fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Tímavélin: Ástarævintýri endaði með morðsamsæri í Vestmannaeyjum

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 13. október 2024 20:30

Ljósmynd frá Vestmannaeyjum, tekin um 1900. Myndin er tekin af Frederick W.W. Howell og er úr safni hins mikla Íslandsvinar Daniel Willard Fiske sem er hluti af bókasafni Cornell háskóla í Bandaríkjunum. Wikimedia Commons.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Morð eru ekki beinlínis nýtt fyrirbæri á Íslandi og hafa í raun fylgt þjóðinni allt frá landnámi þótt þau hafi verið misalgeng síðan þá. Sum morð hér á landi hafa verið rakin til ástarmála þeirra sem við sögu hafa komið. Dæmi um slíkt er morð sem framið var í Vestmannaeyjum árið 1692 en þá var maður nokkur myrtur. Voru eiginkona hans, systir hennar og ein önnur kona allar dæmdar fyrir aðild að morðinu en ástarævintýri eiginkonunnar með dönskum umboðsmanni konungs í Eyjum hefur verið sögð helsti hvatinn að þessu samsæri kvennanna en hvort umboðsmaðurinn átti þátt í því hefur aldrei verið upplýst.

Hinn myrti hét Gísli Pétursson og var hann myrtur í klettum á Heimaey sem síðan hafa borið nafn hans, Gíslaklettar. Hver nákvæmlega var staðsetning klettanna er ekki öruggt en á vefsíðunni Áfangar  kemur fram að klettarnir hafi horfið undir gjósku þegar Helgafellshraun var slétt út fyrir nýtt byggingahverfi eftir eldgosið í Heimaey 1973. Talið er líklegast að klettarnir séu undir norðurhluta íþróttavallar Þórs sem stendur við Hamarsveg en skammt frá er aðal knattspyrnuvöllur Eyjamanna, Hásteinsvöllur, og hinum megin við götuna er golfvöllur bæjarins.

Líklegasta staðsetning Gíslakletta er talin hafa verið þar sem íþróttavöllur Þórs stendur í dag. Mynd: Skjáskot/Já.is

Mjög ítarlega var fjallað um málið í samantekt í Sunnudagsblaði Alþýðublaðsins árið 1939 og er hún að mestu leyti unnin upp úr frumheimildum svo sem annálum og alþingisbókum.

Átti barn fyrir með ástmanninum

Gísli Pétursson var sonur Péturs Gissurarsonar prests að Ofanleiti í Vestmannaeyjum og Vilborgar Kláusardóttur en faðir hennar var lögréttumaður. Gísli var fimmta og yngsta barn hjónanna. Í maí árið 1692 giftist Gísli Ingibjörgu Oddsdóttur og tók hann þá eina af jörðum Vestmannaeyja til ábúðar en stundaði sjómennsku meðfram bústörfunum. Ingibjörg átti fyrir barn með dönskum manni er hét Peter Vibe en hann var umboðsmaður Danakonungs í Vestmannaeyjum, en eyjarnar voru þá einkaeign konungs.

Sambandi þeirra virðist hins vegar ekki hafa verið lokið þegar Ingibjörg gekk í hjónaband með Gísla eins og síðar átti eftir að koma í ljós.

Ódæðið framið

Þann 19. júní, um mánuði eftir giftinguna, gekk Gísli Pétursson heiman frá sér til að athuga með fisk sem hann geymdi í svokölluðum fiskigarði. Stuttu síðar hélt Ingibjörg á eftir manni sínum en sendi Steinunni Steinmóðsdóttur, vinnukonu hjónanna, til að sækja systur sína, Ingveldi Oddsdóttur.

Ingveldur og Steinunn gengu síðan báðar þar til þær fundu Ingibjörgu og Gísla við kró nokkra, í klettunum, en kró mun vera stía, sem ætluð er sauðfé og þá einkum til að gefa því.

Þegar Ingveldur og Steinunn fundu hjónin var Gísli orðin alldrukkinn en Ingibjörg hafði með sér brennivín og gaf Gísla en hann er sagður verið mjög drykkfelldur maður.

Gengu þau öll fjögur saman að annarri kró, sem var hlaðin úr grjóti eins og hin króin, og hjónin og Ingveldur fóru inn í hana en Ingibjörg sagði Steinunni að bíða fyrir utan og fylgjast með mannaferðum. Í krónni dró Ingveldur upp brennivínsflösku sem þau gæddu sér öll þrjú á. Á þessum tímapunkti var Gísli orðinn verulega ölvaður og hallaði höfði sínu upp að Ingibjörgu. Hún fór hins vegar út úr krónni og bað Gísla að bíða. Í sama mund greip Ingveldur stein og rak hann í höfuð Gísla. Systurnar hrundu síðan krónni ofan á Gísla og Steinunn hjálpaði þeim að dysja hann enn frekar.

Latti til leitar – Álfar grunaðir

Svona er atburðarásinni lýst í heimildum. Þegar ekkert hafði spurst til Gísla þegar leið á þennan dag bauðst maður nokkur til að leita að honum en Ingibjörg sagði manninum að vera ekkert að því. Ellefu ára drengur hafði hins vegar séð til kvennanna baksa með grjót og í kjölfar upplýsinga frá honum um staðsetningu fannst lík Gísla og síðan þá hafa klettarnir þar sem þetta gerðist borið heitið Gíslaklettar.

Samkvæmt þingsvitni sem tekið var í apríl 1693 var Gísli með afar mikla áverka þegar hann fannst og meðal annars var höfuðkúpa hans beinlínis mölbrotin.

Ekki féll grunur strax á konurnar þrjár og raunar var uppi orðrómur um að álfar hefðu myrt Gísla eftir að hann hefði svikið álfkonu í tryggðum. Rannsókn á láti Gísla var ekki hafin fyrr en í apríl 1693, 10 mánuðum eftir að hann lést.

Í réttarhaldi sem haldið var þennan sama mánuð komu fram vitni sem höfðu séð Gísla og Ingibjörgu saman á gangi þennan dag og séð Ingibjörgu ganga frá þeim stað þar sem lík Gísla fannst. Drengur sagðist hafa verið á gangi nærri staðnum þar sem Gísli fannst og hitt þá Steinunni sem hafi ógnað með hnífi og sagt honum að ganga í burtu, Steinunn viðurkenndi að hafa hitt drenginn.

Böndin fóru að berast Steinunni og sökuðu bræður Gísla hana, fyrir réttinum, um að hafa myrt hann. Henni var dæmt, eins og venjan var í réttarhöldum þessa tíma, að sverja eið að sakleysi sínu en gat það ekki það sem enginn vildi sverja eiðinn með henni.

Sagði frá öllu

Efnt var til annars réttarhalds og þá leysti Steinunn frá skjóðunni og lýsti atburðarásinni á þann hátt sem hér hefur verið rakinn. Hún sagði Ingibjörgu hafa verið höfuðpaurinn í morðinu og hafi viljað losna við Gísla svo hún gæti einbeitt sér að sambandi sínu við áðurnefndan Peter Vibe. Þetta endurtók Steinunn á Alþingi, sem gengdi hlutverki dómstóls á þessum tíma, um sumarið og bætti því við að Ingibjörg hefði þvingað hana með hótunum til að taka þátt í morðinu en loks greitt henni fyrir aðstoðina.

Ingveldur og Ingibjörg voru kallaðar til réttarhalds í apríl 1694 og neituðu því staðfastlega að Steinunn færi með rétt mál en hún stóð við framburð sinn. Steinunn var hneppt í varðhald en veiktist svo illa að henni var vart hugað líf.

Réttað var hins vegar yfir systrunum og Steinunni á Alþingi og ýmis vitni kölluð til sem báru vitni um hegðun sem þótti varpa grun á systurnar. Systrunum var báðum dæmt að sverja eið að sakleysi sínu en fengum honum ekki framgengt eins og Steinunn þar sem enginn vildi sverja eiðinn með þeim.

Á grundvelli játningar Steinunnar var hún sakfelld og var það ályktun Alþingis að hún hefði fyrirgert lífi sínu en konungi falið að ákveða nákvæma refsingu yfir henni. Þar sem systurnar þverneituðu að hafa myrt Gísla sluppu þær við dauðadóm en málið var lagt undir náð konungs.

Dæmdar

Réttarhöldum var þó ekki lokið. Systurnar voru sakfelldar á þingi árið eftir, sumarið 1695, og samkvæmt dómsniðurstöðu voru taldar miklar líkur á sekt þeirra, þótt þær neituðu öllu, þar sem eiður þeirra að sakleysi sínu hafði ekki náð fram að ganga. Systurnar voru dæmdar til hýðingar og í kjölfarið útlegðar frá Íslandi.

Þær voru hýddar tveimur dögum síðar en tókst ekki að fá far með skipi úr landi. Á Alþingi sumarið 1696 fengu þær frest til ársins 1698 til að útvega sér far úr landi annars yrðu þær teknar af lífi. Þær flæktust til Vestfjarða og eignaðist Ingibjörg barn með manni sem hlaut sekt fyrir. Þegar komið var fram á árið 1698 voru systurnar enn á landinu og var þá kveðið upp úr á Alþingi að ná yrði til þeirra. Ingibjörg og Ingveldur komust þó á endanum úr landi. Heimildum ber þó ekki saman um hvort þær sigldu saman eða hvor í sínu lagi og hvaða ár það var nákvæmlega sem þær yfirgáfu landið en það var líklega í seinasta lagi 1702. Lítið er vitað um hvað varð um þær systur en samkvæmt einni heimild sigldi Ingibjörg til Englands með enskum hvalveiðimönnum og giftist þar í landi.

