Lenti á Reykjavíkurflugvelli á einkaþotu – Fjöldi aðdáenda beið eftir poppgoðinu
Poppstjarnan Justin Bieber lenti á Reykjavíkurflugvelli nú í hádeginu, en hann er hingað kominn vegna tvennra tónleika sem hann heldur í Kórnum annað kvöld og á föstudagskvöld.
Bieber kom hingað til lands á einkaþotu af gerðinni Gulfstream G550, en Bieber hefur áður notast við þessa tegund flugvélar. Fjöldi fréttamanna var á Reykjavíkurflugvelli í hádeginu til að freista þess að ná myndum og jafnvel tali af Bieber. Þá voru íslenskir aðdáendur hans mættir á Reykjavíkurflugvöll til að reyna að berja poppgoðið augum.
Í beinni sjónvarpsútsendingu á vef Vísis mátti meðal annars sjá starfsmenn Reykjavíkurflugvellar bera farangur tónlistarmannsins úr vélinni. Þar mátti meðal annars finna brimbretti, tvö hjólabretti, íshokkíkylfur og gítar svo fáein dæmi séu tekin. Það er því aldrei að vita nema kappinn skelli sér á brimbretti, nú eða niður Laugaveginn á hjólabretti.
Bieber var vel fagnað þegar hann steig út úr vélinni, en rúmur hálftími leið frá því vélin lenti þar til Bieber fór út úr vélinni. Bieber er enn á Reykjavíkurflugvelli, en óvíst er hvert ferðinni er heitið í dag. Þyrla frá Þyrluþjónustunni beið þó eftir Bieber og þegar þetta er skrifað er hún enn á Reykjavíkurflugvelli.
Tónleikar Biebers á Íslandi marka upphaf Purpose-tónleikaferðalags hans um Evrópu til að kynna nýjustu plötu þessa kanadíska tónlistarmanns. Gera má ráð fyrir að rúmlega 30 þúsund manns muni fara á tónleika Biebers hér á landi.
Bieber fór með þyrlu frá Reykjavíkurflugvelli. Samkvæmt heimildum Vísis mun hann búa í einbýlishúsi rétt utan við Reykjavík á meðan hann dvelur á Íslandi.