fbpx
Mánudagur 05.maí 2025
Fókus

Hetjudáð Steve Buscemi rifjuð upp

Var slökkviliðsmaður á Manhattan áður en hann gerðist leikari – Reynsla hans kom að góðum notum eftir árásirnar 2001

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 12. september 2016 17:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikarinn góðkunni var slökkviliðsmaður í New York áður en hann sló í gegn sem leikari.
Slökkviliðsmaður Leikarinn góðkunni var slökkviliðsmaður í New York áður en hann sló í gegn sem leikari.

Bandaríkjamenn minntust þess í gær að fimmtán ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum þann 11. september 2001. Af því tilefni voru fjölmargar sögur rifjaðar upp og ein þeirra varðar bandaríska stórleikarann Steve Buscemi.

Buscemi, sem er 58 ára, vann sem slökkviliðsmaður í New York áður en hann varð frægur Hollywood-leikari. Árið 2001 var hann þegar kominn í hóp vinsælustu leikara Bandaríkjanna og hafði hann leikið í myndum eins og Reservoir Dogs, The Big Lebowski og Fargo svo örfáar séu nefndar.

Buscemi varð slökkviliðsmaður í borginni árið 1980 og starfaði hann á Manhattan um fjögurra ára skeið.

Eftir árásirnar á Tvíburaturnana í New York var mikil þörf á aukamannskap eins og gefur að skilja. Buscemi lét ekki sitt eftir liggja og snéri aftur til fyrri starfa hjá á slökkvistöð 55 þar sem hann hafði áður unnið.

Buscemi vann í nokkra daga á tólf tíma vöktum þar sem hann hafði meðal annars því hlutverki að gegna að finna fólk í rústum Tvíburaturnanna. Lítið var fjallað um þetta afrek Hollywood-leikarans á sínum tíma, meðal annars af þeirri einföldu ástæðu að Buscemi vildi það ekki. Honum þótti sjálfsagt að koma samborgurum sínum og fyrrverandi samstarfsfélögum til aðstoðar þegar þörf var á.

Buscemi tjáði sig nær aldrei um þennan tíma eftir árásirnar. Hann rauf þó þögnina í viðtali árið 2013 þar sem hann sagði að það hafi verið heiður að geta rétt fram hjálparhönd. „Mér fannst sannur heiður að geta aðstoðað. Það var stórkostlegt að fara í sitt gamla starf og hitta gamla samstarfsfélaga,“ sagði heiðursmaðurinn Steve Buscemi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

United horfir til Mbeumo