fbpx
Þriðjudagur 15.júní 2021
Fréttir

Ólafur ósáttur: „Reykjavík bannar enn og aftur hjálma“

50 þúsund börn fengið hjálma að gjöf frá Kiwanis og Eimskip

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Sunnudaginn 17. apríl 2016 11:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er vægast sagt hallærislegt þegar Sigrún Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi skóla- og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg, heldur því fram að börn með hjálma sem gefnir eru af Kiwanis og Eimskip séu gangandi auglýsing,“ þetta segir Ólafur William Hand upplýsingafulltrúi Eimskips. Í samtali við DV gagnrýnir hann fyrirkomulag Reykjavíkurborgar. Þá hefur hann einnig skrifað pistil um málið. Pistillinn hefur vakið mikla athygli og verið dreift víða og sitt sýnist hverjum. Andrés Jónsson auglýsingagúrú og almannatengill segir Ólaf ekki koma hreint fram.

Fyrr í vikunni var greint frá því að annað árið í röð fái Kiwanismenn ekki að gefa börnum í 1. bekk í grunnskólum Reykjavíkur hjálma. Hjálmarnir eru merktir Eimskip. Börn í öðrum sveitarfélögum hafa þegið þessar gjafir. Sigrún Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi skóla- og frí-stundasviðs hjá Reykjavíkurborg sagði í samtali við Morgunblaðið: „Börn eiga ekki að vera gangandi auglýsing“

Ólafur segir að fullyrðing Sigrúnar lýsi vanþekkingu hennar á málinu.

„Sigrún er ein af fjölmörgum embættismönnum borgarinnar sem hefur verið falið, undanfarin ár, að gagnrýna þetta samfélagslega verkefni Kiwanis fyrir hönd þeirra hjá borginni sem ekki þora eða vilja koma fram og tjá sig um málið af ótta við að missa atkvæði í kosningum. Enda er samkvæmt könnun sem Gallup framkvæmdi yfirgnæfandi meirihluti fólks á barneignaraldri í Reykjavík fylgjandi þessari gjöf frá Kiwanis.“

Ólafur segir að á 13 árum hafi 50 þúsund börn fengið hjálma að gjöf frá Kiwanis og Eimskip.

„Þessi gjöf hefur án efa átt hvað mestan þátt í því að í dag er ekki lengur “hallærislegt“ að nota hjálm. Það hefur mörgum sinnum verið staðfest að þessir tilteknu hjálmar hafi bjargað mannslífum.“

Þá segir Ólafur ennfremur:

„Það er svolítið skrítið að erlendir framleiðendur íþróttabúnaðar mættu gefa börnum merkta hjálma, en ekki Eimskip. Þetta staðfesti starfsmaður Reykjavíkurborgar við mig fyrir tveimur árum. Vandinn er sá að erlendir framleiðendur er ekki tilbúnir til að gefa börnum á Íslandi 5.000 hjálma á hverju ári.“

Ólafur segir að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hafi ítrekað verið beðinn um að ræða þessi mál til að finna á því lausn. En í stað þess að ræða málin fórni borgarstjórn embættismönnum á altari fjölmiðlanna.

„Það eru góð og gild rök fyrir því að hjálmarnir eru afhentir í skólum: Það tryggir að öll börn fá hjálm og ekkert barn þarf að mæta grátandi í skólann af því að foreldrar þess komust ekki til að ná í hjálminn. Börnin fá kennslu og upplýsingar um hvernig nota eigi hjálminn og hvernig stilla á hann rétt. Þeirri fræðslu hefur oftar en ekki verið sinnt af lögreglu, læknum, sjúkraflutningamönnum, skólahjúkrunarfræðingum og öðru fagfólki. Það er því miður sorgleg staðreynd að margir foreldrar hafa hreinlega ekki efni á því að kaupa hjálm fyrir börnin sín. Oft höfum við fengið símtöl frá lögreglu, læknum og kennurum sem þakka okkur fyrir þessa gjöf. Þannig símtöl koma ætíð í kjölfar þess að barn dettur eða verður fyrir bíl og hjálmurinn bjargar lífi barnsins.“

Ólafur kveðst fá ótal símtöl frá þakklátum foreldrum. Þá tekur hann fram að Eimskip komi hvergi nærri við að fræða börnin eða oti að þeim bæklingum í skólum.

„Það að halda því fram að þetta sé markaðs eða auglýsingabrella er fjarstæðukennt. Það vita allir sem eitthvað vita um markaðsmál að það eru til mun ódýrari og áhrifameiri leiðir til að markaðssetja skipafélag en að velja markhópinn sex ára börn á Íslandi.“

Segir Ólafur það vera staðreynd að borgarstjórn vinni að því að koma í veg fyrir að börn í Reykjavík fái þessa hjálma að gjöf. Finnst honum um mikla foræðishyggju sé að ræða.

