Lýsir baráttu sinni við þunglyndi og kvíða á einlægan hátt – „Ég er ekki vond mamma, ég var rosalega veik mamma“
„Stundum þarf mamma mín að skutla dóttur minni á leikskólann, og eyða degi með henni einfaldlega af því að ég kemst ekki frammúr, það er ekki afþví ég er löt eða nenni ekki. Ég er þá bara að eiga slæman dag, minn er bara aðeins verri en hjá flestum. Ég er samt ekkert verri manneskja fyrir vikið,“ segir Lísa Rún Guðnýjardóttir en hún hefur barist við þunglyndi og kvíða í kjölfar fæðingu dóttur sinnar fyrir fjórum árum. Segir hún mikilvægt að koma á hugarfarsbreytingu í samfélaginu gagnvart geðrænum sjúkdómum, en sjálf þurfti hún takast á við eigin fordóma í kjölfar þess að hún leitaði sér hjálpar við veikindum sínum.
Lísa ritaði einlæga færslu á facebook nú á dögunum þar sem hún lýsir því meðal annars hvernig veikindi hennar hafa komið við uppeldi dótturinnar. Í samtali við blaðamann tekur hún hiklaust undir að geðsjúkdómar séu ennþá „tabú“ í íslensku samfélagi, þrátt fyrir aukna umræðu undanfarin misseri.
„Ég allavega upplifi það þannig, sérstaklega þegar það tengist meðgöngu og barneignum. Sem er ótrúlega slæmt; ef að verðandi foreldri líður eins og mér leið og leitar sér ekki hjálpar þá gætu fleiri en eitt líf verið í hættu,“ segir hún og tekur undir að geðsjúkdómar hafi ekki aðeins áhrif á þann sem þjáist af honum heldur alla í kringum hann, börn viðkomandi, fjölskyldu og vini.
Hún segir þunglyndi hafa verið undirliggjandi hjá sér frá því á unglingaldri en það hafi verið í kjölfar fæðingu dótturinnar að það lét virkilega á sér kræla. „Ég kom illa út í krossa prófi hjá mæðravernd, þađ átti síðan að fylgjast með því en það gleymdist, og ég þorði ekki að biðja um hjálp,“ segir Lísa Rún en hún fékk að lokum greiningu árið 2014.
„Ég fór þá í ferli að komast inn á geðdeild komast ađ inná geðdeild og komst loks að hjá yndislegri konu sem hefur hjálpað mér mikið á aðeins örfáum mánuðum. Áður gat ég ekki farið ein útí búð, en núna er ég að tala um þetta við alla sem nenna að hlusta!“
„Ég er greind þunglynd og með kvíðaröskun, stundum fer ég uppá geðdeild en ég reyni alltaf að leggja bílnum mínum þannig að fólk sem ég þekki sjái hann ekki þegar það keyrir frammhjá, afhverju? Afþví ég vil ekki að fólk haldi að ég sé geðveik, að ég sé mamma og geðveik? Greyið barnið mitt.
En þökk sé geðdeild og fólksins sem hefur aðstoðað mig þá þarf ekki að segja það, ekki lengur. Ég bað fyrst um hjálp ekki fyrir svo löngu, þá var ég búin að sitja og skammast mín fyrir að líða svona alltof lengi, og mamma búin að nöldra í mér alltof lengi,“
ritar Lísa i pistli sínu.
„Fyrst eftir að dóttir mín fæddist hugsaði mamma mín um hana fyrir mig, nema þegar mamma fór í sund tvisvar í viku,þá var ég ein með hana, og satt að segja þá dauðkveið mig fyrir því. Afþví að ég var ekki hæf, hún hefði það betra án mín, þið trúið ekki því sem fór í gegnum hausinn á mér, ég trúi því varla sjálf þegar ég hugsa til baka.
Ég er ekki vond mamma, ég var rosalega veik mamma. Reyndar er ég ennþá veik, og verð eflaust alltaf.“
Lísa segir dagana vera misjafna, en hún gerir ávallt sitt besta:
„Stundum þarf mamma mín að skutla dóttur minni á leikskólann, og eyða degi með henni einfaldlega afþví ég kemst ekki frammúr, það er ekki afþví ég er löt eða nenni ekki. Ég er þá bara að eiga slæman dag, minn er bara aðeins verri en hjá flestum. Ég er samt ekkert verri manneskja fyrir vikið.“
Þá minnir Lísa fólk á að huga að öðrum í kringum sig og vera til staðar fyrir þá sem þurfa á því að halda.
„Veturinn er að koma, honum fylgir því miður myrkrið og því fylgir oft mikið þunglyndi hjá því miður alltof mörgum. Verum vakandi fyrir fólkinu í kringum okkur, stundum hjálpar eitt knús eða einfaldlega að segja manneskju eitthvað sem þau þurfa að heyra.“