Hamborgarafabrikkan hefur legið undir ámæli fyrir þá staðreynd að flestir hamborgararnir á matseðlinum eru nefndir í höfuðið á karlmönnum. Þá segja gagnrýnendur að það geri illt verra að eini borgarinn með tilvísun í kvenmann, Ungfrú Reykjavík, sé heilsuborgari á speltbrauði.
Aðspurður um málið sagði Sigmar Vilhjálmsson, einn eigandi veitingastaðarins, að karlmennirnir væru einfaldlega duglegri að leita eftir samstarfi og deila með þjóðinni sínum uppáhaldsborgara. Líkamsræktarfrömuðurinn Ragga Nagli var fljót að taka við sér og bauð Fabrikkumönnum upp á samstarf. „Þótt maður sé heilsumelur þá er ekki vílað fyrir sér að dúndra einum löðrandi með öllum í ginið,“ sagði Naglinn.