fbpx
Þriðjudagur 07.maí 2024

Þunnt handrit í fallegum umbúðum

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 28. september 2016 12:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hefur verið mikið lán fyrir íslenska þjóð að fá að njóta listrænna hæfileika hins margverðlaunaða brúðumeistara, Bernds Ogrodniks, sem sest hefur hér að og sett upp fjölmargar rómaðar brúðuleiksýningar á liðnum árum. Að þessu sinni hafa Brúðuheimar Bernds hreiðrað um sig uppi á leikhúslofti Þjóðleikhússins. Rýmið er lítið og notalegt og hentar brúðuleiksýningum alveg ágætlega. Það er þó ástæða til þess að nefna það við gesti að vera léttklæddir og klæða jafnvel yngstu börnin úr skónum áður en sýning hefst, því í salnum verður svolítið heitt vegna lýsingarinnar.

Fílastelpa mætir íslensku sauðkindinni

Íslenski fíllinn er saga um litla afríska fílastelpu, Ayodele, sem í upphafi sýningarinnar missir báða foreldra sína vegna þurrka og hungurs á sléttunni. Hún heldur því bæði svöng og hnuggin af stað í leit að fæði. Á leið sinni finnur hún vatn en það er vaktað af grimmum krókódíl sem bítur hana í ranann þegar hún freistast til þess að svala þorsta sínum. Hún finnur líka laufgaðan trjárunna en ógnarlangur gíraffi vill ekki deila honum með henni. Að lokum flögrar til hennar lítil kría sem ráðleggur henni að fara til Íslands. Þar sé nóg af vatni og grasi.

Ferðin til Íslands reynist Ayodele erfiðari en hún hafði gert sér í hugarlund og hún er við það að drukkna þegar hún rekst á stóran hval sem býðst til þess að synda með hana alla leið til Íslands. Fyrst í stað lítur út fyrir að gæfan hafi snúist Ayodele í hag eftir að hún kemur hingað til lands. Nóg er af vatni og grasi. En þá koma kindurnar. Þær hafa bókstaflega allt á hornum sér varðandi hinn framandi fíl og vilja flæma Ayodele í burtu. Hún leitar þá upp til fjalla til að freista þess að ná tali af fjallbúanum sem þar býr á toppnum. Hann er alvitur og ef til vill sá eini sem leitt getur Ayodele úr vanda sínum. Tvær hagamýs, hrafn, hross og belja styðja Ayodele áfram og slást í för með henni upp á fjall.

Á leiðinni ganga þau fram á kind sem fallið hefur í djúpt og þröngt gil eftir að hafa lent í snjóflóði. Engar hefðbundnar björgunaraðferðir duga til að koma kindinni upp en þá kemur sérstaða Ayodele að góðum notum. Hún bjargar kindinni upp með rananum, vinnur þar með kindurnar á sitt band og fær í kjölfarið landvistarleyfi hjá fjallbúanum á toppnum, sem reynist vera refur.

Dugar gestrisni og lopapeysa?

Bernd galdrar fram einstaklega fallegar myndir á sviðið með ýmsum brögðum og brellum. Brúðurnar eru algjör galdrasmíði og bókstaflega allt virðist geta gerst á sviðinu. Gallinn er bara að þegar töfrarnir gerast þá eru þeir látnir standa svo lengi að maður fær leiða á þeim. Sýningin er mjög langdreginn, sérstaklega fyrri parturinn. Það er ekki fyrr en í seinni hlutanum þegar hagamýsnar skjóta upp kollinum ásamt auðvitað íslensku sauðkindinni, að örlítið fjör færist í leikinn.

Sagan er afskaplega einföld og boðskapur hennar skýr; við eigum að taka vel á móti þeim sem hingað leita eftir dvalarleyfi vegna erfiðleika heima fyrir og taka þeim með opnum örmum. Þeir sem hafa aðrar skoðanir eiga að hætta að hafa þær. En raunveruleikinn er ekki svona einfaldur og verkið hefði verið svo miklu áhugaverðara ef höfundar þess hefðu kafað dýpra og trúað yngstu áhorfendunum fyrir vanda Afríku og ráðaleysi Evrópu. Trúað þeim fyrir því að við, fullorðna fólkið í Evrópu og Afríku, erum að falla á samfélagsprófi samtímans.

