vöktu hjálparstofnanir athygli á skelfilegu ástandinu með því að dreifa myndum af sveltandi börnum um hinn vestræna heim, myndir sem brenndust inn í undirvitund margra kynslóða. Það var í þessu skelfilega stríði sem Loftur Jóhannesson lagði grunninn að ríkidæmi sínu.

Loftur er fæddur árið 1930, sonur hjónanna Jóhannesar Loftssonar og Bjarnveigar Bjarnadóttur. Yngri bróðir Lofts, Bjarni M. Jóhannesson, fæddist árið 1939. Háloftin áttu svo sannarlega hug bræðranna því þeir lærðu báðir til flugmanns. Loftur lauk atvinnuflugmannsprófi árið 1949, aðeins 19 ára gamall, en fluttist þá til Bretlands þar sem hann lauk frekara námi og vann fyrir ýmis þarlend flugfélög. Áfangastaðirnir voru framandi í meira lagi og á þessum árum viðaði Loftur að sér reynslu sem átti eftir að nýtast honum vel.

Stökk á tækifærið

Þegar áðurnefnt Bíafra-stríð braust út lokuðust flutningsleiðir til svæðisins. Hungursneyð gerði vart við sig og erlendar hjálparstofnanir gerðu samninga við flugfélög um að fljúga með vistir og hjálpargögn til nauðstaddra. Allnokkrir íslenskir flugmenn tóku að sér slík verkefni, þar á meðal Loftur Jóhannesson. Til að byrja með flaug hann fyrir svissneska flugfélagið Balair en fljótlega eygði hann tækifæri í stöðunni.

Ásamt fleiri Íslendingum stofnaði hann sitt eigið flugfélag, Fragtflug, ásamt fleiri Íslendingum. Félagið fjárfesti í tveimur gömlum DC-6 flugvélum frá Japan, undirbauð samkeppnisaðilana varðandi hjálparflugið til Bíafra og hóf myljandi gróðarekstur. Flugið yfir hið stríðshrjáða svæði var afar áhættusamt og því voru háar greiðslur í boði. Loftur og hinir Íslendingarnir högnuðust gríðarlega.

Seinna slitnaði upp úr samstarfi Íslendinganna. Viðskiptafélagar Lofts stofnuðu flugfélagið Íscargo en hann sjálfur hélt rekstri áfram með eina DC-6 vélina. Sú vél fórst árið 1974 í Nígeríu og týndu flugmennirnir lífi sínu.

Ferill Lofts er slitróttur og erfitt er að henda reiður á hvenær hann fór að sýsla með vopn og hvar hann aflaði þeirra nauðsynlegu tengsla til þess að ná árangri í þessum blóðuga bransa. Í bókinni „Private Warriors“ eftir bandaríska blaðamanninn Ken Silverstein er greint frá ýmsum vafasömum viðskiptum Lofts. Meðal annars gríðarlega arðbær viðskipti árið 1979 þegar hann, ásamt samstarfsmanni sínum, John Miley, útveguðu bandarísku leyniþjónustunni, CIA, riffla og fleiri vopn frá kínverska ríkisvopnaframleiðandanum NORINCO. Þeim var síðan komið í hendur afganskra skæruliða sem börðust gegn stjórnvöldum kommúnista. Þá flutti fyrirtæki Lofts um 580 tonn af vopnum frá CIA til sómalíska einræðisherrans Siad Barre árið 1977.

Vinur CIA og Stasi

Loftur og samstarfsmenn hans virðast hafa haft einstakt lag á að koma sér í mjúkinn hjá stjórnvöldum víða um heim. Bandarísk stjórnvöld voru einn dyggasti viðskiptavinur þeirra, samkvæmt áðurnefndri bók Silverstein, en einnig var Loftur í náðinni hjá austur-þýskum stjórnvöldum og alræmdri leyniþjónustu þeirra, Stasi.

Árið 1992 birti þýska vikuritið Der Spiegel grein undir fyrirsögninni „Góðir kúnnar CIA“. Greinin var unnin upp úr leyniskjölum austur-þýsku leyniþjónustunnar Stasi og fjallaði um vopnaviðskipti í Austur-Þýskalandi fyrir fall múrsins. Hjá Stasi var Loftur í hávegum hafður og fékk hann meðal annars að geyma vopn og stríðstól í sinni eigu í vopnageymslum austur-þýska hersins.

Uppljóstranir Spiegel vöktu mikla athygli og rannsakaði þýsk þingnefnd málið. Um niðurstöður hennar var fjallað í grein breska blaðsins Sunday Times í desember 1994 en þar bar nafn Lofts enn á góma. Í ljós kom að fyrirtæki hans, Techaid, hafði átt í viðskiptum við Stasi fyrir milljónir sterlingspunda með eldflaugabyssur, Kalashnikov-riffla og fjölmörg önnur vígatól. Þá hafði Loftur yfirumsjón með flutningi á tólf sovéskum T-72 skriðdrekum frá austur-þýska vopnafyrirtækinu IMES til íraska einræðisherrans Saddams Husseins. Viðskiptin hljóðuðu í heild sinni upp á 26 milljónir dollara.

