fbpx
Sunnudagur 09.ágúst 2020

Oddviti Flokks fólksins átti samkynhneigðan mann: „Ég geri allt fyrir hann“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 20. maí 2018 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbrún Baldursdóttir hefur um árabil verið einn öflugasti málsvari barna. Sem starfandi sálfræðingur til 25 ára hefur hún unnið mikið með börnum sem eiga mjög bágt. Nú ætlar hún að að færa baráttuna gegn óréttlæti, mismunun og fátækt inn í sal borgarstjórnar sem oddviti Flokks fólksins í Reykjavík. Kolbrún var gift Vigni Jónssyni, sem kom út úr skápnum sem samkynhneigður maður árið 1983. Kristinn hjá DV ræddi við Kolbrúnu og Vigni.

 

„Ég berst af hugsjón fyrir fallegan málsstað, ég er ekki í neinni vinsældakeppni“

Féll strax fyrir stefnu Flokks fólksins

Kolbrún er fædd og uppalin í Reykjavík og hefur starfað sem klínískur sálfræðingur síðan árið 1992 eftir að hún sneri heim úr námi frá Bandaríkjunum. Hún hefur auk þess starfað í góðgerðarmálum og var formaður Barnaheilla frá 2012–2018. Kolbrún leiðir nú lista Flokks fólksins, sem býður fram í fyrsta sinn til borgarstjórnar í Reykjavík. Hún er þó ekki ókunn stjórnmálunum því hún er varaþingmaður Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Kolbrún kynntist Ingu Sæland síðasta sumar en fannst þó einhvern veginn eins og þær hefðu alltaf þekkst og verið vinkonur. Á þeim tímapunkti var flokkurinn að mælast hátt í skoðanakönnunum og Inga sífellt að verða meira áberandi í þjóðfélagsumræðunni.

„Stefna Flokks fólksins var eins og snýtt út úr nösunum á mér og Inga var kona sem mig langaði að kynnast. Hún segir hlutina hreint út og eignast kannski fullt af óvinum fyrir vikið. En henni er bara alveg sama. Það sama á við um mig, ég berst af hugsjón fyrir fallegan málstað, ég er ekki í neinni vinsældakeppni.“

Kolbrúnu bauðst að vera oddviti Flokks fólksins í Reykjavík og svo sannarlega tók ég því af auðmýkt. Það eru svo mörg málefni sem eru mín hjartans mál. Þess vegna vil ég komast að stjórnartaumunum. Ég hreinlega brenn fyrir því að mega hjálpa fólkinu okkar sem á um sárt að binda. Skólamálin og börnin eru mér sérstaklega hugleikin enda hef ég mikla reynslu af störfum mínum með þeim, bæði sem skólasálfræðingur og gegnum störf mín hjá Heilsugæslunni. Ég mun aldrei gleyma að börnin okkar eru fjársjóður framtíðar og við verðum að gæða líf þeirra eins mikilli hamingju og barnslegri gleði og nokkur kostur er.

Að eiga öruggt heimili er algjör forsenda fyrir velferð fjölskyldunnar. Algjör forsenda fyrir öryggi barnsins. Stefna Flokks fólksins í húsnæðismálum er því algjör hornsteinn til betra lífs í borginni fyrir alla. Við viljum afnema ríkjandi lóðaskortsstefnu og koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi. Til þess þurfum við að fá lífeyrissjóðina og ríkið til liðs við okkur. Við mismunum ekki borgurunum og viljum aðgengi fyrir alla. Við viljum tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Við munum þrífa götur borgarinnar, stórefla almenningssamgöngur og losa um flöskuhálsa í umferðinni. Einkabíllinn er vinur okkar, sem og flugvöllurinn í Vatnsmýrinni.

Kolbrún segir ánægjulegt að aðrir flokkar séu búnir að taka upp stefnu flokksins í mörgum málaflokkum.