Af dómi yfir þriðju konunni sem tók þátt í samsærinu um morðið á Gísla Péturssyni, áðurnefndri Steinunni Steinmóðsdóttur vinnukonu, er það að segja að 1695 var hún enn á lífi þrátt fyrir að vera vart hugað líf árið áður eftir áðurnefnd veikindi. Hún var flutt til Alþingis þar sem átti að fullnægja dauðadómnum yfir henni þegar hún hefði náð nægilegri heilsu. Steinunni tókst hins vegar að strjúka úr haldi. Lýst var eftir henni meðal annars með orðunum:

„Kreppt, kararómagi, afskræmileg.“

Hins vegar var ekki settur neinn sérstakur kraftur í leitina að Steinunni og hún náðist aldrei en er sögð hafa búið á Snæfellsnesi undir dulnefni út ævina.

Slapp sá fjórði?

Eins og áður sagði er talið að líklegasta ástæðan fyrir morðinu hafi verið samband Ingibjargar við barnsföður sinn, umboðsmann Danakonungs, Peter Vibe. Steinunn fullyrti að það hefði verið hvatinn að morðinu en í hennar framburði virðist ekkert hafa komið fram um beinan þátt Peter Vibe. Eftir að morðið á Gísla var tekið til rannsóknar 10 mánuðum eftir að það átti sér stað yfirgaf Peter Vibe Vestmannaeyjar í skyndi og fór til Bessastaða að sögn til að ráðgast við amtmann. Frá Bessastöðum fór Vibe á Alþingi, þaðan úr landi og kom aldrei aftur til Íslands.

Hugsanlegur þáttur hans í málinu var ekki rannsakaður en hávær orðrómur var uppi um að hann hefði átt þátt í samsærinu um að myrða Gísla eða verið aðalskipuleggjandi þess. Í samantektinni í Sunnudagsblaði Alþýðublaðsins er því slegið föstu að framburður Steinunnar sýni fram á að Vibe hafi átt upptökin að samsærinu.

Mögulega hefur hin íslenska þjóðerniskennd 20. aldar eitthvað haft um þessi skrif að segja. Einnig verður að taka framburð og margra alda gamlar heimildir með fyrirvara en það virðist óneitanlega hafa verið fullt tilefni til að rannsaka frekar þátt Vibe í málinu. Hvort að staða hans hafi eitthvað haft um það að segja að það var ekki gert er vel mögulegt en hér verður ekki kveðið upp úr um það.

Eitt er þó víst, maður var myrtur og af þeim alls fjórum manneskjum sem sagðar eru hafa haft með sér samsæri um morðið sat aðeins ein þeirra í varðhaldi og þá í rúmlega 1 ár.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Pornhub afhjúpar vinsælustu leitarniðustöðurnar á árinu – „Furðulegt“ blæti efst á lista

Pornhub afhjúpar vinsælustu leitarniðustöðurnar á árinu – „Furðulegt“ blæti efst á lista
Fókus
Fyrir 2 dögum

Björgvin Franz um ákvörðun dóttur sinnar að hætta á OnlyFans – „Það var verið að hóta henni“

Björgvin Franz um ákvörðun dóttur sinnar að hætta á OnlyFans – „Það var verið að hóta henni“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ógeðslegt“ með hverri kærastinn er að halda framhjá – „Hún er sextug en klæðir sig eins og hún sé tvítug“

„Ógeðslegt“ með hverri kærastinn er að halda framhjá – „Hún er sextug en klæðir sig eins og hún sé tvítug“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Læknar sögðu Anton Bjarka að hafa engar áhyggjur af góðkynja æxlinu – Fann fyrir reiði þegar það kom í ljós að það væri illkynja og ágengt

Læknar sögðu Anton Bjarka að hafa engar áhyggjur af góðkynja æxlinu – Fann fyrir reiði þegar það kom í ljós að það væri illkynja og ágengt
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrsti jólasveinninn kemur til byggða í kvöld

Fyrsti jólasveinninn kemur til byggða í kvöld
Fókus
Fyrir 4 dögum

Mömmuáhrifavaldur sætir rannsókn eftir fjölda ábendinga um vanrækslu – Myndbandið sem gerði útslagið

Mömmuáhrifavaldur sætir rannsókn eftir fjölda ábendinga um vanrækslu – Myndbandið sem gerði útslagið