Justin Markús tekur við veldinu

Líklega hefur aðeins brot af umsvifum Lofts Jóhannessonar komið upp á yfirborðið. Hann er vellauðugur maður og heldur heimili, ásamt síðari eiginkonu sinni, Sophie Genevieve Dumas, meðal annars á Barbados, Bandaríkjunum og Frakklandi. Þau hjónin eiga eina dóttur saman, Marinu Miu Southall, sem fædd er árið 1979. Samkvæmt áðurnefndum heimildum DV hefur hann að mestu dregið sig í hlé sökum heilsubrests og hefur eftirlátið bróðursyni sínum, Justin Markúsi Bjarnasyni, að stýra veldi sínu.

Justin Markús er fæddur í nóvember árið 1975 í Bretlandi. Hann er sonur Bjarna M. Jóhannessonar og fyrrverandi eiginkonu hans, Oliviu Blakenley. Bjarni Markús fetaði í fótspor bróður síns Lofts og gerðist atvinnuflugmaður. Hann fluttist ungur til London og árið 1968 fékk hann breskan ríkisborgararétt. Hann starfaði sem flugmaður hjá British Caledonian-flugfélaginu en þar kynntist hann yfirflugfreyjunni Oliviu. Þau gengu í hjónaband í nóvember 1974 og ári síðar fæddist Justin Markús. Eins og faðir sinn státar hann af tvöföldum ríkisborgarétt, íslenskum og breskum. Ytra notar hann nafnið Justin Markus Johannesson en á Íslandi gengur hann undir nafninu Justin Markús Bjarnason.

Foreldrar Justins Markúsar eru skilin en Bjarni býr nú í glæsilegu húsi í Kensington-hverfi Lundúnaborgar, nánar tiltekið á Stanford Road.

Fær póst á Stýrimannastíg

Erfitt er að finna upplýsingar um líf þessa áhugaverða Íslendings og tengsl hans við Ísland. DV hefur árangurslaust reynt að fá viðtal við Justin en þeim fyrirspurnum hefur ekki verið svarað. Samkvæmt heimildum blaðsins talar hann ekki íslensku en er þó stoltur af uppruna sínum og heimsækir Ísland reglulega. Meðal annars tók hann þátt í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2009. Í þau skipti sem hann sækir landið heim gistir hann á æskuheimili föður síns og frænda, Stýrimannastíg 5, á besta stað í miðbænum. Bræðurnir, Loftur og Bjarni, erfðu húsið eftir móður sína árið 1993 og á útidyrahurð hússins má sjá nafnið Justin Bjarnason ásamt nafni föður hans, Bjarna Jóhannessyni.

Lítið er vitað um umsvif Justins Markúsar í viðskiptum. Hann var skráður framkvæmdastjóri breska fyrirtækisins Transport and Technology Services Limited en það fyrirtæki hefur verið leyst upp. Þá herma heimildir DV að hann hafi haft umfangsmikil viðskipti við Landsbankann í Lúxemborg fyrir hrun og hafi þar haft aðgang að lánalínu upp á um einn milljarð króna þegar honum hentaði. Loftur, föðurbróðir Justins, var einnig í miklum viðskiptum við sama útibú Landsbankans en færði sig síðan yfir til Nordea-bankans eftir hrun.

Fyrir utan þessar fátæklegu upplýsingar er lítið vitað um Justin Markús Bjarnason í alþjóðlegu viðskiptalífi. Hins vegar er hægt að finna umtalsvert um íþróttafrek hans og ævintýramennsku á óravíddum internetsins.

Settu heimsmet í róðri yfir Atlantshaf

Árið 2011 setti Justin Markús heimsmet í róðri ásamt vöskum hópi fólks. Um var að ræða sex manna lið, „Team Hallin“, sem freistaði þess að róa yfir Atlantshafið á mettíma. Í liðinu voru vanir ræðarar fyrir utan Íslendinginn Justin Markús sem, í umfjöllun fjölmiðla, var sagður hafa bakgrunn úr þríþraut (e. iron man). Liðið lagði af stað frá eyjunni Tenerife þann 6. janúar 2011. Um gríðarlega þrekraun var að ræða því liðsmenn reru þrír og þrír saman og voru vaktaskipti á tveggja klukkustunda fresti alla ferðina. Í „frítímanum“ lagfærðu liðsmenn það sem þurfti á bátnum og reyndu síðan að leggja sig.

Sá of mikið af tittlingum

Erfiðið var þess virði því heimsmetið féll. Team Hallin kom að landi á Barbados eftir 31 dag, 23 klukkustundir og 31 mínútu. Það var bæting á heimsmetinu um tæpan sólarhring. „Það hafa allir staðið sig stórkostlega en við erum öll gjörsamlega að niðurlotum komin. Það mun taka okkur um þrjá daga að labba aftur eðlilega,“ sagði fyrirliðinn, David Hosking, fyrrverandi liðsforingi í breska sjóhernum og stríðshetja, við blaðamenn. Að meðaltali missti hver þátttakandi um 13 kílógrömm í ferðinni þrátt fyrir að liðsmenn hafi á hverjum degi innbyrt um þrefalt magn af hitaeiningum venjulegs einstaklings. Þá höfðu fjölmiðlar gaman að þeirri fullyrðingu Naomi Hoogesteger, eina kvenkyns liðsmannsins, að ekkert einkalíf hafi verið um borð og hún væri búin að sjá nóg af tittlingum til þess að endast henni ævina.