„Mér finnst merkilegt að sjá aðra flokka vera að gera stefnuna okkar að sinni. Það segir mér einfaldlega að þeir hafa enga hugsjón sjálfir fyrir því sem þeir eru að gera. Nei, þeir eru að gera út á það sem þeir telja að muni selja og fá kjósendur til að kjósa sig. Ég trúi því hins vegar ekki að það sé nóg að tileinka sér stefnu annarra um málefni sem viðkomandi hefur ekki virt viðlits í stjórnartíð sinni. Kjósendur sem búa við verkin þeirra hafa engu gleymt. Nú er t.d. oddviti Vg farinn að tala um að endurreisa verkamannabústaðakerfið. En það er eitt af aðalbaráttumálum Flokks fólksins og hefur verið frá stofnun hans. Hvar eru 3.000 íbúðirnar sem átti að byggja á kjörtímabilinu? Félagslegum íbúðum í eigu borgarinnar hefur mörgum verið illa við haldið, eru heilsuspillandi, fangnar af myglu og raka. Hver trúir þessum hola hljómi sem er án nokkurs raunverulegs vilja til að breyta í þágu þeirra sem þurfa á hjálpinni að halda? Ekki ég. Þess vegna bið ég ykkur að varast eftirlíkingar, þær virka aldrei eins og hið sanna.“

 

Skóli án aðgreiningar er að eyðileggja framtíð þúsunda barna

Kolbrún er alvarleg í bragði þegar hún segir:

„Skóli án aðgreiningar eins og hann er rekinn nú er ekki að virka. Þetta er ónýtt kerfi sem er að eyðileggja framtíð þúsunda barna. 30% drengja útskrifast eftir 10 ára skólagöngu, illa læsir og eða með lélegan lesskilning. Þetta er algjör þjóðarskömm. Það þarf miklu meira utanumhald með hverju og einu barni, hætta að troða þeim öllum í sama boxið þrátt fyrir gjörólíkar þarfir þeirra. Það þarf að fullnægja þörfum þeirra allra, við þurfum fleiri sálfræðinga, iðjuþjálfa, þroskaþjálfa, aðstoðarfólk. Skólahúsnæði víða er ekki einu sinni hentugt fyrir þá sem eru þroskahamlaðir. Þú getur ekki sett alla undir sama hatt í einhverri byggingu. Við erum að sliga kennara af álagi og um leið erum við að missa þá frá okkur til annarra starfa og fæla unga fólkið frá því að fara í kennaranám. Við verðum að gjörbreyta kennsluháttum í grunnskólanum og það í samvinnu við kennarana og það strax. Allt of mörgum börnum líður mjög illa í skólanum.

Sem sálfræðingur fæ ég mörg þessara barna til mín. Sum þeirra treysta sér ekki til að vera í skólanum lengur. Þau hætta að mæta. Afleiðingarnar eru grafalvarlegar. Þau eru buguð af vanlíðan og kvíða og segjast jafnvel vilja deyja. Allt þetta er í boði núverandi borgarstjórnar. Lítið sem ekkert er gert úr vandanum og gagnrýni afskrifuð sem dylgjur og rugl.“

Kolbrún vill berjast fyrir meira sjálfstæði skólanna, að þeir velji hvaða reglur og stefnur þeir setja sér. Hverfin séu mörg hver ólík og þarfir nemendanna ekki alltaf þær sömu. Þá vill hún efla sérskólana til muna og gera börnum auðveldara um vik til að komast inn í þá.

„Börn sem eru rétt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem sett eru varðandi vitsmunaþroska þeirra, lenda í almennum bekkjum og eiga þá oft mjög erfitt uppdráttar. Þau börn sem hins vegar komast í sérskóla kynnast venjulegu skólalífi á sínum forsendum. Þar geta þau lært eins og aðrir, sinnt félagslífi og verða ekki fyrir aðkasti enda eru þau þar meðal jafningja. Skóli án aðgreiningar er falleg hugsjón sem er alls ekki að virka.“

Ertu hlynnt einkarekstri í skólum?

