

Ragnhildur er sálfræðingur með áherslu á heilsusálfræði og lærður einkaþjálfari.
Sjá einnig: Ragnhildur segir að þetta sé ekki eina leiðin til að borða hollt – Prófaðu þessa nýju nálgun í staðinn
„GLP-1 þyngdarstjórnunarlyf á borð við Wegovy, Ozempic, Mounjaro og Zepbound eru vinsælli en miðar á Taylor Swift tónleika um þessar mundir. Svo vinsæl að þau voru söngatriði í Skaupinu,“ segir Ragnhildur.
„GLP-1 geta verið gagnleg fyrir réttan hóp af fólki sem hafa glímt lengi við yfirþyngd og reynt margar aðferðir til að grenna sig. Þau hægja á meltingu og seinka tæmingu magans niður í þarmana, og það heldur mettunarstigi lengur. Og pervertískar langanir og skvaldur um sælgæti halda KáJoð á meðan í hausnum.
Rannsóknir sýna að fólk missir 5-18% af líkamsþyngd. Ekkert hvetur mannskepnuna meira en að upplifa árangur og að missa þyngd getur þannig stuðlað að annarri heilsuhegðun. Að missa þyngd getur bætt sjálfsmyndina sem dúndrar upp sjálfstraustinu til að hreyfa sig. Að vera í minni og léttari líkama gerir hreyfingu auðveldari sem er hvetjandi.“
Ragnhildur nefnir fyrir hvern þessi lyf eru ekki.
„Þessi lyf eru EKKI fyrir fólk nálægt kjörþyngd og vill skafa síðustu kílóin til að komast í árshátíðarkjólinn. EKKI afsökun fyrir að stunda ekki hreyfingu. EKKI hækja til að væna og dæna og gefa skít í hollustu.
Því það fylgir böggull skammrifi. Aukaverkanir eru flökurleiki, harðlífi, niðurgangur, bakflæði. Lágar hitaeiningar auka hættu á næringarskorti, vöðvarýrnun, hárlosi, beinþynningu. Og að bæta á sig öllu og meira til þegar fólk hættir.“
Ragnhildur segir að það sé gríðarlega mikilvægt að tileinka sér langvarandi heilsuvenjur svo þyngdartapið verði varanlegt. „Svo þú þurfir ekki að reiða þig á pennann það sem eftir er,“ segir hún og gefur nokkur ráð fyrir fólk á GLP-1 lyfjum.
„Dúndra upp prótíni. Þó að hitaeiningainntaka sé lægri en áður þá breytir það ekki þörfinni fyrir orkuefni, vítamín og steinefni. Sérstaklega mikilvægt er að bæta í prótínið til að viðhalda vöðvamassa og byggja upp nýjan. Settu prótín í aðalhlutverk í öllum snæðingum dagsins.
Styrktarþjálfun. Vöðvarýrnun lækkar grunnbrennsluna sem eykur líkur á að bæta aftur á sig þyngdinni þegar þú hættir á lyfjunum. Það er ekki nóg að juða í sig prótíni. Þú þarft að gefa vöðvunum ástæðu til að hanga á grindinni og kalla út aukamannskap að byggja meiri massa. Það gerist einungis í gegnum styrktarþjálfun. Rífðu í járnið 2-3x í viku svo þú sért örugglega að missa mör en ekki kjöt.
Drekka nóg vatn til að halda stuði í þörmunum og hjálpa umferðinni. Því harðlífi er algeng aukaverkun, og ef þú ert þurrari en kaktus í eyðimörk þá situr allt pikkfast.
Félagslegur stuðningur. Besta forspá um hvort heilsuhegðun festist í sessi er hvort þú hafir stuðning og skilning heimavið. Þú þarft að breyta umhverfinu í eldhúsinu, og gera heimilismeðlimum ljóst um breyttar matarvenjur.
Gera máltíðirnar að gúrmeti. Ef þú ætlar að geirnegla heilsuvenjur til langtíma þá þarftu að gera hollustuna að hamingjustund með kryddum, bragði, áferð. Ekki sorgmæddur að slafra kálblað með kotasælu.
Vinna í sambandi við mat. Þú þarft að skilja hvenær og hvers vegna þú tætir upp kex og kruðerí í pirringi, stressi, þreytu, svekkelsi með aðstoð fagaðila. Þannig geturðu búið til ný hjálplegri bjargráð.
Gera svefninn sexý. Að sofa lítið dúndrar upp svengdarhormónum svo þú ert eins og kettlingur í húsasundi. Það keyrir líka upp kortisól sem stuðlar að pervertískum löngunum í sósað sveittmeti. Við erum líka ólíklegri til að hreyfa okkur þegar þreytan úsar um æðarnar.
Taka bætiefni. Þar sem þú ert að borða minna eykst hætta á næringarskorti og þar geta bætiefni komið inn eins og riddari á hvítum hesti. Til dæmis Omega-3, járn, B-vítamín, fjölvítamín, D-vítamín og kreatín.“
Ragnhildur segir að vissulefa hjálpa þessi lyf fólki að borða minna. „En þau ýta þér ekki í ræktina, segja þér ekki að gúlla vatn, laga ekki sambandið við mat, kenna þér ekki að elda hollustu, né laga félagslega umhverfið. Rannsóknir sýna að 65% hætta á þessum lyfjum eftir 6-12 mánuði. Ef þú ætlar að sjúga allt sem þú getur úr þessu verkfæri, og geta hætt á lyfjunum án þess að bæta öllu á þig aftur krefst vinnu af þinni hálfu. Ekkert í lífinu er ókeypis.“