„Eina auglýsingin sem Eimskip hefur fengið er í formi neikvæðrar umræðu borgarstjórnar í garð verkefnisins og blaðaumfjöllunar í kjölfar hennar. Það hlýtur að vera undir foreldrum barna í Reykjavík komið hvort þau vilji þiggja hjálminn eða ekki. Það er ekki verið að setja börnin í neina erfiða aðstöðu eða ógna öryggi þeirra á neinn hátt. Þeim foreldrum sem ekki vilja að barnið sitt fái hjálm að gjöf er frjálst að gefa hann eða skila honum til Kiwanis, þar sem hann kemur öðru barni án efa að góðum notum.“

Þá segir Ólafur ennfremur:

„Margir hafa spurt „því hættið þið ekki að merkja hjálmanna?“ Svarið er að Eimskip ber ábyrgð á hjálmunum og verður að merkja þá samkvæmt þeim reglum sem um það gilda. Það verður að vera hægt að rekja vöruna til þess er ber ábyrgð á henni. Ég vil einnig benda á að vörumerki Eimskips er eins lítið sýnilegt og hugast getur á bakhlið hjálmsins og hverfur nánast í hönnun hans.“

Ólafur neitar að gefast upp og segir í pistli sínum að eitt símtal þar sem foreldri þakkar fyrir að hjálmur hafi bjargað lífi barns geri það að verkum að hann vill halda áfram að berjast og reyna opna augu borgarstjóra.

„Borgarstjóri hvetur til aukinna hjólreiða en á hinn boginn stuðlar hann óbeint að því að notkun á hjálmum dragist saman og skemmir með því óeigingjarna þrotlausa vinnu Kiwanis sem staðið hefur í yfir áratug við að auka öryggi okkar verðmætustu þegna. Við skulum svo vona að borgarstjóri þurfi ekki að hafa það á samviskunni að barn slasist vegna skammsýni hans þegar hægt hefði verið að koma í veg fyrir það og allir hefðu getað unnið þetta skemmtilega verkefni í sameiningu.“

Mynd: Góð Samskipti

Ekki eru allir sammála skrifum Ólafs. Andrés Jónsson almannatengill sem þekkir vel til í auglýsingabransanum tjáir sig um málið og segir skrif Ólafs slepju frá upphafi til enda.

„Í fyrsta lagi birtir hann mynd af barni með svona hjálm en sýnir ekki þá hlið sem er merktur fyrirtækinu. Sem er frekar óheiðarlegt í ljósi þess að það er merkingin sem málið snýst um, en ekki barnið eða aukin hjálmanotkun.“
Andrés segir Ólaf ráðast á saklaust fólk og væna kjörna fulltrúa um annarlegar hvatir.
„Hann lætur enn fremur eins og tilgangurinn með dreifingunni sé tóm góðmennska en ekki hluti af markaðssetningu fyrirtækis hans (ef svo væri af hverju dreifir hann þá ekki ómerktum hjálmum til barna og sendir svo fréttatilkynningu um það).“

Andrés segir að geta markaðssett til heimila í gegnum grunnskólabörn sé hið heilaga gral í markaðsmálum.

„Það er dreifileið sem kemur markaðsskilaboðum alla leið inn í innsta ból fjölskyldna og á hluti sem verða hluti af daglegu lífi þeirra. Eimskip, þar sem margir starfsmenn nota hjálma við vinnu sína, sá þetta tækifæri fyrir nokkrum árum og maður skilur það vel að þeir nýttu sér það. Það verður hins vegar að hafa almennar reglur um auglýsingar í skólum og draga línu um hvað megi nota grunnskólana í.“

Andrés segir að lokum:

„Það er enginn að halda því fram að börn þoli ekki að sjá vörumerki eða að það valdi þeim stórkostlegum skaða að vera merkt fyrirtækjum. Það er heldur ekkert sem bannar Eimskip að dreifa merktum vörum til barna, þeir verða bara að gera það annars staðar en í skólastofunni. Þeir geta sent hjálmana heim til fólks, þeir geta dreift þeim í Kringlunni eða þeir geta boðið fólki að sækja þá á bensínsstöðvar. Ég kem ekki auga á þetta óréttlæti sem þetta forríka fyrirtæki hefur orðið fyrir af hálfu borgarinnar að mati Ólafs Williams Hands.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Morðið í Sandgerði: Ragnar dæmdur í 14 ára fangelsi í Landsrétti – Skrifaði hjartnæma Facebookfærslu daginn eftir morðið

Morðið í Sandgerði: Ragnar dæmdur í 14 ára fangelsi í Landsrétti – Skrifaði hjartnæma Facebookfærslu daginn eftir morðið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gunnlaugi bjargað frá kulnun og sjálfsvígshugsunum – „Mér hefur aldrei liðið eins vel á ævinni eins og nú“

Gunnlaugi bjargað frá kulnun og sjálfsvígshugsunum – „Mér hefur aldrei liðið eins vel á ævinni eins og nú“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Trúr og hlýðinn“ dómari dæmdi Kristján Örn í skilorðsbundið fangelsi – Hyggst leita til Mannréttindadómstóls Evrópu

„Trúr og hlýðinn“ dómari dæmdi Kristján Örn í skilorðsbundið fangelsi – Hyggst leita til Mannréttindadómstóls Evrópu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Engin skrá um fljúgandi furðuhluti við Ísland

Engin skrá um fljúgandi furðuhluti við Ísland