Draumafríið breyttist í martröð
Kærkomið sumarfrí tvítugrar konu breyttist í martröð í vikunni þegar hún vaknaði blind og með mikla verki í maga morguninn eftir djamm á grísku partý-eyjunni Zante.
Hannah Powell sem er bresk var með nokkrum vinkonum sínum í hefðbundinni sólarlandaferð þegar atvikið, sem á eftir að hafa varanleg áhrif á líf hennar, átti sér stað.
Eftir að vinkonur Hönnuh ráðfærðu sig við lækni var hún flutt á sjúkrahús. Þar kom í ljós að magaverkirnir voru tilkomnir vegna þess að Hannah var komin með nýrnabilun. Skyndilega sjónmissinn má sömuleiðis rekja til nýrnabilunarinnar.
Lögreglan á Zantos fer nú með rannsókn málsins en grunur leikur á að á einhverjum barnum sem vinkonurnar heimsóttu nóttina áður en Hannah veiktist hafi hún drukkið áfengi sem búið var að þynna út með vatni og það falið með því að blanda metanóli (tréspíra) út í flöskuna.
Hönnuh var komið strax í aðgerð þar sem reynt var að bjarga nýrunum en það tókst ekki nema að litlu leiti. Sjónin kom heldur ekki til baka en það eina sem hún sér eru ákveðin form. Þetta segir móðir hennar í samtali við breska fjölmiðla.
„Við flugum beint til Grikklands þegar við fréttum af ástandi dóttur okkar en hún er núna á sjúkrahúsi í Aþenu. Hún þarf að fara í blóðskilun á hverjum degi og sér lítið sem ekki neitt,“ segir áhyggjufulla móðirin sem þráir ekkert heitar en að koma dóttur sinni aftur til Bretlands.
Hún greinir jafnframt frá því að lögregluyfirvöld á svæðinu hafi tekið skýrslu af þeim og rannsaki nú hvaðan Hannah fékk drykk sem innihélt tréspíra.