Íri greinir frá því á Reddit að það sé hans niðurstaða eftir tvær heimsóknir til Íslands á síðustu 15 árum að fullyrðingar sem hann hefur orðið var við um að Íslendingar séu þurrir á manninn og ekkert sérstaklega vinalegir eigi ekki við rök að styðjast. Telur hann einfaldlega um misskilning að ræða og þeir sem haldi slíku fram þurfi að setja sig betur inn í menningu Íslendinga.
Írinn segir Íslendinga hafa orðið jákvæða í sinn garð eftir að hann lærði nokkur íslensk orð. Hann ásamt samferðafólki hafi hitt nokkra Íslendinga á bar og farið með þeim á rúntinn:
„Við ræddum stjórnmál, ferðalög, sögu og svo áttum við í frábærum samræðum um þorskastríðin.“
Írinn segir að Íslendingar hafi síðan boðið ferðalöngunum í mat en á móti fengið flösku af írsku viskíi. Þegar hann lesi frásagnir frá öðru enskumælandi fólki um hversu kaldir Íslendingar séu þá velti hann því fyrir sér hvort þetta fólk hafi engan skilning á menningu annarra þjóða. Það sé einfaldlega ekki rétt að Íslendingar séu kaldir þeir séu hins vegar hlédrægir eins og Finnar:
„Sem Íri þá finn ég að við eigum margt sameiginlegt og ég er forviða yfir ásökunum um að þeir séu ekki vinalegir. Þeir eru opnir fyrir öðrum menningarheimum, framsæknir og hafa frjálslynda afstöðu til ýmissa málefna. Fyrir mér snýst málið frekar um þá sem skortir skilning á menningu en að kalla Íslendinga kalda.“
Ýmsir taka undir það í athugasemdum að Íslendingar séu sannarlega vinalegir:
„Allir Íslendingar sem ég hef hitt á ferðum mínum hafa verið mjög vinalegir. Ég verð í rauninni hissa þegar þeir segjast vera hlédrægir því það er alls ekki mín upplifun. Þeir hafa alltaf átt frumkvæði að samræðum, brosað, heilsað mér hlýlega og látið mér finnast ég vera velkomin.“
„Íslendingar og aðrir Norðurlandabúar geta virst fyrir mörgum vera snubbóttir og kaldir en fólk frá þessum löndum hefur orðið nánustu vinir mínir.“
Þó eru ekki allir í athugasemdum sem eru ánægðir með Íslendinga. Sumir segjast hafa orðið fyrir kynþáttafordómum á Íslandi og í einni athugasemd er því haldið fram að slíkt búi í meirihluta Íslendinga. Viðkomandi er þá minntur á að dæma ekki heila þjóð út frá nokkrum einstaklingum.
Íranum er einnig bent á að þar sem hann hafi farið á bar til að drekka áfengi hafi Íslendingar hópast í kringum hann. Írinn svarar því til að hann hafi einnig átt samræður við Íslendinga á kaffihúsum og þar hafi ekkert nema kaffi verið drukkið.