fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Fannst erfitt að sjá manninn sem braut á henni í sjónvarpinu: Skilaði skömminni – Sigurvegari í dag

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Mánudaginn 23. október 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fallegt kvöld í júní og árið er 2012. Ung kona er stödd í heimabæ sínum og er á leið út á lífið. Hún er full tilhlökkunar en kvöldið á eftir að breytast í martröð. Það hefur hún hins vegar ekki hugmynd um þar sem hún er að hafa sig til. Hún veit ekki að síðar þetta sama kvöld á hún eftir að hitta tvo menn sem áttu eftir að gjörbreyta lífi hennar.“

Þannig hefst viðtal á Pressunni sem vakti mikla athygli um helgina. Þar kemur einnig fram að nokkrum árum eftir kvöldið örlagaríka játaði annar maðurinn svívirðilegt brot en hinn hélt fram sakleysi sínu.Unga konan greinir frá því að hún hafi gefið öðrum manninum símanúmer sitt og um nóttina farið til hans upp á hótelherbergi þar sem hann dvaldi. Hún átt aðeins von á að hann yrði þar einn. Segir hún í samtali við Pressuna:

„Allt í einu birtist vinur þessa manns í herberginu hjá okkur og byrjaði að fækka fötum. Það virtist ekki koma hinum neitt á óvart. Ég fraus. Þeir voru þarna aðeins til að þóknast eigin þörfum og löngunum. Þegar þeir höfðu lokið sér af labbaði ég heim til mín grátandi.“

Eftirköstin voru langvarandi, þunglyndi og kvíði. Á endanum hvarf lífsviljinn og unga konan reyndi að fremja sjálfsmorð.

„Ég kenndi sjálfri mér um það sem gerðist, mér fannst ég ógeðsleg og einskis virði. Skömmin og niðurlægingin yfirtók allt,“ segir unga konan í viðtalinu sem hefur eins og áður segir vakið mikla athygli. Fjórum árum síðar sá hún viðtal við sálfræðing sem benti á mikilvægi þess að til að þroskast væri nauðsynlegt að burðast ekki með erfið leyndarmál í lengri tíma. Markmið hennar var að ná bata, elska lífið og sjálfan sig og ná stöðugri líðan. Eitt af fyrstu skrefum í batanum var að segja unnustanum frá því sem hafði gerst. Þegar það erfiða skref var að baki ákvað unga konan að opna sig gagnvart móður sinni. Tilhugsunin um að fleiri í fjölskyldunni fréttu hvað hefði átt sér stað þetta kvöld var nánast óbærileg.

„Í dag fel ég þetta ekki, þetta er hluti af minni sögu og ég er ekki feimin við að ræða mín mál í dag.“

Í janúar á þessu ári var hún að horfa á sjónvarpið þegar annar gerandinn birtist skyndilega á skjánum. Henni fannst hann nú þröngva sér inn í veröld hennar og setti líf hennar úr skorðum. Í kjölfarið tók unga konan erfitt skref og bað móður sína að greina fjölskyldumeðlimum frá því sem hafði gerst. Einnig leitaði hún til Stígamóta. Eftir að hafa séð fyrirlestur með Þórdísi Elvu ákvað unga konan að hafa samband við gerendurna. Hún fann fyrir knýjandi þörf fyrir að þeir gerðu sér grein fyrir hvað þeir hefði gert henni. Til að gera langa sögu stutta sendi hún þeim skilaboð. Í viðtalinu á Pressunni eru mennirnir ekki nafngreindir en er gefið nafnið Siggi og Gunnar. Hún skrifaði:

„Munið þið eftir 22. júní 2012? Núna í um það bil fimm ár hefur mig langað til þess að gleyma þessu kvöldi og ég reyndi það lengi vel, en það er erfitt að muna ekki eftir því þegar að völdin eru tekin af manni. Þetta kvöld tóku þið ákvörðun saman án mín, þar sem ég var vanhæf til þess að gefa eða synja samþykki á kynlífi sökum áfengisneyslu. Vissulega fór ég sjálfviljug heim með öðrum ykkar en það sem gerðist eftir það var ekki með mínum vilja.