Hljóp maraþon á Norðurpólnum

Í febrúar 2012 var Justin Markús mættur til Svíþjóðar þar sem hann tók þátt í Vasa-skíðagöngunni frægu. Um er að ræða 90 kílómetra þrekraun en með Justin Markúsi í för voru góðvinir hans, James Matthews og unnusta hans, Pippa Middleton, og bróðir hennar, James. Út af tengslum Pippu við bresku konungsfjölskylduna sýndu breskir fjölmiðlar þátttöku hópsins mikinn áhuga og gerðu mikið úr þeirri staðreynd að Pippa hafði aldrei stigið á gönguskíði áður. Justin kláraði þrekraunina á rúmum 10 klukkustundum og endaði hann í 11.478 sæti af rúmlega 17 þúsund þátttakendum. Pippa og James voru öllu kraftmeiri en þau kláruðu gönguna á rúmum 7 klukkustundum.

Í apríl sama ár tóku vinirnir Justin Markús og James Matthews þátt í maraþoni á Norðurpólnum. Óhætt er að segja að sá viðburður sé aðeins fyrir útvalda því þátttökugjaldið er tæplega 2 milljónir króna. Á heimasíðu hlaupsins kom fram að Justin Markús hafi klifið á topp Mont Blanc og Kilimanjaro og að Norðurpólsmaraþonið væri undirbúningur fyrir hugsanlegan leiðangur til Suðurskautslandsins. Ekki liggur fyrir hvort af þeim leiðangri hefur orðið.

Hjólaði þvert yfir Bandaríkin

Árið 2014 var sami hópur (Justin Markús, James Matthews, Pippa og James Middleton) mættur til leiks í aðra þrekraun á öðrum stað á hnettinum, Race across America. Um er að ræða hjólakeppni þar sem einstaklingar eða lið freista þess að hjóla þvert yfir Bandaríkin, alls tæplega 5.000 kílómetra leið. Hópurinn, sem keppti undir merki Michael Matthews Foundation, hjólaði frá San Diego í Kaliforníu og til Annapolis í Maryland á sex dögum, tíu klukkustundum og 54 mínútum. Á leiðinni safnaði hópurinn áheitum til góðgerðarstarfs. Þess má geta að Michael Matthews var bróðir áðurnefnds Justin Matthews, góðvinar Justins og unnusta Pippu Middleton. Michael var mikill ævintýramaður en fórst árið 1999 í slysi í Everest-fjalli.

Þetta er aðeins upptalning á helstu afrekum Justins Markúsar. Hann hefur að auki hlaupið fjölmörg maraþon sem og ofurmaraþon. Meðal annars Marathon des Sables, ofurmaraþon um Sahara-eyðimörkina, árið 2009. Þar notaði Justin Markús íslenska eftirnafnið sitt, Bjarnason, og hljóp undir íslenskum fána. Ástæðan var að öllum líkindum sú að takmörk voru á fjölda þeirra keppenda sem máttu koma frá hverju landi og hlaupið er vinsælt meðal breskra hlaupara. Þar heilsaði Ágúst Kvaran háskólaprófessor upp á landa sinn og tók mynd af þeim sem fylgir fréttinni.

Gríðarleg eftirvænting vegna brúðkaups Pippu

Eins og greint var frá í byrjun greinarinnar stendur breska þjóðin nú á öndinni af spennu vegna brúðkaups James Matthews og Pippu Middleton sem fram fer þann 20. maí næstkomandi. Að sjálfsögðu verður systir Pippu, Kate Middleton, hertogaynjan af Cambridge, viðstödd athöfnina ásamt eiginmanni sínum, Vilhjálmi Bretaprins. Börn þeirra, Georg prins og Charlotte prinsessa, fá veigamikil hlutverk við athöfnina samkvæmt breskum fjölmiðlum. Georg litli verður hringaberi og Charlotte verður brúðarmær. Þá mun Harry Bretaprins einnig mæta til leiks en hann og Pippa urðu góðir vinir eftir brúðkaup systkina sinna. Óhætt er að fullyrða að brúðkaupið verði hápunktur bresks samkvæmislífs á þessu ári og þar munum við Íslendingar án nokkurs vafa eiga okkar fulltrúa, auðkýfinginn og ævintýramanninn Justin Markús Bjarnason.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Kveiks-fíaskóið vandræðalegt fyrir RÚV í ljósi tengsla útvarpsstjóra

Kveiks-fíaskóið vandræðalegt fyrir RÚV í ljósi tengsla útvarpsstjóra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik