fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024

Ótrúlegar fyrir og eftir myndir af breytingum Ingibjargar og fjölskyldu á húsinu þeirra

Öskubuska
Mánudaginn 18. mars 2019 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þá er komið að þessu. Ég er, síðustu 2 ár búin að gera nokkur blogg um húsið. Þessar litlu endurbætur sem við höfum gert hér og þar til að gera það að okkar. Nú er komið að stóru færslunni! Eins og þið mörg vitið erum við búin að leggja mikið í það að gera þetta á sem ódýrastan hátt, við vorum auðvitað að kaupa okkar fyrsta hús og eigum tvö ung börn svo við erum ekkert að eyða milljónum í einu. Við höfum reyndar einungis eitt um 1.5 milljónum í að gera við húsið síðan við fluttum inn. Samt var það .. jah ekki í góðu ásigkomulagi, það var búið að lýsa húsið óíbúðarhæft af heilbrigðiseftirlitinu – efni í annan pistil svo sem en það reyndist ekki rétt. Húsið var íbúðarhæft og við fengum auðvitað fagmenn til að skoða þetta fyrir okkur áður en við gerðum nokkuð og pabbi var og er okkar helsti klettur þegar kemur að öllum framkvæmdum og lagfæringum.

EN! Þetta blogg verður í 2 hlutum, fyrst tek ég fyrir eldhús, stofu, ganginn og baðið og rest í hinu blogginu. Annars yrði þetta endalaust!

Við byrjuðum á því að sparsla og mála megnið af húsinu. Veggirnir voru frekar ljótir og sá mikið á þeim. Þegar Tryggvi fór svo næst á sjó tók ég mig til og málaði alla innréttinguna bara til bráðabirgða, ég höndlaði ekki að horfa upp á það svona sumarbústaðalegt. Mig minnir að ég hafi gert blogg um það einhvern tímann. Við tókum innréttinguna svo nýlega aftur og pússuðum, prime-uðum hana og spreyjuðum með svörtu glans spreyi sérstaklega fyrir við, en við keyptum það í Byko. Við eigum enn eftir að græja plötuna við ísskápinn reyndar, en ég er með aðeins of mikla núðluhandleggi til að færa ísskápinn sjálf.

Eitt kvöldið varð ég svo pirruð á því að sjá flísarnar á milli efri og neðri skápanna að ég tók venjulega hvíta vegg málningu og málaði yfir, jájájá ekkert frábær hugmynd en þetta virkaði og virkar þangað til við skiptum öllu heila klabbinu út (Sjáumst 2030 Tryggvi minn!) Flísarnar á milli voru svona .. gulleitar og dökkar línur á milli, frekar ósmekklegt.

Parketið (eins og sést neðst vinstra megin á fyrir myndinni) var farið að gliðna allt í sundur, eyðast upp og var bara í heildina ljótt og úr sér gengið – bókstaflega. Dúkurinn var meistaraverk útaf fyrir sig, hann passaði betur þegar innréttingin var svona brúnleit. En um leið og við vorum búin að mála hana svarta stakk þessi dúkur eins og þyrnir í augun. H r æ ð i l e g t.

Svona lítur eldhúsið svo út í dag. Það eina sem við eigum eftir að gera þannig er að mig langar að spreyja ljósið svart (ég lifi fyrir það að spreyja hluti, kannski er það lyktin, kannski ekki – we’ll never know) og skipta um viftu og eldavél. Það er seinni tíma vandamál reyndar, nema ljósið. Það gerist vonandi bara um eða eftir helgi. Reyndar eru líka hin ljósin alveg hræðileg, en þau virka svo ég reyni að horfa bara ekkert upp, við skiptum bara um þau seinna.

Parketið sem við settum á eldhúsið er guðdómlegt, ég get ekki hætt að horfa á það þó það sé mánuður síðan það var lagt. Við keyptum það í Byko og fengum smið hér í sveitinni til að leggja það fyrir okkur. Já við skoðuðum Youtube og ætluðum að gera það sjálf. Góð ákvörðun að gera það ekki þar sem þeta er bara drullu mikið vesen. Það var alveg nóg vesen að róta öllu húsinu á hvolf (með 2 börn og gesti!!!) til að hægt væri að parketleggja. Parketið kostaði okkur einungis um 215 þúsund ef ég man rétt en við keyptum það á útsölu. Það passar fullkomlega inn í heildarmyndina af húsinu og húsið varð allt svo miklu hlýlegra þó parketið sé frekar kalt.

Þegar við fluttum inn byrjuðum við á því að rífa parketið af stofunni en það var raki í einu horninu.
Það sprakk leiðsla sem lá frá húsinu og þegar búið var að gera við hana og stoppa lekann þurftum við að leyfa gólfinu að anda og þorna.

Við vorum með bert steypugólf i næstum 2 ár – hef alveg vitað um þægilegri hluti en þetta var þess virði. Stofan breyttist líklegast minnst en við máluðum hana bara og settum nýtt parket og gluggatjöld. Nýlega tók ég mig reyndar til og málaði einn vegginn alveg svartan og vá hvað það kemur vel út! Svart á svart er uppáhaldið mitt, þessa dagana.. alltaf bara.

Það er samt eitt sem mig langar að minnast á fyrst ég er að deila með ykkur myndum af stofunni okkar. Nánast allt nema nokkrir smá hlutir eru hlutir sem við höfum keypt eða fengið notaðir. Inni í stofunni okkar eru 2 blómapottar, og 5 skrautmunir sem voru keyptir nýir. That’s it. Skenkurinn undir sjónvarpinu mínu er tæplega eða rúmlega 100 ára gamall. Þegar ég var lítil stelpa átti langamma mín, hún Ingibjörg, hann og dótið sem við lékum okkur með þegar við fórum til hennar var geymt í honum. Sófarnir okkar eru frá frænku minni og sófaborðið frá bróður mínum og manninum hans. “Gæran” á háa stólnum er í vesti sem ég vafði utan um stól frá vinkonu minni.

Það þarf ekki alltaf að kaupa allt nýtt, auðvitað er það gaman að eiga nýja fallega hluti og við vissulega eigum eitthvað af þeim, eins og eldhúsborðið okkar – en það er gott að sjá notagildið í gömlum hlutum og endurnýta það sem við getum. Það er merkilegt hvað hægt er að laga með smá ást og málningu. En, aftur að endurbótum. Við eigum ekki eftir að gera mikið í stofunni, það á eftir að hengja upp 1 ljósakrónu (sem er úr hertex og ég spreyjaði svarta) og svo á eftir að setja listana í húsinu – en það tengja mögulega margir við það. Listarnir fara upp bara .. seinna.

Ég átti svo ótrúlega marga myndaramma sem ég hefði bara hent, og sá á Pintrest einhvern sem raðaði tómum myndarömmum á vegg hjá sér og fannst það ótrúlega flott. Á Pinterest voru þeir reyndar í sama lit og veggurinn en ég ætla að gera þessa hvítu ramma svarta. Það er voða oft sem maður frestar litlu hlutunum sem taka enga stund. Jæja ég er búin að fresta þessu í svona ár.

Gangurinn þegar við fluttum inn var voða basic, skrýtinn skápur á miðjum ganginum sem gerir gestabaðherbergið minna en það ætti að vera og enn þá skrýtnari panelveggur með speglum á. Smá málning á skápinn, Tryggvi fékk að rústa panelveggnum, nýtt parket, málningarslettur á hurðirnar og þetta varð eins og nýtt.

Ég skal reyndar alveg viðurkenna að ég er gjörsamlega komin með ógeð á því að mála. Við viljum skipta um hurðar og mögulega gera eitthvað við þennan blessaða skáp á endanum. Ég málaði þær ekki af neinni kostgæfni, bara pensill, rúlla og basic hvít veggmálning. Hefði stungið svo í augun að hafa hurðirnar svona sumarbústaðalegar! Þetta er auðvitað ekki góð langtímalausn en virkar í bili.

Við erum reyndar líka búin að skipta um flesta rafmagnstengla í húsinu, svona þessa sem við sjáum allavegana. Ég fékk það starf í fyrra að telja hversu marga þurfti að skipta um – svo þegar rafvirkinn kom, þá kom í ljós að ég kann ekki að telja og það vantaði svona 20 upp á. En halló það er innstunga FYRIR OFAN stofugluggann! Hvernig átti ég bara að sjá það!

Hér er svo gangurinn eftir, þið vitið ekki hvað mér finnst gott að sitja í sætinu hans Tryggva við

matarborðið og horfa yfir ganginn og förðunaraðstöðuna mína. Alltaf þegar ég horfi þarna yfir sé ég hvað við erum komin langt og hvað við höfum gert mikið og ég er svo óendanlega stolt af okkur.

Þið sjáið kannski að veggurinn er svona steypugrár, hann er ekki málaður (sem þið sjáið ef þið horfið neðst á hann) heldur ætluðum við að skrapa aðeins af honum til að geta sparslað og málningin hreinlega flagnaði af. Við ákváðum svo að hann ætti að vera svona þar sem okkur fannst þetta koma svo vel út. Næst á dagskrá er að lakka vegginn, fyrst eftir að við gerðum þetta þá nuddaðist alltaf smá ryk af honum en það er reyndar hætt, best samt að lakka yfir hann til öryggis.

Spegillinn og svarta hillan eru úr Ikea held ég og blómapotturinn og hillan á veggnum eru úr Rúmfatalagernum.

Stærsta verkefnið sem við höfum farið í, í húsinu er samt án efa baðið. Jesús almáttugur hvað það var hræðilegt. Jæja – fyrir myndin er hér. Við byrjuðum á því að rífa baðkarið út, það er líka blogg um það einhvers staðar held ég. Þar næst fóru hillur, spegill, vaskur .. þar til baðherbergið var strípað en allt þarna inni var ónýtt og komið til síns tíma. Já og svo átti að vera mygla þar líka, en það var ekki. Magnað hvað hægt er að gera með hreinsiefni og opnum augum (hægt að sjá hvar var búið að brjóta í gegn til að “skoða” undir baðið). Við þurftum svo í sturtu hjá mömmu og pabba í rúmlega ár. Það var ótrúlega gaman að fara alltaf með krakkana yfir í sturtu. Eehhh. En við vildum ekki setja okkur í stórskuld við að gera þetta baðherbergi heldur bara gera þetta hægt og rólega eins og við höfðum efni á. Það hjálpaði að það er annað gestabaðherbergi fram í forstofu sem við gátum notað.

En, þetta gekk yfir á endanum. Við völdum flísar, vask, blöndunartæki fyrir sturtuna og sturtuglerið frá Húsasmiðjunni þar sem besta tilboðið kom frá þeim – allt fullkomið, nema stöngin í sturtunni fyrir sturtuhausinn. Hún er ónýt og það er ekki ár síðan hún fór upp! Svo, það er frábært og við þurfum að skipta um það á næstunni.

Hér er svo eftir myndin! Ég er svo ótrúlega ánægð hvað plássið nýtist vel núna. Ljósið fyrir ofan spegilinn og plantan er af Aliexpress og spegillinn og sturtumottan úr Ikea. Snaginn fyrir handklæðin sem svo obviously eru búin að snerta hausinn á mér, og rekkinn undir brúsana eru frá Mundu Mig en það er svo mikið af fallegu dóti þar, ég á akkúrat líka snaga þaðan sem hanga í forstofunni.

EN ÞETTA ER EKKI BÚIÐ! Við vorum búin að gera allt þetta, en áttum alltaf eftir að kaupa blöndunartæki í vaskinn, klósett og takka fyrir klósettið. Ég man ekki alveg hvenær sturtan og allt það varð tilbúið en það er svolítið síðan.
Svo núna síðustu jól vorum við öll saman á jólunum, mamma mín og pabbi, bróðir og maðurinn hans, amma og afi og systir mömmu og hennar fjölskylda. Ég var búin að sjá nokkra risa pakka bak við jólatréð og því ég er enn þá 9 ára krossaði ég putta og óskaði þess að við ættum þá. Svo kom loksins að því að opna þá. Þetta var frá ömmu og afa og í fyrsta pakkanum voru blöndunartæki fyrir vaskinn. Í pakka númer tvö var takki fyrir klósettið. Og í síðasta pakkanum, var klósett.

ÞAU GÁFU OKKUR KLÓSETT Í JÓLAGJÖF! Ég hef aldrei á minni ævi hlegið jafn mikið. Þetta var yndislegt, og fyrir áramót var baðherbergið okkar tilbúið.
Húsið okkar er ekki tilbúið en það er svo fallegt og það er heimilið okkar.

Læt fylgja með nokkrar auka myndir.

Færslan er skrifuð af Ingibjörgu Eyfjörð og birtist hún upphaflega á Öskubuska.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Engar mennskar leifar hafa fundist í flaki Titanic – Hvað varð um líkin?

Engar mennskar leifar hafa fundist í flaki Titanic – Hvað varð um líkin?
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Sjáðu ótrúlegar myndir: Fann óvenjulegt vopn og hótaði öllu illu – Á von á harðri refsingu

Sjáðu ótrúlegar myndir: Fann óvenjulegt vopn og hótaði öllu illu – Á von á harðri refsingu
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Kominn með nóg af sömu spurningunum – ,,Mér er drullusama“

Kominn með nóg af sömu spurningunum – ,,Mér er drullusama“
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Sambandið hangir á bláþræði eftir framhjáhaldið: Stórstjarnan gæti fengið óþarfa athygli í sumar – ,,Hefur áhrif á mig á börnin“

Sambandið hangir á bláþræði eftir framhjáhaldið: Stórstjarnan gæti fengið óþarfa athygli í sumar – ,,Hefur áhrif á mig á börnin“
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Þessi 15 metra slanga gæti verið sú stærsta sem lifað hefur á jörðinni

Þessi 15 metra slanga gæti verið sú stærsta sem lifað hefur á jörðinni
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Hrafnkell ómyrkur í máli og trúði vart því sem hann sá – „Það var bara fáránlegt að horfa upp á þetta“

Hrafnkell ómyrkur í máli og trúði vart því sem hann sá – „Það var bara fáránlegt að horfa upp á þetta“
Pressan
Fyrir 19 klukkutímum

Marsþyrla NASA er með „lokagjöf“ handa mannkyninu – En það er einn hængur á

Marsþyrla NASA er með „lokagjöf“ handa mannkyninu – En það er einn hængur á
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Besta deild kvenna: Sandra skoraði fernu – Svakaleg endurkoma Stjörnunnar

Besta deild kvenna: Sandra skoraði fernu – Svakaleg endurkoma Stjörnunnar

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.