Með þessum skrifum þætti mér vænt um að þið mynduð pæla í því að það sem þið gerðuð mér olli mér mikilli vanlíðan. Þið brutuð á mér og líkama mínum. Þetta lét mér líða skítugri og eins og ég væri óverðug um betri framkomu. Virðingin var engin þar sem ég var þarna aðeins til að þóknast ykkar þörfum og löngunum. Mér leið eins og einnota dúkku sem síðan fékk sms daginn eftir um að segja ekki frá, því þið væruð á bömmer.“

Unga konan opnaði sig einnig um sjálfsvígstilraun og að hún endurupplifði ofbeldið. Unga konan hélt áfram:

„Nýverið hefur það reynst mér einstaklega erfitt að sjá annan ykkar í sjónvarpi og mikið á samfélagsmiðlum, þar sem það hefur verið að koma mér algjörlega í opna skjöldu. Ég reyni að forðast það með bestu getu en það hefur gert það að verkum að ég hef þurft að tækla hluti sem ég var alls ekki tilbúin í. Ég skrifa ykkur þetta í von um að snerta við manneskjunni í ykkur.

Vissulega væri ég þakklát ef þið viðurkennduð hvað gerðist og bæðust afsökunar á því, þar sem það myndi lækna mörg sár, en því miður stjórna ég því ekki. Ég vona að þið getið lært af þessu og miðlað reynslunni til drengjanna sem eru í ykkar lífi, kennt þeim að bera virðingu fyrir konum og hjálpað þeim þegar þær geta ekki hjálpað sér sjálfar, í staðinn fyrir að misnota sér aðstæðurnar. Ég vona einnig að þið látið stúlkurnar í ykkar lífi vita að það er aldrei þeim að kenna ef þeim er nauðgað, sama í hvaða ástandi þær eru eða hvernig þær eru klæddar. Þær eru aldrei að biðja um það, alveg sama hvað.“

Siggi svaraði og baðst margsinnis afsökunar. Hann greindi frá því að það sem hann gerði þessa nótt var rangt.

Almáttugur. Ég hreinlega veit ekki hvernig ég get svarað þessu svo vel sé, en ætla að gera mitt besta að koma þessu frá mér. Ég held að það alveg sama hvað ég segi eða skrifa þá muni það aldrei geta bætt upp fyrir það sem þú hefur verið að ganga í gegnum. Ég hef sjálfur oft hugsað til þess atviks en hreinlega hvorki haft kjark né manndóm til þess að gera neitt í því. […] Þú átt svo klárlega ekki að bera einhverja skömm, hún er öll mínu megin.“

Gunnar svaraði:

„Ég verð að segja að ég er alveg miður mín á því hvernig þú hefur upplifað þetta. Aldrei hefur mig órað fyrir því að það gæti verið staðan í algjörri hreinskilni sagt. Og hvað þá að þetta hafi hvílt þetta þungt á þér síðan. Svo sannarlega er þetta atvik sem ég er ekkert ánægður með en upplifun mín á atvikunum var ekki á þann hátt sem þú lýsir. En veistu að þetta lýsir ekki þeim manni sem ég er. Ég hélt að þarna væru bara þrjár drukknar manneskjur að ganga fulllangt í einhverri gleði.

Ég á konu og þrjú börn og þar af tvær dætur. Þetta voru mistök þarna um árið þar sem ég átti þá sömu konu þá líka. Ég hef reynt að hugsa ekki um þetta atvik og viljað gleyma þess vegna, en alls ekki vegna þess sem þú hefur lýst. Ég ber virðingu fyrir þessum konum í mínu lífi og svo sannarlega eru það skilaboð mín til þeirra að nauðgun er aldrei þeim að kenna. Og til sonar míns að það sé svo sannarlega aldrei í lagi. Ég bið þig um að þetta muni ekki eyðileggja líf þeirra.