Leysir það vandann að taka á móti öllum hingað til Íslands? Hverjum tökum við á móti, ef ekki öllum? Hvað ef gíraffinn hefði komið hingað ásamt krókódílnum? Eigum við að vera jafn vinsamleg við þá og fílinn og ef ekki, þá af hverju ekki? Getum við kannski hjálpað þeim að verða góðir líka? Og hvað getum við gert fyrir allar fílaömmurnar og mömmurnar og dæturnar sem lifa við ömurlegar aðstæður heima fyrir á meðan karlfílarnir halda til Evrópu? Urðu höfundarnir ekkert hræddir um Ayodele þegar hún þáði far með ókunnugum hval til Íslands? Var ekkert mál fyrir Ayodele að læra íslensku og langar hana aldrei aftur heim? Hvers vegna voru kindurnar svona andsnúnar henni? Og hvernig stendur á því að kindunum er svo alveg sama um kríurnar sem þó þyrpast hingað í stórum flokkum árlega? Hvernig er best að taka á móti fílum til landsins og hvað þurfa þeir annað en lopapeysu, líkt og í leikritinu, til þess að verða virkir þjóðfélagsþegnar?

Lapþunnt og langdregið

Spurningarnar eru óteljandi. Það hefði verið gaman ef höfundar Íslenska fílsins hefðu glímt við einhverja þeirra með okkur áhorfendum í stað þess að boða aðeins eina lausn kryddaða gamaldags pólitísku háði. Gera má meiri kröfur til barnasýninga í Þjóðleikhúsinu. En sýningin er myndrænt mjög falleg og vel tæknilega leyst. Raddir leikaranna sem tala fyrir brúðurnar eru ágætlega unnar en þar fara fremstir Snorri Engilbertsson og Oddur Júlíusson, sem töluðu fyrir mýsnar. Handritið er hins vegar lapþunnt og sýningin langdregin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Tindastóll þarf að spila á Akureyri eftir leysingar

Tindastóll þarf að spila á Akureyri eftir leysingar
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Einar slekkur í grillinu og Húsasmiðjan tekur við vörumerkjunum

Einar slekkur í grillinu og Húsasmiðjan tekur við vörumerkjunum
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Tottenham og West Ham berjast um enska landsliðsmanninn

Tottenham og West Ham berjast um enska landsliðsmanninn
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Forsetinn staðfestir að Greenwood sé til sölu

Forsetinn staðfestir að Greenwood sé til sölu
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

BeFit Iceland fagnaði fimm ára verslunarafmæli – „Eina sem kemur upp í hugann er endalaust þakklæti“

BeFit Iceland fagnaði fimm ára verslunarafmæli – „Eina sem kemur upp í hugann er endalaust þakklæti“
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Valgerður kenndi sér um í mörg ár þegar gerandi hennar framdi sjálfsvíg – Segir þolendur hans vera marga

Valgerður kenndi sér um í mörg ár þegar gerandi hennar framdi sjálfsvíg – Segir þolendur hans vera marga
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Þetta borga liðin á Englandi í laun á þessu tímabili – United borgar 12 milljörðum meira en Liverpool

Þetta borga liðin á Englandi í laun á þessu tímabili – United borgar 12 milljörðum meira en Liverpool
Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Áhersla á hið þjóðlega – þjóðarstolt en ekki þjóðernishyggja

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Áhersla á hið þjóðlega – þjóðarstolt en ekki þjóðernishyggja
433
Fyrir 8 klukkutímum

Án þess að æfa hlóð Gylfi í þessa frammistöðu – Tölfræði hans varnarlega vekur sérstaka athygli

Án þess að æfa hlóð Gylfi í þessa frammistöðu – Tölfræði hans varnarlega vekur sérstaka athygli