„Það eru kostir og gallar en ég er alltaf dálítið hrædd við einkarekstur því að þegar rekstur er hagnaðardrifinn kemur það því miður oft niður á þjónustunni. Ég vil frekar sjá sérúrræði innan opinberu skólanna og aukið fjármagn.“

„Það er neyðarástand í húsnæðismálum og það þarf neyðaraðgerðir“

Ekki lengur miðborgin mín

Annað höfuðmálefni Flokks fólksins er að allir geti fengið þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði. Kolbrún segir að sú þéttingarstefna sem rekin er af meirihlutanum nú sé ekki gerð fyrir hinn almenna borgara og þá sem haldið er hér í fátækt.

„Við sáum í fréttum að það er verið að byggja fjögur hundruð milljóna króna íbúðir með útsýni að Hörpunni. 101 er ekki lengur miðborgin mín. Ég er alin upp í Vesturbænum og lék mér í kringum Tjörnina. Þessi miðborg er aðeins fyrir auðjöfra og ferðamenn. Við hin, hinn sauðsvartur almúginn, getum verið annars staðar. Kannski einhvers staðar í tjaldi, þó ekki lengur í Laugardalnum.“

Hvar viljið þið byggja?

„Hvar sem hægt er að byggja. Það vantar íbúðir á við heilan Mosfellsbæ Það er neyðarástand í húsnæðismálum og það þarf neyðaraðgerðir, rétt eins og í Eyjagosinu og þegar við byggðum upp Breiðholtið á sínum tíma. Það er til nóg af lóðum innan borgarmarkanna.“

Hvernig á að fjármagna alla uppbygginguna?

„Ég hef áður vísað til þess að við viljum samvinnu við lífeyrissjóði og ríkið. Ef allir leggjast á árarnar þá munum við lyfta algjöru grettistaki í því að koma fólkinu okkar í öruggt skjól. Þessi sérstaka uppbygging félagslegs húsnæðiskerfis mun ekki einkennast af græðgisvæðingu heldur verður hún algjörlega óhagnaðardrifin. Kjörorðið okkar er Fólkið fyrst.“

Bent hefur verið á að nágrannasveitarfélög beri einnig ábyrgð og Kolbrún tekur heilshugar undir það. Hún segir að borgin geti þó ekki vikist undan ábyrgð með því að benda á vankanta annars staðar. Stefna Flokks fólksins er skýr í þessum efnum, það er að sameina eigi öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, til að samrýma kerfi og minnka yfirbyggingu.

„Við getum ekki haft bæjarfélög fyrir útvalda eins og til dæmis Seltjarnarnes og Garðabæ. Álagið lendir þá af meiri þunga á Reykjavík sem er ekkert annað en mismunun. Ég held að það verði stutt í að þetta komist til tals á Alþingi.“

Kolbrún vill minnka flækjustigið hjá stjórnsýslu borgarinnar, fækka nefndum og einfalda kerfið. Borgarstjóri beri á endanum ábyrgðina en langar boðleiðir til hans og úrvinnsluferli þar sem einn bendir á annan valdi óréttlætanlegum töfum á málefnum þeirra sem reiða sig á kerfið.

 

Grét þegar bíllinn var dreginn burtu

Núverandi meirihluti borgarstjórnar er með algjörlega brenglaða forgangsröðun að mati Kolbrúnar. Henni fallast hendur þegar umræðan beinist sífellt að grænni borg, þéttingu byggðar og borgarlínu. Í samgöngumálum vill Flokkur fólksins efla strætisvagnakerfið, þannig að það virki fyrir allra með tíðum ferðum. En þrenging gatna og fá bílastæði er orðið stórt vandamál að mati Kolbrúnar.

„Ég fékk símhringingu frá Landspítalanum þar sem mér var sagt að móðir mín væri að deyja. Ég þusti af stað en fann hvergi bílastæði við spítalann. Í örvæntingu lagði ég á ólöglegum stað og hljóp inn. Þegar ég kom út af spítalanum, tveimur tímum síðar, var búið að draga bílinn minn í burtu. Ég settist niður á götuna og fór að hágráta.“

Auk þess er margt í samgöngukerfinu sem virkar ekki, eins og til dæmis ljósakerfið. Karl Berndsen, öryrki og hárgreiðslumeistari, er í öðru sæti á listanum. Hann er lögblindur og gerði úttekt á gönguljósum.

„Hann komst að því að um 60 til 80 prósent ljósanna virkuðu ekki fyrir blinda. Þessu er komið upp en síðan er því ekki haldið við. Þetta er dæmi um nauðsynlega þjónustu fyrir fatlað fólk og það gengur ekki að þetta sé svona.“

 

„Á þessum tíma sá ég ekki annað fyrir mér en að við myndum alltaf vera saman“

Kynntust í dansi

Kolbrún ólst upp við ákaflega erfiðar aðstæður á Víðimelnum. Foreldrar hennar skildu þegar hún var fimm ára þar sem faðir hennar var alkóhólisti og drakk orðið ótæpilega og illa. Móðir Kolbrúnar vann við símavörslu og skúraði á kvöldin til að sjá fjölskyldunni farborða en Kolbrún er yngst fjögurra systkina. Á þessum árum var mikil fátækt. Kolbrún fór í sveit á Grund í Eyjafirði fermingarárið sitt og þegar hún kom aftur heim hafði móðir hennar tekið saman við annan alkóhólista.

„Ég man eftir mikilli vanlíðan og einmanaleika á þessum tíma. Ég var hávaxin og rengluleg og átti aðeins eina vinkonu. Síðan fann ég til minnimáttarkenndar vegna fátæktarinnar og af því að pabbi minn var drykkjumaður og það vissu allir. Ég gat aldrei boðið neinum heim í 40 fermetra þakíbúð þar sem við bjuggum systkinin og mamma. Mamma stritaði mikið en oft var ekki mikið til í ísskápnum. Ég skrifaði grein um daginn með titlinum „Tómatsósa og smjörlíki“ því það var það eina sem til var í ísskápnum þann daginn. Svona var lífið.“

Menntun var leiðin sem Kolbrún sá út úr þessu ástandi. Hún gekk í Verslunarskólann og byrjaði að æfa dans hjá Heiðari Ástvaldssyni. Þar kynntist hún ungum manni, Vigni Jónssyni, sem var valinn sem dansfélagi fyrir hana. Þau æfðu stíft og komu fram á mörgum sýningum og fljótlega urðu þau náin. Kolbrún og Vignir felldu hugi saman og að lokum flutti Kolbrún heim til hans. Sjálf segist Kolbrún ekki síður hafa verið að flýja aðstæður heima fyrir. Nýja fjölskyldan tók henni opnum örmum. Það glaðnar yfir Kolbrúnu þegar hún minnist þessa tíma:

„Foreldrar hans urðu eiginlega mínir foreldrar. Þar fann ég loksins frið, ást og hlýju, hvatningu og ró. Við vorum í námi og unnum saman á Laugarvatni á sumrin. Við áttum fimm góð ár í dansinum og á síðustu sýningunni okkar árið 1980 var ég orðin barnshafandi af dóttur okkar, Karen Áslaugu. Þetta var mjög skemmtilegur tími.“

 

„Viggi, þú ert hommi“

Kolbrún útskrifaðist úr Verslunarskólanum og Vignir úr Kennaraháskólanum og saman fluttu þau á Stokkseyri þar sem þau kenndu bæði í barnaskólanum. Vorið 1981 var Karen Áslaug skírð og gengu Kolbrún og Vignir í hjónaband.

„Brúðkaupið fór allt í vaskinn. Ég fékk hárgreiðslu eins og fermingarbarn, kakan var glerhörð og óæt og brúðarvöndurinn hrundi í sundur í miðri athöfn. Vignir hafði keypt sér hvíta skó sem voru svo þröngir að það blæddi úr hælnum á honum og hann varð haltur. Þetta var algjörlega misheppnað,“ segir Kolbrún og hlær.

Um það bil þremur árum síðar varð það æ ljósara að hjónabandið var ekki alveg eins og það átti að vera. Þau voru miklir vinir, sálufélagar og ræktuðu hlutverk sitt sem foreldrar dyggilega en samt vantaði eitthvað.

„Á þessum tíma sá ég ekki annað fyrir mér en að við myndum alltaf vera saman, sérstaklega af því að við áttum þetta yndislega barn. En þegar við fluttum til Reykjavíkur árið 1983 vorum við búin að uppgötva að hjónabandið gengi ekki og það var farið að renna upp fyrir mér að hann væri samkynhneigður. En það var ekkert talað um svona hluti á þessum tíma, þetta var algjört tabú. Það var erfitt að koma orðum að þessu en eitt kvöldið þegar við sem oftar sátum og spjölluðum sagði ég við hann: Viggi, þú ert hommi.“

Kolbrún, Vignir og barnabörnin

Óttaðist að hann yrði fyrir aðkasti

Hvaða merki varstu búin að sjá?

„Það var engin tenging á þessu sviði. Ég var farin að upplifa samband okkar eins og systkina frekar en hjóna. Hann hafði jú eitt sinn sagt eitthvað í þá áttina að hann upplifði stundum einhverja svona skrítna tilfinningu gagnvart karlmönnum, þó engum einum. Þá var ég ófrísk að Karen og ég man ég sagði já já, en þetta verður allt í lagi þegar við verðum búin að eiga barn og orðin fjölskylda. Þetta er eiginlega svona eina merkið sem ég varð vör við þegar ég hugsa til baka en mér datt ekki í hug hvert stefndi. Púslin röðuðust upp smám saman og einn daginn blasti þetta við. Það var hvorki gott fyrir mig né hann.“

Leið ykkur illa?

„Já, að mörgu leyti, en maður var bara ekki með það á hreinu hvernig þetta ætti í rauninni að vera. Ekki vorum við ósátt við hvort annað, rifumst aldrei og vorum bara á fullu við að eignast íbúð, vinna og vera foreldrar, og ég í námi við Háskóla Íslands. En svo blasti það bara við að þetta var ekki að gera sig, fyrir hvorugt okkar.“

Karen Áslaug, Kolbrún og Vignir á Menningarnótt

Hafði Vignir verið í samskiptum við einhvern mann?

„Nei, það var fullkomið traust á milli okkar. Ég hafði í raun og veru frumkvæði að því að opna á umræðuna um skilnað. Ég efaðist heldur aldrei um að hann raunverulega elskaði mig. Vignir er maður sem getur aðlagast öllu og hefði þess vegna getað verið á Stokkseyri endalaust. Hann er svo rólegur og yfirvegaður. Stundum hugsa ég um að ef ég hefði ekki haft þetta frumkvæði þá værum við kannski enn þá gift,“ segir Kolbrún og flissar. „Hann var sjálfur ekki búinn að átta sig á því hvað var að gerast eða í það minnsta ekki tilbúinn að orða það að fyrra bragði.“

Kolbrún og Vignir skildu sama ár og þau fluttu til Reykjavíkur. Þá var Kolbrún komin í háskólanám og Vignir fékk kennarastöðu í Laugarnesskóla. En þau bjuggu þó saman enn um sinn.

Var það ekki erfitt?

„Nei, alls ekki, við vorum svo góðir vinir. Ég var þó mjög kvíðin fyrir hans hönd, bæði hvernig þessu yrði tekið og hvernig hann myndi fóta sig í tilverunni eftir að allt kæmi upp á yfirborðið. Svo kom að því að það þurfti að opinbera þetta og ég kveið mikið fyrir því þegar hann þurfti að segja foreldrum sínum frá, sérstaklega föður sínum, sem var mjög ákveðinn maður og auðvitað af kynslóð þar sem samkynhneigð var bara einhvern veginn ekki inni í myndinni. Ég óttaðist mikið að hann yrði fyrir aðkasti og útskúfun.“

Hvernig leið þér að fara út úr hjónabandinu?

„Á tímabili var ég með sektarkennd þar sem ég átti frumkvæðið. Líka af því að hann flutti út og í íbúð sem honum leið frekar illa í. Sjálf hef ég alltaf verið hreinskilin og sterk. Ég hafði engar áhyggjur af sjálfri mér. Um tíma leit út eins og ég væri eins konar sökudólgur, sú sem vildi skilnað og svo framvegis. Við þögðum nefnilega um það lengi vel hver hin raunverulega ástæða skilnaðarins var.“

„Brúðkaupið fór allt í vaskinn“

Áratuga vinskapur

Nokkru eftir skilnaðinn giftist Kolbrún aftur og fluttu þau hjónin til Rhode Island árið 1986 þar sem bæði stunduðu nám. Kolbrún lagði þar stund á sálfræði og menntunarfræði. Þá var Karen Áslaug fimm ára og þurfti því að sjá á eftir pabba sínum.

„Bæði gættum við þess vel að Vignir og Karen Áslaug hefðu mikið og gott samband þrátt fyrir fjarlægðina. Samskipti þeirra einkenndust af síma og bréfaskriftum á þessum tíma. Vignir flaug út um jól og dvaldi hjá okkur í allt að þrjár vikur. Á sumrin fór Karen Áslaug til Íslands og var hjá pabba sínum. Kolbrún segir að umræðan um samkynhneigð hafi þá verið komin miklu lengra í Bandaríkjunum en hér á Íslandi og umræðan um HIV var þar í algleymingi og þá að mestu tengd við samkynhneigð. Ég man ég fylltist gríðarlegum óróleika yfir þessri umræðu, varð svo svakalega hrædd um Vigga og var umhugað um að segja honum frá öllu því sem ég var að læra um HIV þarna úti. Ég man ég hringdi eitt sinn í hann, minnir það hafi verið í desember 1989 eða 1990, og sagði að hann yrði að passa sig á þessu og hélt heilan fyrirlestur um þessi mál. Hann hlustaði af yfirvegun, bara svona eins og hann er vanur að gera.“

Þegar Kolbrún flutti aftur til Íslands var Karen Áslaug á tíunda ári og hóf nám í Laugarnesskólanum þar sem Vignir kenndi.

„Ég óttaðist að henni yrði strítt því að margir vissu að pabbi hennar var samkynhneigður. Ótti minn var ástæðulaus. Það var ekki talað neitt sérstaklega um þetta og ég man ekki eftir einu einasta tilfelli þar sem Karen Áslaugu var strítt vegna þessa.“

Kolbrún og Vignir hafa haldið góðum vinskap allar götur síðan þau skildu. Þau hafa stutt hvort annað á erfiðum stundum. Þau hittast í matarboðum, kaupa saman föt, aðstoða í starfi og fara reglulega saman til Stokkseyrar að hitta gamla kunningja.

Þegar þú lítur til baka, hvaða tilfinningar vakna um þennan tíma?

„Þetta var mjög skemmtilegur tími sem ég hefði aldrei viljað missa af. Enda erum við mjög gæfuríkt fólk í dag og miklir vinir. Dóttur okkar hefur líka gengið vel í lífinu, var ári á undan í skóla og er auk þess fædd 28. desember en dúxaði engu að síður í Verslunarskólanum og er hagfræðingur í Seðlabankanum í dag. Hún naut góðs af því að horfa á foreldra sína halda svo góðum vinskap og vera svona náin. Við höfum verið mikið saman bæði í daglega lífinu og á stórhátíðum. Okkur þykir afar gaman að vera með barnabörnum okkar, með dóttur og tengdasyni og mökum okkar. Fólk spyr mig stundum hvort ég hafi ekki orðið fyrir rosalegu áfalli og reiði þegar ég komst að því að Viggi væri samkynhneigður. Nei, það var aldrei svo, þegar þú elskar einhvern nær reiði aldrei í gegn. Ég myndi gera allt fyrir hann Vigga og hann er hluti af mér enda höfum við fylgst að frá 16 ára aldri. Fjölskyldan hans öll er og verður alltaf mín fjölskylda og foreldrar hans, sem eru látnir, voru bestu og yndislegustu tengdaforeldrar sem hægt er að hugsa sér. Þau gengu mér í föður og móður stað og ég sakna þeirra hvern einasta dag.“

 

 

Tangó úr Klúbbnum

Vignir Ljósálfur Jónsson er uppalinn í Sandgerði þar sem foreldrar hans ráku verslunina Nonna og Bubba, miðbarn í fimm systkina hópi. Hann sótti héraðsskólann að Laugarvatni sem unglingur og útskrifaðist sem kennari úr Kennaraháskóla Íslands árið 1980. Sama ár útskrifaðist Kolbrún úr Verslunarskólanum. Karen Áslaug, dóttirin, er fædd í desember 1980. Vignir kynntist samkvæmisdönsum tólf ára þegar Heiðar Ástvaldsson hélt námskeið í Sandgerði en hann byrjaði ekki að æfa dans fyrr en hann var orðinn nítján ára. Í Dansskóla Heiðars kynntist hann Kolbrúnu.

„Dansinn átti hug okkar allan og fljótlega urðum við mjög náin og trúlofuðum okkur 1975,“ segir Vignir og brosir. „Við dönsuðum á mörgum sýningum og þetta var æðislegur tími. Fjölskylda mín er þannig að þegar einhver kemur með maka inn í hana er honum ávallt tekið opnum örmum og þannig var það líka með Kollu. Hún og foreldrar mínir náðu vel saman og mamma og hún voru mjög nánar.“

Vignir minnst þessa tíma með mikilli hlýju:

„Í eitt skiptið vorum við að dansa á hinum þekkta skemmtistað Klúbbnum við Borgartún. Þegar búið var að loka dönsuðum við tangó alla leiðina upp á Skúlagötu þar sem systir Kollu bjó. Þá kom lögreglubíll og keyrði hægt við hliðina á okkur. Lögreglumennirnir hafa ábyggilega haldið að við værum ekki í lagi eða á einhverju.“

„Sem unglingur átti ég kærasta en þá var ég enn inni í skápnum og ekki beint að setja þetta í samhengi við að vera samkynhneigður“

Komið að leiðarlokum sem hjón

Þegar þau fluttu aftur til Reykjavíkur eftir að hafa verið við kennslu á Stokkseyri í þrjú ár var myndin að byrja að skýrast og orðið tímabært að horfast í augu við að Vignir væri samkynhneigður. Stuttu eftir að ákvörðun var tekin um skilnaðinn kom hann opinberlega út úr skápnum.

Hvenær áttaðir þú þig á því að þú værir samkynhneigður?

„Það var eitthvað sem gerðist á löngum tíma. Þetta blundaði alltaf hjá mér. Sem unglingur átti ég kærasta en þá var ég enn inni í skápnum og ekki beint að setja þetta í samhengi við að vera samkynhneigður. Ég leit á þetta sem einhvers konar leik eða fikt enda ekki mikið talað um homma og lesbíur á þeim árum,“ segir Vignir. „Þegar ég flutti í bæinn, hitti Kollu og varð bálskotinn í henni, þá var hitt ekkert lengur inni í myndinni. Þetta var eitthvað sem ég hafði prófað og hafði góðar minningar um en að vera samkynhneigður var ekki hluti af sjálfsmyndinni þá.“

Hvernig leið þér í gagnkynhneigðu hjónabandi?

„Mér leið vel mest allan tímann en undir lokin var ég líka farinn að finna að þetta var ekki eins og það átti að vera. Árin okkar Kollu urðu níu alls og þetta var skemmtilegur tími, það var mikið að gera hjá okkur, í námi og störfum bæði í Reykjavík og á Stokkseyri. En þegar við fluttum aftur til Reykjavíkur og það fór að hægjast um hjá okkur, Karen orðin þriggja ára, þá fann ég, þótt ég hafi ekki átt frumkvæði að þessari umræðu eða hugmyndinni um að skilja, að ég hafði þessa þörf. Hjónabandið nægði hvorugu okkar.“

Varstu í afneitun?

„Nei, ég lít ekki á það þannig. Það var eins og ég þyrfti þennan tíma til þess að geta stigið þetta skref. Ég er forlagatrúar og veit að ef við hefðum ekki átt þennan tíma þá ættum við ekki Karen Áslaugu og þrjú barnabörn saman. Hvorki mér né henni fannst við hafa verið svikin eins og algengt er í svona tilvikum. Allan tímann okkar saman ríkti alltaf mikið traust á milli okkar og að mörgu leyti var þetta hjónaband bara eins og hvað annað.“

„Þetta var í raun spurning um hvort okkar yrði fyrst til að finna annan mann“

Vandræðalegt ástand

Vignir og Kolla bjuggu áfram saman í nokkurn tíma eftir skilnaðinn og sögðu fjölskyldu og vinum ekki samstundis frá ástæðunni fyrir honum. Vignir segir að þau hafi bæði verið farin að líta fram á veginn og komast í annað samband. Hann brosir aftur þegar hann segir frá þessu:

„Þetta var í raun spurning um hvort okkar yrði fyrst til að finna annan mann og þá myndum við hætta að búa saman. Þetta var orðið svolítið vandræðalegt ástand. Ég var samt ekkert að flýta mér í þeim efnum.“

Á þeim tíma var lítil umræða í gangi um samkynhneigð og Vignir vissi ekki hvernig foreldrar hans, systkini og vinir myndu taka fréttunum þegar hann segði frá.

„Skömmu áður en ég fór út til Bandaríkjanna, til þess að heimsækja Kollu og Karen, sagði ég móðursystur minni frá því að ég væri hommi og væri kominn með kærasta. Hún bauðst til að segja mömmu frá þessu í góðu tómi ef ég vildi og ég var sáttur við það. Ég sagði foreldrum mínum því aldrei formlega frá þessu. Á jólunum fékk ég símtal frá foreldrum mínum og vissi þá að þau vissu þetta. Það var ekkert talað beint um samkynhneigð mína en ég fann fyrir miklum létti. Ári síðar, þegar ég var farinn að búa með mínum kærasta, Tóta, þá fengum við í jólagjöf frá foreldrum mínum hvor sína slaufuna og steikarpönnu. Það var táknrænt samþykki þeirra fyrir okkar sambandi.“

En fannstu fyrir fordómum frá öðrum?

„Ég fann ekki fyrir neinum fordómum gagnvart okkur og enginn sneri við okkur bakinu. Við vorum ekki mikið að flagga þessu út á við en við vorum heldur ekkert að fela sambandið.“

Eins og Kolbrún lýsti þá hefur vinskapur hennar og Vignis haldist óslitinn í þau þrjátíu og fimm ár sem liðin eru frá skilnaðinum. Í gegnum súrt og sætt hafa þau staðið saman og horft á barnið og barnabörnin vaxa. Samband þeirra er mun sterkara en flestra annarra fráskildra hjóna.

„Margir skildu það ekki hvernig við gátum haldið svona miklum vinskap eftir skilnaðinn. En þetta var svo eðlilegt fyrir okkur. Ég get alltaf leitað til Kollu og hún til mín.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Að „passa“ saman
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Fleiri starfsmenn hjá útgáfufélagi Fréttablaðsins og DV í sóttkví

Fleiri starfsmenn hjá útgáfufélagi Fréttablaðsins og DV í sóttkví
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Páll segir að staðan sé óþægileg og erfið – „Við höfum ekki fengið fullnægjandi svör“

Páll segir að staðan sé óþægileg og erfið – „Við höfum ekki fengið fullnægjandi svör“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum
Að „passa“ saman
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Af hverju þarf að kenna einhverjum um faraldurinn ? „Er það til of mikils mælt að fólk hætti að væla“

Af hverju þarf að kenna einhverjum um faraldurinn ? „Er það til of mikils mælt að fólk hætti að væla“
Eyjan
Fyrir 23 klukkutímum

Guðmundur hjólar í Sigmund – Líkir honum við stuðningsmenn Trump sem neita að nota grímu

Guðmundur hjólar í Sigmund – Líkir honum við stuðningsmenn Trump sem neita að nota grímu
Matur
Í gær

Klikkað kínóasalat með bláberjum og kókos

Klikkað kínóasalat með bláberjum og kókos
433Sport
Í gær

Viðar Örn minnist Einars – „Maðurinn sem gerði mig að manni“

Viðar Örn minnist Einars – „Maðurinn sem gerði mig að manni“