Þín upplifun er staðreynd og það verður að laga en ég vona að það sé ekki gert með því að láta þær og þau ganga í gegnum þetta. Má ég biðja þig um það með fullri virðingu? Vanlíðan mín er algjör núna en ég tek fram að ég er ekki að biðja um vorkunn til mín heldur fjölskyldu minnar. Vonandi getum við tekið þetta áfram þannig. Ég virði þína upplifun á þessu og finnst hún hræðileg. Get ég á einhvern hátt beðið þig um að virða mína upplifun sem var ekki sú sama. En hjálpar það þér í þessu ferli að fjölskylda mín skuli splúndrast út af þessu? Ég er að biðja þig um að leyfa mér að vinna úr þessu með þér án þeirra aðkomu.“

Fannst henni með þessu Gunnar geri lítið úr upplifun hennar. Sagði hún að upplifun hennar væri ekki eitthvað sem þyrfti að laga eða leiðrétta. Bað hún Gunnar um að horfa á það sem gerðist út frá sjónarhorni foreldris. Hún hefði verið tvítug. Þeir báðir yfir þrítugt og áttu konu og börn. Hún ætti heldur ekki að þurfa að halda leyndu fyrir hann það sem hann hefði á samviskunni.

„Upplifun mín er það sem gerðist hvort sem þú vilt taka ábyrgð á því eða ekki. Ég sendi ykkur þetta til að skila skömminni því hún á ekki heima hjá mér og hvort þú kannt að skammast þín eða ekki, er ekki minn hausverkur. Ég get ekki látið þig sjá hvað þetta var rangt ef þú vilt það ekki en það myndi kannski hjálpa þér að setja þig í spor foreldra minna og sjá aðstæðurnar þannig.“

Þá segir hún að svörin frá Gunnari hafi ekki komið á óvart en hún hafi samt fyllst viðbjóði og titrað af reiði.

„Þótt þú sért ekki vondur maður þá varstu vondur við mig og hefur ekki einu sinni beðist fyrirgefningar á því hvað þú gerðir mér. Ég tek enga ábyrgð á því hvað þínar gjörðir munu gera þér eða þinni fjölskyldu, það er bara engan veginn á mér en ég er heldur ekkert að fara skipta mér af því hvort þú segir konunni þinni frá þessu eða ekki. Þú ræður því alfarið hvort þú takir áhættuna á því að hún gæti heyrt þetta einhvers staðar annars staðar frá. Ég er búin að taka skrefið sem ég þurfti að taka og framhaldið krefst ekki samskipta okkar á milli.“

Í dag sigurvegari

Þrátt fyrir vera búin að vinna úr áfallinu segir unga konan að enn komi dagar þar sem það tekur á að hugsa til þess að mennirnir tveir geti haldið áfram lífi sínu eins og ekkert hafi í skorist. Það sem vakti fyrir henni að stíga fram í viðtali á Pressunni var að benda á mikilvægt sé að gerendur stígi fram. Þeir axli ábyrgð, viðurkenni brot sín og hjálpi til við að breyta samfélaginu. Líf hennar hefur tekið miklu breytingum og er hún stolt af sjálfri sér og baráttuandanum sem hún býr yfir. Í dag er hún sigurvegari:

„Það er ótrúlegt hvað það hefur gert fyrir mig að skila skömminni. Skömmin hélt mun meira aftur af mér í lífinu en ég gerði mér grein fyrir. Í dag hef ég trú á sjálfri mér. Ég veit mín mörk og hvers virði ég er. Þetta er mín saga, ég á hana og geri það sem ég vil við hana.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“
Fókus
Í gær

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hawk Tuah-gellan í klandri út af rafmyntabraski – „Þú stalst af mér ævisparnaðinum“

Hawk Tuah-gellan í klandri út af rafmyntabraski – „Þú stalst af mér ævisparnaðinum“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Teddi náði botninum eftir að sérsveitin handtók hann í húsgagnaverslun

Teddi náði botninum eftir að sérsveitin handtók hann í húsgagnaverslun
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“