fbpx
Sunnudagur 05.maí 2024
FréttirLeiðari

Ekkert vandræðaplagg

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 12. ágúst 2016 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvaðan í ósköpunum kemur stjórnmálamönnum sú hugmynd að ný stjórnarskrá sé það mál sem heitast brenni á þjóðinni? Fólki er ekki heitt í hamsi og er ekki að hópa sig saman og hrópa í æsingi á torgum um brýna nauðsyn á nýrri stjórnarskrá, þótt einhverjir stjórnmálamenn kjósi að trúa öðru. Hugmynd Pírata um stutt kjörtímabil eftir kosningar þar sem aðaláhersla verði á að ljúka stjórnarskrármálinu hljómar satt að segja ansi nördalega. Þessi afstaða Pírata væri skiljanleg ef reiði gætti hjá þjóðinni vegna þess að stjórnarskráin væri stöðugt að valda vanda. En svo er ekki.

Stjórnarskráin er ekki meingallað vandræðaplagg. Það er hins vegar sjálfsagt að endurskoða hana að einhverju leyti, enda hafa tímarnir breyst og mennirnir með. Þar þarf hins vegar að vanda til verka og sýna skynsemi og yfirvegun. Alls engin ástæða er til að umbylta stjórnarskránni, eins og einstaka stjórnmálamenn virðast þrá svo heitt. Stjórnarskrá á að vera hnitmiðuð og á skýru máli, hún á ekki að vera full af skrúðmælgi og líkjast mest loforðaplaggi stjórnmálaflokka fyrir kosningar.

Píratar virðast vilja mynda eins konar bráðabirgðastjórn utan um þetta áhugamál sitt með Vinstri grænum og Samfylkingunni. Þeir flokkar eru hins vegar ekki líklegir til að vilja vera í eins-máls-ríkisstjórn og þjóðin kærir sig örugglega ekki um slíka stjórn. Þjóðin vill ríkisstjórn sem er tilbúin að efla heilbrigðiskerfið sem hefur verið að grotna innan frá. Ungt fólk í landinu á erfitt með að festa kaup á sinni fyrstu íbúð, stór hluti þess neyðist til að vera á leigumarkaði og borga okurleigu. Við þetta verður ekki búið lengur. Og umfram allt þarf að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum. Segja má að það sé vel að stór hópur landsmanna sé búinn að gleyma þeim ósköpum sem fylgja verðbólgu – en verðbólgudraugurinn er fljótur að glaðvakna og breiða úr sér finni hann hentugan jarðveg. Þessi mál, og fleiri, eru svo miklu meira áríðandi en það að umbylta stjórnarskrá sem hefur í öllum meginatriðum reynst vel.

Þeir stjórnmálamenn sem æstastir eru í nýja og breytta stjórnarskrá tala of oft eins og þeir séu handhafar hins æðsta sannleika. Af orðum þeirra mætti stundum ætla að allir þeir sem vilja fara varlega í breytingar á stjórnarskránni séu andlýðræðislega sinnaðir. Þetta er hrokafullur og einstrengingslegur málflutningur. Það er einfaldlega afar eðlilegt að skiptar skoðanir séu um nauðsyn þess að breyta stjórnarskránni og hverju eigi þar að breyta.

Píratar segjast setja nýja stjórnarskrá á oddinn fyrir komandi kosningar. Líklegt er að Píratar eigi eftir að reka sig á það fyrr en seinna að þjóðin telur önnur úrlausnarefni mun brýnni en þetta dekurmál þeirra. Það er aldrei skynsamlegt að ganga til kosninga sem eins-máls-flokkur. Píratar eiga eftir að uppgötva þann sannleik.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúi í Laugardal orðinn þreyttur á suði frá sendidrónum AHA – Eigandi segir engan truflandi hávaða af drónunum

Íbúi í Laugardal orðinn þreyttur á suði frá sendidrónum AHA – Eigandi segir engan truflandi hávaða af drónunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fordæma skemmdarverk á Útilegumanninum

Fordæma skemmdarverk á Útilegumanninum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Karl Arnar hristir hausinn: „Snúið fyr­ir einka­fyr­ir­tæki að standa í sam­keppni við djúpa vasa rík­is­ins“

Karl Arnar hristir hausinn: „Snúið fyr­ir einka­fyr­ir­tæki að standa í sam­keppni við djúpa vasa rík­is­ins“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði