fbpx
Fimmtudagur 02.maí 2024
Fréttir

Leit að MH370 hætt: Ráðgátan um hvarfið leysist mögulega aldrei

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 17. janúar 2017 07:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skipulagðri neðansjávarleit að flaki MH370, farþegaflugvélar Malaysia Airlines, hefur verið hætt. Tæp þrjú ár eru síðan vélin hvarf sporlaust en það gerðist þann 8. mars árið 2014. Aðstandendum þeirra sem um borð voru var tilkynnt þessi ákvörðun í gærkvöldi.

Leitað hefur verið á 120 þúsund ferkílómetra svæði í Suður-Indlandshafi undanfarin tvö ár en án árangurs. Leitin var skipulögð af yfirvöldum í Malasíu, Kína og Ástralíu.

„Þrátt fyrir að við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur, notað alla tækni sem í boði er og notið ráðgjafar þeirra sem eru bestir í sínu fagi, hefur leitin því miður ekki borið árangur. Ákvörðunin um að hætta neðansjávarleit var ekki auðveld,“ sagði í yfirlýsingu frá aðstandendum leitarinnar.

Vélin hvarf af ratsjám skömmu eftir flugtak þann 8. mars 2014, en vélin var á leið frá Kuala Lumpur í Malasíu til Peking í Kína. Talið er að vélin hafi brotlent í Indlandshafi en 239 manns, farþegar og áhöfn, voru um borð.

Aðstandendur þeirra sem um borð voru hafa gagnrýnt þá ákvörðun að hætta leit. Einn þeirra er K S Narendran, eiginkona Chandrika Sharma, Indverja sem var meðal þeirra sem um borð voru. „Þessi ákvörðun virðist tekin í fljótfærni og er svik við fyrri yfirlýsingar um að leit verði haldið áfram,“ hefur Guardian eftir henni.

Þeir sem stóðu að fyrrnefndri neðansjávarleit segja að þó leit hafi nú verið hætt þýði það ekki að leit verði haldið áfram ef og þegar aðrar vísbendingar um afdrif vélarinnar berast. Miðað við þá vinnu sem lögð hefur verið í leitina á undanförnum árum gæti það þó allt eins gerst að ráðgátan um afdrif MH370 muni aldrei leysast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt